Fjárhagsaðstoð fjármögnuð með peningum innlánseigenda

Vandi Kýpur er nokkur annar en sá sem við áttum við að etja í hinni alþjóðlegu kreppu sem hófst í lok árs 2007 og hafði þær afleiðingar að íslensku bankarnir fóru á hausinn haustið 2008.

Íslensku bankarnir gátu ekki fjármagnað sig eftir því sem á árið 2008 leið. Hvort tveggja gerðist, lánalínur til íslenskra banka lokuðust vegna vantrausts á þá auk þess sem lánsfjárskortur varð gríðarlega mikill í Evrópu, Bandaríkjunum og víðar.

Á einföldu máli og stuttu er staðan á Kýpur sú að bankarnir hafa fjármagnað sig með innlánum. Enginn hörgull hefur verið á þeim. Fjárfestingar bankanna hafa leitað til Grikklands og þar stendur hnífurinn í kúnni. Engar greiðslur fást þar til baka svo bankarnir geta ekki endurgreitt innlánseigendum sínum.

Yfirleitt teljast bankar vera í nokkuð góðu standi þegar þeir geta fjármagnað sig með innlánum svo fremi sem þeir geti lánað fé sitt áfram til traustra aðila á betri kjörum en þeir bjóða innlánseigendunum.  

Svo er það allt annað mál hvernig þessi innlán eru tilkomin. Sagt er að þau séu að stórum hluta í eigu rússneskra aðila og því haldið fram að þau séu peningar vegna mafíustarfsemi, fé sem ekki var hægt að setja í umferð og því geymt á erlendum reikningum.

Þetta kann að vera ástæða fyrir því að ESB krefst þess að skattur verði lagður á innistæður á Kýpur til að fjármagna bankaaðstoð. Yfirleitt telst slíkt eignaupptaka en í ljósi aðstæðna telja margir það bara hið besta mál að stela frá steliþjófunum. Skiptir engu þótt einhverjir saklausir og aumir Krítverjar lendi í vanda í leiðinni.

Annars er það ári undarleg pólitík að taka af þeim sem eiga undir högg að sækja og gefa síðan aftur sem hjálp. Kannski er það skynsamlegt að skera skottið af sveltandi hundi og gefa honum að borða.


mbl.is Vandi Kýpur ræddur áfram í kvöld
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband