Börn og unglingar ráfa um borgina í sykurrúsi

Blessuð börnin eru alls staðar eins. Sæt og góð, syngja eins og englar ... þangað til þau koma auga á sætindin. Þá breytast þau, augun standa stilkum og með hraða góla þau eitthvað og hlaupa svo út með fullar hendur af sælgæti þó ekki fyrr en þau hafa fullvissað sig um að ekkert meira er að finna þarna.

Um götur og torg ráfa börn og unglingar í sykurrúsi. Þau fara yfir eins og engisprettufaraldur, eira engu og sumir láta eins og vitleysingar.

Ég kíkti inn í Bónusverslun fyrr í dag. Þar hlupu um tveir unglingsslánar á hæð við mig, og er ég síst smávaxinn. Það er ekkert varið í neitt hérna, sagði annar, og fýlan lak af honum. Ókei, prófum þá Hagkaup, sagði hinn, og þeir ruddust út án þess að skeyta neitt um aðra.

Við innganginn stóð þreytulegur afgreiðslumaður (sá það á hollningunni á honum) með dollu í höndunum og bauð krökkum. Þeir þurftu þó að syngja áður, og aumingjans maðurinn andvarpaði þegar enn og aftur hljómaði lagið um gamla Nóa sem kann ekki að poppa.

Ég man þegar þessi siður að ganga í búðir og betla nammi var að mestu bundinn við Akureyri. Sjaldnast hafa önnur sveitarfélög fengið jafnslæma sendingu eins og þegar þessi hræðilegi siður breiddist þaðan út um landið.

Auðvitað eru ekki allir eins og hér hefur verið lýst og vissulega eru þau börn til sem eru sæt og góð og syngja eins og englar, jafnvel unglingarnir geta þetta. En óboy, óboy, þvílík leiðindi eru af hinum. Ég hef séð börn og unglinga á sprengidaginn í litlum og stórum sveitarfélögum. Í alltof mörgum tilfellum er ekkert gaman af þessu rugli. Sykurþráin geri krakkana gjörsamlega ruglaða.


mbl.is Gaman á Akureyri á öskudaginn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband