Alþingi er afgreiðslustofnun framkvæmdavaldsins
15.3.2013 | 07:43
Fjörbrot ríkisstjórnarmeirihlutans taka á sig enn undarlegri myndir. Hann ætlar ekki að leggja sig niður mótþróalaust þó svo að samkvæmt skoðanakönnunum njóti hann aðeins um fjórðungs stuðnings kjósenda.
Í örvæntingu dælir ríkisstjórnin út lagafrumvörpum á síðustu andartökum þingsins, heldur því svo fram að stjórnarandstaðan standi í vegi fyrir afgreiðslu þeirra. Þingið á sem sagt að afgreiða lagafrumvörp og ályktanir á færibandi, helst án umræðu enda eru allar umræður líklega bara málþóf.
Þetta vekur spurningar um gáfur og dugnaði og hvernig dyggðum er skipt á milli meirihluta og minnihluta. Óhjákvæmilega má álykta sem svo að meirihlutinn þurfi engar umræður. Honum nægja nokkurra klukkustunda umræður í nefnd og svo kortér í þingsal til að geta fallist á frumvarp ríkisstjórnarinnar. Raunar nægir honum nafn frumvarpsins. Þetta ber víst vott um andlega yfirburði þeirra sem styðja ríkisstjórnina.
Fyrir hrun héldu þingmenn Samfylkingar og Vinstri grænna því fram að löggjafarþingið ætti ekki að vera afgreiðslustofnun fyrir framkvæmdavaldið. Ekki er ofmælt að halda því fram að þingmenn ríkisstjórnarinnar gangi alfarið erinda ríkisstjórnarinnar. Þeir virðast ekki hafa nokkra sjálfstæða hugsun. Og nú, vegna þess hversu lagafrumvörp ríkisstjórnarinnar eru seint fram komin verður bara að seinka þingslitum á kostnað lýðræðisins, undirbúningsins fyrir kosningar.
Ber þetta vott um virðingu fyrir lýðræðinu? Eiga fylgisrúnir stjórnmálaflokkar að fá að ryðjast fram með illa samin lagafrumvörp á síðustu andartökum þingsins og fá þau samþykkt? Á þingið að sitja fram að kjördegi?
Óvissa um lok þingsins | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.