Ýkja fjölmiðlar frásagnir af veðrinu?
6.3.2013 | 13:28
Hvasst er víðast um landið, en er veðrið svo vont sem af er látið? Er kannski uppi sú stefna að koma fólki af vegunum jafnvel þó veðrið sé slæmt.
Hérna í Fossvogi er ekkert svo ýkja slæmt veður. Frekar bjart eins og sjá má á meðfylgjandi mynd frá Vegagerðinni.
Raunar er það svo að hægt er að kanna á einfaldan hátt veður og skyggni með því að fara inn á ágætan vef Vegagerðarinnar.
Þar kemur ýmislegt merkilegt í ljós. Í Þrengslum virðist vegurinn ekki ófær og ekki heldur á Hellisheiði. Skyggni ágætt, eins og það heitir.
Við Grundartanga á norðanverðri Hvalfjarðarströnd er flennifæri en líklega frekar hvasst.
Á Holtavörðuheiði er ábyggilega stormur en skyggni er ágætt eins og svo víða annars staðar.
Brandagil er í Hrútafirði og þar er veður svipað.
Fullyrt er að slæmt veður sé við Blönduós, engu að síður er skyggni bara bærilegt inni í Langadal. Ekkert út á það að setja og alls ekki mikill snjór í dalnum.
Af vef Vegagerðarinnar má ráða að veðrið sé verra á Norðausturhluta landsins.
Ef við færum okkur á Suðausturhornið þá er ástandið bara bærilegt í Kambaskriðum. Fréttir berast af því að slæmt veður sé í Öræfum. Það kemur ekki á óvart í þessari átt.
Þarna er þó auð jörð eins og myndin frá Lómagnúpi sannar.
Og litill snjór er við Markarfljót. Engu líkar er en að þar sé farið að grænka.
Af þessari litlu samantekt má ráða að veðurhljóðið í fjölmiðlum sé dálítið orðum aukið. Það er einfaldlega ekki þannig að þó vont veður sé á höfuðborgarsvæðinu sé allt í hers höndum annars staðar á landinu. Í raun og veru er engin ástæða til að gera fólk veðurhrætt. Vissulega er hvasst á landinu og því mikilvægt að fólk undirbúi ferðir sínar. Það er hins vegar engin ástæða til að lýsa yfir neyðarástandi og halda fólki frá vinnu og skólum hér á höfuðborgarsvæðinu.
Rúður brotna í óveðrinu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.