Lúpínan er ódýr leið til uppgræðslu lands

Lúpínan er í sínum mesta blóma þessa daganna og reglulega ánægjulegt að sjá bláar breiðurnar þekja landið sem áður var örfoka auðn.

Í gær ritaði ég pistil og vitnaði til sveitarstjórans á Grenivík sem hefur hinar mestu áhyggjur af útbreiðslu lúpínunnar. Þetta reyndist vera hinn mesti misskilningur sveitarstjórans eins og skógræktarmenn á fésabókarsíðunni Vinir lúpínunnar sýndu fram á. Aðeins hverfandi kostnaður er að stoppa lúpínuna, þvert á það sem sveitarstjórinn heldur.

Svo mikill áróður hefur verið gegn lúpínunni hér á landi og margir taka of mikið upp í sig af einskærri vanþekkingu

Ágúst Bjarnason ritar athugasemd við pistilinn minn í gær og fer, eins og honum er von og vísa, málefnalega yfir umræðuna um lúpínuna. Hann benti okkur lesendum á nokkrar greinar á bloggsíðu sinni. Þær voru afar upplýsandi fyrir leikmann eins og mig. Þar rakst ég á athugasemd sem Sigvaldi heitinn Ásgeirsson ritaði. Mér finnst þessi skrif Sigvalda svo skynsamleg að ég tek mér það bessaleyfi að birta hluta af þeim hér (leyfi mér að bæta við greinaskilum á stöku stað og feitletra sumt til áhersluauka):

Fólk er oft að ruglast í ríminu, þegar það ásakar lúpínu um að ráðast inní berjalönd af hvaða tagi sem er. Hún dreifir sér aðeins þar sem svarðgróðurinn, þ.m.t. mosinn er gloppóttur. Á Laugarheiðinni innan við hverasvæðið breyttist krækilyngsmói smám saman í bláberjaland. Ég efa ekki, að með tíð og tíma og án ferfættra beitardýra mun bláberjalyngið láta undan fyrir gróskumeiri gróðri, alveg án aðkomu lúpínu á þessu landi. Þess má geta, að aðalbláberjalyng er algengasta gróðurhverfið í norskum rauðagreniskógum, en er auðvitað ekki áberandi, meðan skógurinn er á þéttasta þroskastigi.

Fólk verður að læra að taka tímavíddina með í reikninginn, þegar það skoðar náttúruna. Þróun gróðurs frá örfoka landi til þess að verða frjósamt land, án aðkomu lúpínu eða annarra belgjurta, getur eflaust tekið margar aldir, þannig að ég hygg að hún Ásthildur Cesil Þórðardóttir sé full bráðlát. Hún ætti að taka sér til fyrirmyndar Erlend heitin á Hamarsheiði í Gnúpverjahreppi. Þegar Sr. Flóki spurði Erlend, hvernig á því stæði, að hann maður um sjötugt væri að byrja í skógrækt svaraði Erlendur: "Ég ætla að planta þangað til ég drepst og koma svo aftur og sjá, hvernig til tókst." Prestur bað hann þá endilega að reyna að finna einhvern til að passa skóginn á meðan.

Lúpínan er svo miklu ódýrari leið til uppgræðslu en áburður og grasfræ, að mismunurinn getur örugglega verið meira en hundraðfaldur. Þegar við bætist, hve orkufrek áburðarframleiðslan er, hann að hluta framleiddur úr olíu, fluttur langan veg til landsins með tilheyrandi útblæstri koltvísýrings, skil ég ekki að menn geti verið á móti notkun lúpínu til landgræðslu og jafnframt talið sig vera umhverfisverndarsinna.

dsc_0012.jpgÉg skil vel sjónarmið þeirra, sem elska grjótið, en finnst að þeir ættu að geta látið sér nægja eyðimerkur, sem liggja annaðhvort of hátt yfir sjó fyrir lúpínuna eða eru of þurrar fyrir hana. Eldgos hófust ekki við landnám og skógum var að mestu eytt áður en loftslag tóka að kólna. Eins er ljóst, að kólnunin hefði aðeins átt að færa gróðurmörkin neðar, en ekki eyða gróðri niður að sjávarmáli. Þar átti mannskepnan allan hlut að máli, því maðurinn hlýtur að ráða yfir sauðkindinni en ekki öfugt.

Það munu vera til rannsóknaniðurstöður, sem sýna, að háplöntur eru færri í lúpínubreiðu en í örfoka mel. Skyldi engan undra. En eins og rannsókn Daða Björnssonar í Heiðmörkinni sýnir skýrt, víkur lúpínan, nema þar sem er viðvarandi áfok eða árennsli. Gaman væri, ef rannsókn hans væri framlengd frá 1990, þegar síðustu lofmyndir, sem hann notaði munu hafa verið teknar og fram til dagsins í dag. Þá kæmi hygg ég í ljós, hve fyndin orð þau eru, sem höfð voru eftir bæjarverkfræðingi Garðabæjar í Mbl. 28. júní sl., þar sem hann spáði því, að lúpínan myndi leggja undir sig alla Heiðmörkina á næstu 10 árum.

Adsc_0013_1206997.jpgf hverju ætti lúpínan að leggja Heiðmörkina undir sig aftur, svona nýbúin að því og hörfar ört (nema á einhverjum örfoka melum ofan við Vífilsstaðavatn, þar sem hún varð dálítið sein fyrir). Þegar lúpínan víkur, fjölgar háplöntunum aftur. Jafnframt fjölgar mjög jarðvegslífverum í lúpínubreiðu, miðað við örfoka land, sbr. rannsóknir Eddu Oddsdóttur. Fuglar gera sig heimakomna í lúpínubreiðum. Þar nærast þrestir á ánamöðkum og spóinn hefur einhverra hluta vegna nýtt sér lúpínuakra sem búsvæði, þótt fjarri fari því að þeir geti talist votlendi. Þéttleiki músastofnsins er líka gífurlegur í lúpínubreiðum og þ.a.l. fjölgar branduglu, þar sem mikið er um lúpínu.

dsc_0018_1206999.jpgSkyldi Náttúrufræðistofnun hafa rannsakað samband lúpínu og fuglalífs? Þegar allt kemur til alls eykur lúpínan því lífbreytileikann, þótt hún hafi mér vitanlega engin áhrif á fjölbreytni líffræði sem fræðigreinar. Þar mætti þó eflaust bæta úr. Þekkt er þjóðsagan, sem talin var viðtekin vísindi á Bretlandseyjum meðal náttúrufræðinga, um að engir fuglar þrifust í sitkagreniskógum. Annað kom nefnilega í ljós, loksins þegar fuglafræðingar treystu sér til að hefja rannsóknir á fuglalífi í sitkagreniskógum þarlendum. Sigvaldi Ásgeirsson (IP-tala skráð) 2.7.2010 kl. 14:25 

Fleira spaklegt hefur Sigvaldi ritað og margir aðrir fagmenn. Læt þetta hins vegar duga í bili en vísa til þeirra heimilda sem Ágúst gaf upp. Þær eru þessar:

Aldingarður á hálendinu með hjálp lifandi áburðarverksmiðju

Lúpínan á Haukadalsheiði - Myndir

Lúpínufuglar

Hörfar lúpínan þegar hún hefur unnið sitt verk...?

Myndirnar tók ég í Spákonufelli á Skagaströnd fyrir fjórum árum. Þar hefur lúpínan smám saman klifið fjallið og myndar fagrar breiður. Tvær efri myndirnar sýna hvernig hún umkringir bláberjalyngið en virðist ekki hafa farið inn í það nema þar sem pláss hefur verið fyrir.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Aðalsteinn Sigurgeirsson

Sæll Sigurður. Þakka þér fyrir að minna okkur á þessi ágætu hugleiðingar Sigvalda heitins félaga okkar frá árinu 2010.
Varðar eftirfarandi ath.s. Sigvalda: "Gaman væri, ef rannsókn hans [Daða Björnssonar] væri framlengd frá 1990, þegar síðustu lofmyndir, sem hann notaði munu hafa verið teknar og fram til dagsins í dag. Þá kæmi hygg ég í ljós, hve fyndin orð þau eru, sem höfð voru eftir bæjarverkfræðingi Garðabæjar í Mbl. 28. júní sl., þar sem hann spáði því, að lúpínan myndi leggja undir sig alla Heiðmörkina á næstu 10 árum".

Rúmlega ári síðar varð Daði við áskorun Sigvalda, rýndi í nýjar loftmyndir og ritaði gagnmerka grein um rannsóknina á lúpínu í Heiðmörk í Skógræktarritið.
Ágúst H. Bjarnason vitnaði til þeirra greinar í pistli sínum frá því í ársbyrjun 2012:


"Svör við fyrri spurningunni má lesa í grein Daða „Hörfar lúpínan? Dæmi úr Heiðmörk" sem aðgengileg er á vef Skógræktarfélags Íslands með því að smella hér.  Myndir Daða með skýringum er að finna hér,  en þar má m.a. sjá svar við seinni spurningunni."

Aðalsteinn Sigurgeirsson, 2.7.2013 kl. 23:44

2 Smámynd: S i g u r ð u r   S i g u r ð a r s o n

Já, þessar rannsóknir Daða gerðu það að verkum að ég fór að endurskoða hug minn varðandi lúpínuna og komst að því hversu góð hún er. Gleymdi nú að geta þess að ég hef skrifað um rannsóknir Daða, sjá http://sigsig.blog.is/blog/sigsig/entry/1253055/.

S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 3.7.2013 kl. 07:29

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband