Annar heimtar blóð hinn tiplar í kringum grautinn

Ólíkt hafast þeir að, leiðtogar stjórnarandstöðunnar vegna skýrslunnar um Íbúðalánasjóðs. Annar er á kafi í hausaveiðum og vill að blóðið renni. Hinn þorir vart að mæla vegna þess að hann var sjálfur á kafi í því sem kollegi hans kallar „græðgi og svindl í gjörspilltu kerfi“.
 
Morgunblaðinu í morgun er vitnað í tvo stjórnmálamenn. Í blaðinu segir: 
 
Ögmundur Jónasson, þingmaður VG og formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis, sagði í umræðunni að fjármálakerfið og félagsleg öfl hafi lengi tekist á um hlutverk Íbúðalánasjóðs og að höfundar rannsóknarskýrslunnar hafi horft framhjá þeim tíðaranda græðgi og svindls í gjörspilltu kerfi.
 
Og svo er viðtal tekið við Árna Pál Árnason, lögmann en hann mun enn vera formaður Samfylkingarinnar og hann segir:
 
Skýrslan styrkir mig í þeirri trú að miklu máli skiptir að hafa sterka stofnanaumgjörð og betra eftirlit. Það er til dæmis alvarlegt að fallið hafi verið frá því að kalla til bankaábyrgðar frá verktökum og aldrei var sú ákvörðun dregin í efa en með því var verið að setja almannahagsmuni í hættu. Þetta er bara dæmi þess hversu veik umgjörð stjórnsýslu Íbúðalánasjóðs hefur verið. 
 
Við hin, sem eigum öngva hagsmuna að gæta nema að þjóðfélagi gangi eins og smurð vél okkur öllum til hagsbóta, spyrjum nú hvort að þessir enn eigi eitthvurt erindi upp á dekk. Er málflutningur þeirra að einhverju leiti fallinn til þess að efla skynsamlega stjórnmálaumræðu eða úrbóta í málefnum Íbúðarlánasjóðs? Annar vill sjá blóð, hinn fer eins og köttur í kringum heitan graut svo ekki slettist meira á hann en orðið er.
 
Hvað sem tautar og raular er eiginlega nóg komið af ófagmennsku stjórnmálamanna og embættismanna sem einungis vilja skara eld að sinni eigin köku eða sitja á sínum rassi og þora ekki að taka á málum. Eitt er hins vegar víst, við náum engum árangri með hausaveiðum heldur skynsömum og faglegum aðgerðum. 

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband