Bull og rugl með ESB umsókna og nýjan gjaldmiðil
5.2.2013 | 13:50
Umræðan um aðildarumsókn Íslands að Evrópusambandinu er á miklum villigötum sem og allt tal um nýjan gjaldmiðil.
Staðreyndin er einfaldlega sú að verið er að aðlaga Ísland að lögum, reglum og stjórnsýslu ESB. Ekki er verið að semja um nokkurn skapaðan hlut. Í lokin verður allt fullkomlega aðlagað og þá er ekkert annað en að ganga inn í sambandið. Enginn samningur verður í boði, enginn pakki til að kíkja í.
Nýkjörin formaður Samfylkingarinnar vill taka upp evru. Lítill hluti Sjálfstæðisflokksins vill kasta krónunni og taka upp einhvern annan gjaldmiðil, helst kanadadollar. Þeir sem halda þessu fram átta sig ekki á því að staða þjóðar verður aldrei betri en sem nemur framleiðslu landsins.
Skuldastaða heimilanna batnar ekki þó upp sé tekinn annar gjaldmiðill. Atvinnuleysið minnkar ekkert. Verðbólgan hverfur ekki. Verðtryggingin gufar ekki upp.
Verðmætasköpun innanlands skiptir öllu máli. Ástæðan fyrir því að gegni krónunnar gagnvart öðrum gjaldmiðlum hefur stöðugt breyst í tugi ára er einfaldlega einhæfir atvinnuvegir. Allt byggðist á sjávarútvegi og fiskvinnslu. Náttúrulegar sveiflur í aflabrögðum skiluðu sér í gengi krónunnar. Dettur nokkrum manni í hug að kanadadollar hefði getað jafnað út gengi krónunnar? Hann hefði aðeins verið til vandræða.
Núna byggir verðmætasköpunin á fleiri atvinnuvegum. Hvorki evra eða kanadadollar munu bæta neinum þann skaða sem verður vegna hækkunar á innflutningsvörum. Enginn gjaldmiðill mun bæta skaðann vegna lægra markaðsverðs á íslenskum vörum og þjónustu í erlendri mynt.
Það er líka mikill misskilningur að laun munu haldast óbreytt eða betri ef við tökum upp annan gjaldmiðill. Sú hagfræði getur aldrei gengið upp. Gjaldmiðillinn getur ekki verið annað en það sem endurspeglar verðmæltasköpun hverrar þjóðar. Evran endurspeglar ekki raunveruleika Grikkja, Spánverja eða annarra ríkja ESB.
Krónan endurspeglar efnhag Íslands svo fremi sem höft af ýmsu tagi spilla ekki.
![]() |
Umræðan um ESB á villigötum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.