Ríkisstjórn í bókhaldi og innheimtustörfum
15.4.2013 | 09:55
Bæði málin [stjórnarskrármálið og umsóknin að ESB] reyndust stjórninni ofvaxin, aðferðafræðin við endurskoðun stjórnarskrárinnar meingölluð frá upphafi og ESB-umsóknin það innanmein sem sýrði samstarf flokkanna og tvístraði röðum VG þannig að stjórnin missti í reynd þingmeirihluta áður en lauk.
Þetta segir Hjörleifur Guttormsson, fyrrverandi þingmaður Alþýðubandalagsins og ráðherra, í grein í Morgunblaðinu í morgun. Hann er einn þeirra vinstri grænna sem varaði forystu flokks síns við stefnunni og stendur nú ásamt fleirum yfir rústum flokksins. Veit sem er að rústabjörgun verður ekki reynd.
Dýrkeypt ríkisstjórnarsamstarf
Og hann segir:
Talsmenn þeirra telja sér helst til tekna að hafa í fyrsta sinn í sögu lýðveldisins haldið úti vinstristjórn í heilt kjörtímabil. Það hefur verið dýrkeypt úthald fyrir flokka sem hófu samstarf vorið 2009 með hreinan meirihluta á Alþingi á bak við sig. Í bráð mun reynast erfitt að byggja á ný upp traust á vinstristefnu sem fái risið undir nafni, enda margt í þeim farangri orðið harla merkingarlítið.
Skrýtið hvað maður getur stundum verið sammála Hjörleifi. Ekki vegna þess að við séum á öndverðum meiði í stjórnmálum og ég standið álengdar og glotti yfir óförum vinstri stjórnarinnar. Nei, miklu frekar að við séum sammála um þá einföldu staðreynd hvernig stjórnmálastefna getur orðið að merkingarlausu tali þegar stefnufestan og eldmóðurinn dvín í daglegu amstri.
Starfskraftur óskast
Mér finnst einhvern veginn að starf ríkisstjórnarinnar hafi orðið að tómu rugli, ekki þannig að ríkisstjórnin hafi ekki gert neitt gagn. Þó er eins og þeir sem starfa þar hafi svarað atvinnuauglýsingu þar sem óskað var eftir starfskrafti til að sinna bókhaldi og innheimtu.
Og bókhaldið er samviskulega fært af starfsmönnum ráðuneytanna og innheimtan hefur farið geyst af stað og refsað miskunnarlaust fyrir öll undanbrögð.
Bílli hreyfist ekki
En það var ekki þetta sem þjóðin vildi. Svo vildi til að hér varð hrun, í kjölfarið sprakk á öllum, en í stað þess að skipta um dekk og koma ökutækinu aftur í umferð var farið í allt aðra hluti. Hanskahólfið tekið í gegn, sæti ryksuguð, framrúðan pússuð, beltin spennt og ökumaðurinn heldur því fram að bíllinn hreyfist þó svo að hann geri það ekki.
Hvað svo sem gerist innan Vinstri grænna skiptir mig engu máli og fæsta kjósendur. Sá flokkur er búinn að vera og næsta verkefni að finna einhvern annan sem sameina á vinstri menn.
Allt stendur fast
Við þurfum að komast á hreyfingu. Nauðsynlegt er að útiloka ESB aðildina, setja fram trausta og trúverðuga stefnu í efnahagsmálum, auka fjárfestingu, ráðast á þann vanda sem valdið hefur hrikalega slæmri skuldastöðu heimila, útrýma atvinnuleysi og gera Ísland aftur að góðum kosti svo þeir sem flúið hafi landi geti komið aftur til baka.
Staða Hjörleifs
Þetta er þó auðveldara sagt en gert. Þeir flokkar sem veljast í ríkisstjórn þurfa að taka á honum stóra sínum ella er öllu lokið. Enginn vill standa í sömu sporum og Hjörleifur Guttormsson er núna og þurfa að berja á flokksforystu sinni fyrir að hafa ekki staðið við stefnuna.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.