Fréttir um átroðning ferðamannastaða eru ekki nýjar
6.4.2013 | 11:48
Þó Ragnar Axelsson og einhverjir aðrir blaðamenn á Morgunblaðinu fái allt í einu meðvitund um þau ósköp að fjölsóttir ferðamannastaðir láti á sjá vegna átroðnings þá er langt í frá að þetta séu nýjar fréttir.
Staðreyndin er sú að það er ekki hlustað á okkur sem þekkjum landið og fylgjumst með því sem þar er að gerast. Þegar fjölmiðlar og stjórnvöld fá loks meðvitund er það fyrsta sem liðinu dettur í hug er að skattleggja útlenda (og jafnvel innlenda) ferðamenn. Falleg orð eru úthugsuð eins og náttúrupassi og enginn á að geta sloppið við að kaupa, hann er ekki neitt val frekar en aðrir skattar.
Út af fyrir sig hef ég ekkert út á það að setja að eigendur afmarkaðra staða selji aðgang. Til dæmis mætti mín vegna rukka þúsund krónur fyrir að fá að fara inn fyrir hlið og skoða Geysi, Gullfoss, Kerið eða einhverja aðra staði. Grundvallaratriðið á þó að vera það að á þessum stöðum sé þjónusta veitt gegn þessu gjaldi. Ég veit til þess að Útivist hefur rukkað dagsgesti sína fyrir aðganga að þjónustu félagsins, svo sem húsum og salerni.
Hinu er ég algjörlega á móti og mun leggjast hatramlega gegn að ég eða útlendur ferðamaður fái til dæmis ekki að ganga um Fimmvörðuháls án þess að greiða gjald fyrir.
Á að rukka fyrir göngu á Þverfellshorn í Esju. Nei, segi ég. Skiptir engu þótt aðstæður á þessari gönguleið séu til háborinnar skammar fyrir Reykjavíkurborg og þjóðfélagið. Ágangurinn er slíkur þarna að umhverfið hefur stórskaðast.
Og hvers vegna? Vegna hjarðhegðunar göngufólks. Sú árátta er óskaplega skrýtin að allir skuli þurfa að fara á sama staðinn. Allir eiga að ganga Laugaveginn, ganga á Þverfellshorn, fara í Þórsmörk eða Landmannalaugar. Hvað með alla hina staðina?
Sleppum Landmannalaugum förum austar og göngum framhjá Kirkjufelli, að Torfajökli, í Strútslaug, í Strútsskála og höldum þaðan í austur ... eða vestur. Sleppum Þórsmörk. Göngum á Esjuna, sleppum Þverfellshorni en förum þess í stað á Kerhólakamb eða Kistufell. Göngum á Vífilsfell eða Hengil.
Segjum skilið við hjörðina og ferðumst á eigin vegum og látum ekki þvinga okkur eða útlenda ferðamenn til að greiða gjald fyrir að njóta náttúrunnar. Ríkissjóður og sveitarfélög hafa gríðarlegar tekjur af ferðamönnum. Þeim er engin vorkunn að nota hluta þessara tekna til að byggja upp ferðamannastaði. Þegar upp er staðið er á það að vera krafa að ríkissjóður og sveitarfélagasjóðir kosti uppbyggingu og forvarnir á ferðamannastöðum. Nógar eru tekjurnar.
Gullni hringurinn drullusvað? | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Það er afar misjafnt hvað sveitarfélögin fá í tekjur af ferðamannastraumnum. Dæmi. Framhjá mér um Landveginn fara daglega yfir sumarið tvær til fjórar rútur í áætlunarferðum úr Reykjavík inn í Landmannalaugar. Stoppað er dálitla stund á Hellu til að rétta af áætlunartímann og sumir farþegarnir versla eitthvað smálegt í verslun sem rekin er af verslunarkeðju í Reykjavík. Sumir versla í bakaríinu sem rekið er af heimafólki á svæðinu. Síðan er ekið sem leið liggur í Landmannalaugar og þar mjög líklega rukkað smá þjónustugjald. Sumir ganga Laugaveginn og göngufólk af Laugaveginum tekur rútuna til baka og mjög margir skoða sig um og fara til baka eftir dagsstopp. Það eru rútufyrirtækin sem hafa mest fyrir sinn snúð , en slæm er meðferðin á bílunum að hristast á þvottabrettunum sem myndast af þeirri miklu umferð sem er þarna. Ég held að okkar sveitarfélag hagnist ekki mikið á þessu dæmi
Olgeir Engilbertsson, 6.4.2013 kl. 16:39
Sæll kæri vinur. Auðvitað er það misjafnt hvað sveitarfélög hagnast af ferðaþjónustunni. Það er eðlilegt. Sumir leggja mikla áherslu að að byggja hana upp, önnur láta sig hana engu skipta. Eðlilegt er að sveitarfélög reyni að efla atvinnulífið og styðja þar með við byggð á sínu svæði.
S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 7.4.2013 kl. 19:03
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.