Orkuveita er ekki sennileg í umhverfismálum
10.5.2013 | 20:28
Nú held ég að almannatengslafulltrúar Orkuveitu Reykjavíkur hafi misst sjónar af markmiðum fyrirtækisins og við tekið einhvers konar sýning á því sem ósennilegt má teljast..
Þeir 600 lítrar sem féllu niður á þykka mölina á bílastæðinu verða aldrei til nokkurs skaða. Olían var mokuð upp og flutt til eyðingar. Það sem hugsanlega kann að hafa farið niður í hraunið verður ekki til skaða.
Nú er hins vegar verið að setja upp einhvers konar sýningu sem á að setja Orkuveituna í jákvætt ljós. Verið sé að rannsaka og kanna í því skyni að verja vatnsból Reykjavíkur. Ég held að það sé óhætt að veðja umtalsverðum fjárhæðum á að olían sem erindi átti í Þríhnúkagíg mun aldrei finnast í neysluvatninu. Þetta vita allir sem vilja vita.
Hins vegar væri fróðlegt að vita hvers vegna olíuslysið varð. Sleppti þyrlan tankinum með olíunni eða slitnaði strengurinn? Samþykkti umhverfissérfræðingur Orkuveitunnar flutning olíunnar í svona losaralegu íláti? Og síðast en ekki síst væri fróðlegast að vita hvert hafi verið fyrsta verk umhverfissérfræðingsins Orkuveitunnar sem var á vettvangi. Hringdi hann fyrst í fjölmiðla og tók svo til við að redda málum á staðnum?
Þegar öllu er á botninn hvolft færi best á því að Orkuveitan sinnti störfum sínum en léti leikhúsunum eftir sýningar, jafnvel þó þær eigi að vera í ætt við raunveruleikann. Saga Orkuveitunnar undanfarin ár markast af miklu mistökum, ekki síst í umhverfismálum. Orkuveitan er ekki sennileg í þeim málum.
Neysluvatn borgarbúa vaktað | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.