Aldursgreining íbúa segir til um framtíðarmöguleika sveitarfélags

Skýrsla Íslandsbanka um íslensk sveitarfélög virðist vera afar vel unnin og ítarleg. Hún leiðir í ljós að staða örfárra sveitarfélaga er ekki góð en flest eru þau í góðum málum. Nokkru plássi er varið í að segja frá íbúa þróun, fjölgun og brottflutningi, bæði úr sveitarfélögum og landshlutum.

Í skýrsluna vantar hins vegar greiningu á íbúaþróuninni. Hvers vegna er staðan í mörgum strjálbýlum sveitarfélögum eins slæm og raun ber vitni. Til þess að átta sig á þessu þarf að leita annarra heimilda en fást í ársreikningum. Þar er nærtækast að leita til Hagstofunnar og kanna hvernig aldurssamsetning sveitarfélaganna er. Hún segir meiri og ítarlegri sögu en margt annað.

Á árunum 2003-2005 vann ég nokkrar skýrslur um aldursgreiningu í sveitarfélögum og reyndi að skýra út stöðu sveitarfélaga miðað við aldur íbúanna. Því miður hef ég ekki unnið sambærilegar upplýsingar fyrir hin síðari ár.

A#D58

Til að skilja betur þróunina er þægilegt að skipta samfélaginu upp í þrjá hópa eftir eðli þeirra og til að skynja betur allar breytingar og draga ályktanir.

Fjölskyldan
Grunnurinn, 0-19 ára
Hinn virki hluti fjölskyldunnar, 20-44 ára

Vinnumarkaðurinn
Yngri hlutinn, 20-44 ára
Eldri hlutinn, 45-64 ára

Eldri borgarar, 65 ára og eldri

Hér til hliðar er þetta sett fram í aldurspíramída. Þó útlínur þessara hópa séu skýrar, skarast þær vissulega. Ekki er til dæmis víst að allir þeir sem eru undir tvítugu séu í skóla né heldur að eldri hluti þeirra hafi ekki stofnað fjölskyldu. Í heildina má kannski gera ráð fyrir að fólk á þessum aldri skapi ekki mikil verðmæti, en samt er menntunin þess er engu að síður mjög mikilvægur hluti efnahagslífsins og skiptir þjóðfélagið miklu máli bæði í nútíð og til framtíðar.

Aldurshópinn 20-44 ára má af eðlilegum ástæðum nefna hinn virka hluta fjölskyldunnar, en hann er einnig hluti af vinnumarkaðnum. Framar öðru ber hann þó merki þess að vera fjölskyldufólk og markmið hans og aðgerðir miðast við þá staðreynd. 

Þeir sem eru á aldrinum 20-64 ára tilheyra vinnumarkaði, en eins og fram hefur komið er mikill munur á eðli eldri og yngri hópsins. Og svo eru að sjálfsögðu margir yngri en tuttugu ára á vinnumarkaði og líka margir sem eru eldri en sextíu og fjögurra ára.

Með eldri borgurum er átt við þá sem eru eldri en 64 ára og gert ráð fyrir því að flestir séu hættir störfum, en það er þó ekki heldur einhlítt.

Þó fjölgi í sveitarfélagi þarf það alls ekki að vera til marks um að sveitarfélag standi vel. Fjölgunin getur verið meðal eldri borgara sem hefur efnahagslega allt aðra þýðingu en hafi fjölgunin verið meðal þeirra sem eru á vinnumarkaði. Því til viðbótar er grundvallarmunur á eldri og yngri hluta vinnumarkaðar, bæði að eðli og efnahag.

Þingeyjarsveit

Sé tekið eitt sveitarfélag af handahófi út úr má til dæmis skoða Þingeyjarsveit árið 2005. Sveitarfélagið er ekki lengur til, það var sameinað Norðurþingi.

Engu að síður má sjá á myndinni hversu erfið staða sveitarfélagsins hefur verið miðað við aldurssamsetningu. Miklu fleiri eldri borgarar búa þarna en miðað við íbúafjölda landsins.

Undirstaðan er slæm. Greinilegt er að þarna vantar fólk sem er á aldrinum 20-40 ára, sem er eiginlega vaxtarsproti hvers samfélags, árgangarnir sem sjá um fjölgun mannkynsins, framleiðsluna, ef svo má segja.

Unglingar eru þarna margir en börnin eru fá.

Þetta er klassískt dæmi um hnignandi sveitarfélag. Píramídinn er eiginlega kominn á hvolf. Þó er þetta langt í frá alvarlegasta dæmið um íbúaþróun á árinu 2005. 

Þingeyjarsveit yfirl

Á einfaldan hátt má síðan setja forsendur og fá út sjálfvirkar niðurstöður á borð við þær sem eru hér til hliðar í gula glugganum. Líklega þarf að klikka einu sinni eða tvisvar til að geta lesið af honum. 

Na án Ak

Sé litið til allra sveitarfélaga á Norðurlandi eystra kemur fram á árinu 2005 þessi aldurspíramídi. Ég hef undanskilið Akureyri enda er það svo stór sveitarfélag að það skekkir hreinlega allar niðurstöður og samanburð í landshlutanum.  

Þarna koma fram sömu teikn um hnignandi íbúaþróun. Fólkið eldist, þeir sem sjá um fjölgunina fækkar og börnin verða þar af leiðandi færri og færri.

Og þegar þetta er komið er ástæða til að skoða gula gluggann, hinar sjálfvirku niðurstöður fyrir landshlutann.

Þarna kemur ýmislegt merkilegt fram. Eldri borgurum hefur fjölgað um 17,6% frá 1995 sem getur bent til óhagstæðrar aldursþróunar.

Fækkun er í aldurshópnum 20-44 ára um 4,1% sem getur bent til lakari framtíðarmöguleika.

Na án Ak yfirl

Fækkun er líka í aldurshópnum 0-19 ára sem má skoða sem veikleikamerki.

Að auki er leitast við að gefa þróuninni einkunn og hún er meðaltal og er -1,3. Það þýðir að þróunin stefnir í ranga átt. 

Hér að ofan hef ég í stuttu máli reynt að skýra út eðli rannsókna minna á aldursþróun í sveitarfélögum á Íslandi. Því miður hef ég ekki haft aðstöðu til að vinna með þróunina hin síðari ár þó full ástæða hafi verið til.

Ég held að svona upplýsingar hefðu getað gagnast Íslandsbanka nokkuð í skýrslu sinni og hún fyrir vikið veitt fyllri mynd af þeim ástæðum sem liggja að baki því sem gerst hefur í sveitarfélögum landsins á undanvörnum árum. Þetta er afskaplega forvitnilegt svið sem of lítill gaumur hefur verið gefinn í þjóðfélaginu.


mbl.is 30-40 sveitarfélög heppilegur fjöldi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband