Sjálfstæðisflokkurinn, átök og uppgjör
14.3.2013 | 15:15
Bók Styrmis Gunnarsson, Sjálfstæðisflokkurinn, átök og uppgjör er afar fróðleg bók. Var að ljúka við að lesa hana og hafði óskaplega mikið gagn af. Meðan hún er enn fersk í minni mér ætla ég að hripa niður nokkrar hugleiðingar vegna hennar.
Bókin fjallar að stærstum hluta um formennskutíð Geirs Hallgrímssonar og raunar rúmlega það en Styrmir var einn af helstu ráðgjöfum hans og trúnaðarmaður.
Mér þykja þessi ummæli Styrmis afskaplega eftirminnileg:
Hann var stefnufastur maður á tímum þegar stefnufesta var ekki endilega í hávegum höfð. Hann hafði hugsað afstöðu sína til þjóðmála djúpt og í þaula á tímum sem hömpuðu fremur yfirborðsmönnum.
Undirferli og neðanjarðarhernaður var honum [Geir Hallgrímssyni] svo fjarlægt að hann var í raun ófær um að stunda slík vinnubrögð, þótt þeim væri óspart beitt gegn honum.
Kynni mín af góðu fólki
Ég hóf þátttöku í starfi Sjálfstæðisflokksins er ég var sextán ára, tók þátt í starfi Heimdallar og kynntist þar mörgu góðu fólk, bæði á mínu aldursskeiði og eldra fólki. Þessi ár mótuðu mig afar mikið enda varla annað hægt. Maður fékk að ræða við fólk eins og Geir Hallgrímsson, Jóhann Hafstein, Gunnar Thoroddsen, Ragnhildi Helgadóttur, Matthíasi Á. Matthiesen, Matthíasi Bjarnasyni, Sverri Hermannssyni og fleiri goðumlíka menn sem voru nær daglega í fjölmiðlum.
Meðal ungra sjálfstæðismanna kynntist maður leiftrandi hugsjónamönnum eins og Friðriki Sophussyni, Davíð Oddsyni, Þorsteini Pálssyni Kjartani Gunnarssyni, Jóni Magnússyni, Hannesi H. Gissurarsyni, Ingu Jónu Þórðardóttur, Óskari Magnússyni, Jónínu Michaelsdóttur, Helenu Albertsdóttur og mörgum öðrum. Með mér í stjórn Heimdallar voru hörkunaglar eins og Skafti Harðarson, Hreinn Loftsson, Júlíus Hafstein, Gústaf Níelsson, Anders Hansen, Tryggvi Gunnarsson, Árni Sigfússon, Björn Hermannsson og fleiri og fleiri. Allt þetta fólk átti þátt í að móta mann að nokkru leyti.
Flokkadrættir
Á þessum tíma voru miklar óeirðir í Sjálfstæðisflokknum, svo miklar að manni fannst stundum að það væri ekki einleikið. Menn skiptust í hópa. Þarna voru Geirsmenn, Gunnarsmenn (Thoroddsen) og Albertsmenn (hulduherinn).
Ég studdi Geir Hallgrímsson. Kom þar tvennt til. Geir kom mér fyrir sjónir sem vitur maður og kurteis. Hann gaf sér tíma til að tala við okkur yngri mennina og ekki síður að hlusta.
Svo var það að bræður mínir, Sigfinnur og Skúli, höfðu verið stuðningsmenn Gunnars Thoroddsen í forsetakosningunum 1968. Sá síðarnefndi hafði síðar verið aðstoðarmaður Gunnars í félagsmálaráðuneytinu. Þeir létu báðir af stuðningi við Gunnar af málefnalegum ástæðum. Sögðu hann ekki framkvæmdamann, átti það til að skipta ótt um skoðun, gæti jafnvel verið tvöfaldur í roðinu og því frekar eigingjarn. Sigfinnur bróðir starfaði lengi sem hagfræðingur hjá Reykjavíkurborg og kynntist þar Geir Hallgrímssyni borgarstjóra afar vel og gerðist harður stuðningsmaður hans þegar Geir fór í landsmálin.
Styrmir lýsir Geir Hallgrímssyni einstaklega vel og margt kemur manni á óvart. Hann lýsir prúðmennsku og drengskap Geirs en bætir því þó við að hann hafi ekki verið skaplaus heldur hafði hann sterkt taumhald á sér.
Þessa nótt var hann stjórnlaus af reiði og sakaði okkur um að bera ábyrgð á óförum sínum í prófkjörinu, þar sem við hefðum lyft Albert upp með því að hampa honum of mikið í blaðinu.
Svo virðist af frásögn Styrmis að svona uppákoma hafi heyrt til algjörra undantekninga. Engu að síður hlýtur þessi frásögn úr bókinni að hafa komið öllum sem þekktu til Geirs mikið á óvart.
Áhrifavaldurinn
Gunnar Thoroddsen var mikill áhrifavaldur í lífi Geirs er hann hóf þátttöku í landsmálum. Styrmir rekur á mjög sannfærandi hátt hvernig stóð á þeirri óvild sem var á milli þessara tveggja stjórnmálamanna. hann segir:
Forystumönnum Sjálfstæðisflokksins fannst nóg um hvað Gunnar Thoroddsen var frekur til fjörsins. Þegar hann vildi hætta í pólitík þótti honum sjálfsagt að hann fengi það endiherraembætti sem hentaði. Þegar hann vildi komast heim fannst honum sjálfsagt að hann fengið það sem hugur hans stóð til. Þessi atburðaráðs er ein af ástæðunum fyrir því, að Geir Hallgrímssyni þótti ekki sjálfsagt að Gunnar Thoroddsen yrði varaformaður Sjálfstæðisflokksins á nýjan leik.
Endurkoma Gunnars Thoroddsen var honum erfið. Stjórnmálin voru önnur, Sjálfstæðisflokkurinn hafði breyst meðan Gunnar var sendiherra og í Hæstarétti. Nýtt fólk hafði komið inn og það þurfti olnbogarými. Einn af þessum var óvart Geir Hallgrímsson og hann reyndist vera fyrir Gunnari. Það dugði til að Geir varð óvinurinn og allt sem óvinurinn gerir er slæmt. Þetta var óholl pólitík.
Styrmi hefur skoðun á andstöðu innan stjórnmálaflokks og segir þessi orð og ég dáist að þeim:
Í þessu sambandi er hollt að hafa í huga að í svo stórum flokki getur verið beinlínis gagnlegt að til sé slíkur annar póll, forystumaður, sem safnar utan um sig hinni óánægðu hjörð sem allaf er til staðar í stjórnmálaflokkum og breikkar þannig stuðningsmannalið flokksins.
Þetta er svo satt og þetta þekkja allir sem starfa innan stjórnmálaflokka. Gallinn var bara sá að Gunnar (59 ára gamall) leit á Geir (44 ára) sem hálfgerðan strákling sem gæti vel beðið, eins og Styrmir segir. Sem sagt Geir var bara fyrir og það skapaði leiðindi sem varð að djúpstæðri óvild af Gunnars hálfu.
Arfleið Geirs
Frásögn Styrmis af þessum árum frá 1970 til 1990 varpar einstöku ljósi á stjórnmálin vegna þess að hann er ráðgjafinn, maðurinn í innsta hring. Hann er blaðamaður, skrifar hjá sér minnispunkta, og á grundvelli þeirra getur hann tjáð sig betur en flestir aðrir og er afar sannfærandi.
Þegar upp er staðið er arfleið Geirs sterk og mikil. Styrmir rekur það skilmerkilega og af mikilli dýpt, ef svo má að orði komast:
En hvað er réttur mælikvarði? Skiptir það ekki meira máli frá sjónarhóli almannahagsmuna hvaða árangri þeir menn, sem valdir eru til hinna æðstu metorða, ná í hagsmunamálum fólksins sem þeir eru að vinna fyrir?
Ef við notum þann mælikvarða, er Geir Hallgrímsson einn af merkari stjórnmálaleiðtogum íslensku þjóðarinnar á 20. öldinni. Hann skilaði árangri, sem hafði raunveruleg og langvarandi áhrif á líf fólksins í landinu. Verk hans á vettvangi Reykjavíkurborgar eru óumdeild.
Gallinn við bókina er sú að mér finnst hún stundum laus í reipunum. Ætti jafnvel að vera í tímaröð en höfundur bregður víða frá því, oft af skiljanlegum ástæðum. Hins vegar fékk ég oftar en ekki á tilfinninguna að margir kaflar í bókinni væru inngangar að einhverju meira og bitastæðara sem þó aldrei kom. Kann að vera að ritstíll Styrmis er hvorki sagnfræðilegur sé sá sem sögumenn tileinka sér. Hann er blaðamaður, maður hinna knöppu frásagnar sem á að upplýsa frá degi til dags. Ef til vill má lýsa þessum stíl sem nokkurs konar fyrirsagnastíl og er með því síst af öllu verið að gera lítið úr höfundinum. Hins vegar er ég þess fullviss að bókin verður sagnfræðingum mikill brunnur og mun koma til með að auka skilning fólks á stjórnmálum þessa tíma.
Persónulegt
Hér að ofan hef ég reynt að segja dálítið frá bók Styrmis, Sjálfstæðisflokkurinn, átök og uppgjör og þær hugleiðingar sem skutu upp kollinum við lestur hennar. Margt er ósagt. Ég fagna bókinni og hún fær veglegan stað í bókasafni mínu.
Ég vil samt geta þess að í gamla daga var ég blaðamaður á Vísi og blaðið var stundum notað til að koma höggi á Geir. Það skildi ég ekki. Eftir fáu sé ég eins mikið og að ég hafi látið misnota mig við þá iðju. Ég átti að vita betur, segja honum Herði Einarssyni, ritstjóranum mínum, að fara norður og niður með ráðabrugg sitt. En rúmlega tvítugur maður er oft linur.
Geir þekkti mig þegar ég hringdi í hans. Ég hafði að fyrirskipun Harðar ritstjóra látið mig hafa það að spyrja hvort hann ætlaði nokkuð að bjóða sig fram til formanns á landsfundinum 1979 og formálinn var svona frekar leiðinlegur.
Þögn var í símanum og svo sagði Geir: Ert þú ekki Sigurður í Heimdalli?
Jú, svaraði ég.
Þá sagði Geir: Þú átt ekki að láta hafa þig út í svona vitleysu, Sigurður minn.
Og þá skammaðist ég mín meira en nokkru sinni og bað hann afsökunar. Fréttin í Vísi varð síðan óttalega ómerkileg.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:45 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.