Schengen er gagnslaust gegn glæpalýð
18.3.2013 | 09:56
Ný gögn frá lögreglunni í Hollandi hafa leitt í ljós að flökkumenn og glæpamenn misnota sér frelsið tilað ferðast án vegabréfa milli ríkjanna í Schengen-samstarfinu.
Lítil frétt í Morgunblaðinu í morgun vakti athygli mína. Enginn er hissa á því í sjöhundruð milljón manna samfélagi ríkja gangi glæðalýður um rétt eins og hinir, ferðist á milli landa á flótta með feng sinn eða í einhverjum öðrum erindum.
Schengen samstarfið auðveldar öllum ferðalög. Eftirlit takmarkar aðeins ferðir glæpalýðs sem þá þarf að hafa meira fyrir starfi sínu.
121 maður var handtekinn fyrir að ferðast milli landa með fjármuni í þeim tilgangi að stunda fjárþvætti, 325 voru handteknir með fíkniefni og 259 hugðust smygla ólöglegum vopnum í landið. Þá hafði lögreglan einnig hendur í hári 419 manna með fölsuð vegabréf, 141 sem var að smygla fólki og 110 manns sem stunduðu mansal á austurevrópskum konum.
Jafnvel við Íslendingar, sem þó höfum náttúruleg landamæri en erum því miður aðilar að Schengen, höfum orðið vitni að því að glæpalýður gengur óhindrað inn og út úr landinu á skítugum skónum.
Ég held að flestir myndu með glöðu geði taka á sig óþægindi vegna vegabréfaskoðunar við komu til annarra Evrópulanda en um leið treysta því að hér á landi væru þeir vaktaðir sem koma til landsins og tékkað á þeim og erindi þeirra.
Þeir sem koma til Bandaríkjanna þurfa að sæta því að vera spurðir nákvæmdra spurninga um erindi sitt og dvalarstað. Það er ekki gert hér á landi. Hingað geta glæpamenn athafnað sig að vild, hvílt sig eftir vertíð, dvalið í Hveragerði eða gert hvern fjandann sem þeir vilja.
Er þetta það sem við viljum? Ég held að Schengen sé gagnslaust apparat nema fyrir vonda liðið.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.