Heldur þú að við séum ekki mannlegir?

Fréttir síðastliðinnar viku vitna um það sem gerðist fyrir 40 árum er saklaust fólk var dæmt til að eyða mörgum af sínum bestu árum bak við lás og slá. Hvers vegna gerðist það? Meðal annars vegna þess að lýðurinn hrópaði eins og í Jerúsalem forðum.
 
Styrmir Gunnarsson vitnar í þessi orð Agnesar M. Sigurðardóttur, biskups Íslands, í grein í Morgunblaðinu í morgun. Hann tekur undir með biskupi og bendir á að umræðan í þjóðfélaginu geti orðið slík að til verði „andrúmsloft galdrabrennunnar“. 
 
Þetta er mjög áhugavert umfjöllunarefni. Getur verið að umræðan í samfélaginu geti einfaldlega orðið þess valdandi að dómsmorð verði framið, að réttur einstaklinga verða að einhverju leiti fórnað til að róa samfélagið. Var það ekki nákvæmlega þetta sem um var fjallað í dönsku bíómyndinni þar sem leikskólakennarinn var saklaus ásakaður um að hafa misnotað barn í sinni umsjón. Eftir það átti hann sér ekki viðreisnar von.
 
Hversu hræðileg getur samfélagsumræðan ekki orðið, miskunnarlaus og drepandi? Hver á þá að standa upp og gæti laga og réttar?
 
Styrmir ræðir af þungri alvöru um svokölluð Guðmundar- og Geirfinnsmál og segir:
 
Hvernig varð þetta andrúmsloft til? Með nokkurri einföldun má segja, að það hafi verið búið til af stjórnmálamönnum og fjölmiðlum. Í stjórnmálabaráttu þeirra tíma féllu óvarleg orð og fjölmiðlar gripu þau á lofti og kyntu undir. Jarðvegurinn fyrir hinar ótrúlegustu sögur virtist vera frjór – eins og hann er kannski alltaf í fámennum samfélögum. 
 
Og síðar í grein sinni segir hann:
 
Áratugum seinna og lífsreyndari sat ég á spjalli við nokkra dómara og spurði þá, hvort hugsanlegt væri að andrúmsloft í samfélaginu á hverjum tíma gæti haft áhrif á niðurstöður dómstóla. Þeir horfðu undrandi á mig og sögðu: Heldur þú að við séum ekki mannlegir? 
 
Þetta er í hnotskurn vandi samfélagsins. Skiptir engu hvort það sé hér, í Pakistan, Túnis eða Bandaríkjunum. Á einum stað eru konur undurokaðar, á öðrum er fórnarlamb nauðgunar látið giftast kvalar sínum, á þeim þriðja eru manndráp með byssum tíðari en í flestum öðrum löndum.
 
Samfélagið mótar okkur öll. Áður en nokkur getur hugsað upp neina mótbáru eru gyðingar þvingaðir til að setja auðkenni á föt sín, múslímar fá ekki að iðka trú sína, kristnir eru ofsóttir ...
 
Til hvers er þetta svokallaða lýðræði ef að það veldur tómum skaða á einstaklingum. Hver á þá að standa upp og segja hingað og ekki lengra? Munu þá ekki einhverjir aðrir mótmæla og halda því fram að mótmælandinn sé andlýðræðislegur? Má gagnrýna búsáhaldabyltinguna? Er hrunið stjórnmálamönnum að kenna eða eigendum og stjórnendum banka? Voru allir bankamenn slæmir?
 
Staðreyndin er einfaldlega sú að lýðræðið getur verið andstyggilegt. Réttlætið er alls ekki fólgið í því að meirihlutinn fái öllu ráðið og því er afskaplega mikilvægt að  einstaklingar, hópar og stjórnmálaflokkar vinni að hugsjónum sínum en miði þær ekki við stefnu vindhanans uppi á kirkjuturninum.
 
Lýðræðið gengur ekki upp nema samfélagið sé fjölbreytilegt og leyfi þeim að vaxa og þroskast sem leita móti meginstraumi þess. 
 
 
 

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband