Ástæða til að hafna formanni VR
8.3.2013 | 10:29
Stefán Einar Stefánsson, formaður VR gerir það sem margir gera þegar enginn kemur þeim til aðstoðar, hælir sjálfum sér og verkum sínum og dregur inn starfsfólk VR til að gera ekki of mikið úr eigin ágæti.
Í grein sinni í Morgunblaðinu í dag nefnir hann átta atriði sem eiga að votta um ágæti mannsins og að við, félagar í VR, eigum að endurkjósa hann.
Silkihúfur á launum frá ríkinu
Fjórði liður upptalningarinnar vakti athygli mína. Hann hljóðar svo:
Félagið hefur tekið við þjónustu við atvinnuleitandi félagsmenn sína og hefur því tækifæri umfram það sem áður var til að styðja við bakið á félagsmönnum sínum.
Það sem Stefán og félagar hans gerðu var að stofna einkahlutafélag í samvinnu við SA og ASÍ til að taka við þeim verkefnum sem Vinnumálastofnun hefur hingað til sinnt og ekkert hefur verið hægt að setja út. Fyrirtækið heitir Starf ehf. og rekur nú algjörlega sömu þjónustu og fær til þess peninga úr ríkissjóði.
Í stjórn Starfs ehf. situr Stefán Einar Stefánsson ásamt öðrum silkihúfum atvinnurekenda og launþegasamtaka. Fyrir stjórnarsetu sína þiggur Stefán Einar laun. Þess má geta að enginn þáði laun fyrir stjórnarsetu meðan þetta apparat var innan Vinnumálastofnunar.
Gerir allt nema útvega starf
Verkefni Starfs eru sögð þessi:
Þann 10. febrúar 2012 var undirritað samkomulag milli velferðarráðuneytisins, Vinnumálastofnunar (VMST), Samtaka atvinnulífsins (SA) og Alþýðusambands Íslands (ASÍ) um að efna til þriggja ára tilraunaverkefnis sem hefur það markmið að efla vinnumiðlun og stuðla að virkari vinnumarkaðsaðgerðum, sem jafnframt auki líkur atvinnuleitenda á því að fá störf á vinnumarkaði að nýju.
Ekki hefur Starf ehf. haft neitt erindi sem erfiði í að útvega atvinnulausum vinnu. Fyrirtækið getur það ekki, kann það ekki og hefur ekki hugmynd um hvernig eigi að fara að því.
Þvingar einstaklinginn
Þess í stað býður Starf ehf. upp á námskeið. Sum þeirra eru skyldunámskeið. Þar er fullorðnu fólki skipað að mæta að viðlagðri þeirri refsingu að atvinnuleysisbætur þeirra skerðist mæti það ekki. Í mörgum tilvikum er um að ræða námskeið sem margir þurfa ekki á að halda. Þó er ekki við það komandi að fá að sleppa við slíkt námskeið.
Þú hefur bara gott af því að mæta, segja ráðgjafar Starfs ehf. með hrokablik í augum. Minnir á skátann sem átti að gera eitt góðverk á dag er hann dró gömlu konuna yfir götuna þvert á vilja hennar. Þetta fyrirtæki, silkihúfurnar í stjórninni og starfsmennirnir fyrirtækisins hafa greinilega eitthvað misskilið verkefni sitt.
Ég kýs ekki þennan Stefán
Þetta lið þykist hafa meira vit á stöðu einstaklingsins en hann sjálfur en hefur þó engan bakgrunn né þekkingu til að vita það.
Ofangreint er ástæðan fyrir því að ég ætla ekki að kjósa Stefán Einar Stefánsson aftur sem formann VR.
VR stóð á tímamótum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.