Útbúnaður er svo góður að útveran er hættulaus
15.4.2013 | 09:23
Kuldi hefur lítil sem engin áhrif á vel búið fólk sem sefur í svefnpoka í tjaldi. Fréttamaðurinn sem skrifar meðfylgjandi frétt hefur örugglega enga reynslu af slíku.
Vindkæling hefur ekki heldur nein áhrif því tjaldið ver mennina fyrir henni og þar að auki svefnpokinn. Sé svefnpoki góður eru flestir léttklæddir inni í honum, annar myndi enginn þola þar við.
Um daginn gisti ég í húsi á Hornströndum. Fyrstu nóttina var um fimm gráðu frost úti og svipaður kuldi innan dyra. Það var ekki fyrr en aðra eða þriðju nótt að við náðum að koma kyndingunni í húsinu í gagnið. Ekkert amaði þó að okkur sem þarna gistum. Auðvitað vorum við allir með góða svefnpoka.
Annars held ég að markvisst sé verið að ala á aumingjaskap hér á landi. Fjölmiðlar gera alltof mikið úr útiveru og telja það aðeins á færi ofurmenna að ferðast um að vetrarlagi, ganga á fjöll eða vera yfirleitt úti í rigningu í höfuðborginni og nágrenni. Hugtakið gluggaveður er eitt af því sem fjölmiðlar hafa fundið upp öllum til óþurftar.
Alla mína æfi hef ég stundað útveru, ferðast um landið að sumar og vetrarlagi með góðu fólki. Af reynslu minni er útilokað að illa fari fyrir þeim sem þetta stunda nema því aðeins að alvarleg mistök séu gerð.
Fatnaður og útbúnaður er að verða svo frábær að hann ver fólk einfaldlega fyrir grandi. Þó þarf alltaf skynsemi að vera með í för. Án hennar er hættan vís, ekki aðeins í ferðalögum heldur einnig þegar gengið er yfir umferðagötu eða dvalið innandyra.
Svo má hafa það hugfast að flestir enda líf sitt í mjúku rúmi í hlýjum húsakynnum.
Sofa í tjaldi í kuldanum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.