Rústabjörgunar er þörf eftir fjögurra ára velferðarstjórn
5.2.2013 | 12:06
Svona er þjóðfélagið í sag eftir fjögurra ára velferðarstjórn vinstri flokkanna sem ætluðu að draga okkur upp úr afleiðingum hrunsins. Þess í stað hafa þau geirneglt okkur á klafa skulda, atvinnuleysis, vaxtaokurs og ofan á allt er ætlunin að svipta þjóðina fullveldi sínu og senda á gróðursnauðar heiðar ESB aðildar. Hér er allt í rúst og ríkisstjórnin þreytist ekki á því að fullvissa okkur um það.
Fjöldi fólks er í sporum Lilju Mósesdóttur. Fjöldi fólks er atvinnulaust og upp á náð og miskunn opinberra styrkja komið. Þetta er ekki fullfrísku fólki bjóðandi.
Sem betur fer er aðeins áttatíu og einn dagur í kosningar. Þá er hugsanlegt að breyta þessum manngerðu náttúruhamförum. Það veltur hins vegar á því hvað Sjálfstæðisflokkurinn samþykkir á landsfundi sínum hvort einhver framtíð er fyrir þjóðina. þessi stóri flokkur þarf að huga að því hvernig hægt er að rífa samfélagið upp úr kyrrstöðu, atvinnuleysi og skuldum. Aðrir stjórnmálaflokkar hafa ekki sambærilegt afl eða fylgi til að gera slíkt.
Lilja Mósesdóttir íhugar gjaldþrot | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Já svona er útlitið eftir þessa velferðarstjórn, sem virkilega telur sig hafa gert góða hluti.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 5.2.2013 kl. 12:37
Þið fylgist greinilega ekki með fréttum. Alþjóðastofnanir, erlendir sérfræðingar á svið hagfræði og erlendir fjölmiðlar keppast við að bera lof á það hve vel okkur hefur gengið að komast uppúr kreppunni. En það er bara þannig að ef maður vill bara sjá svartnætti , þá sér maður bara svartnætti!
Óskar, 5.2.2013 kl. 17:45
Í hvaða "sporum" er Lilja? Hún er ekki atvinnulaus, þvert á móti í góðri vinnu, með eitthvað um 750 þúsund í laun á mánuði. Hún keypti íbúð 2005 en það gerðu fleiri. Er það ríkisstjórninni að kenna að íbúðaverð hafi ekki haldið áfram að hækka >20% á hverju ári?
Hvað hefðu Sjálfstæðismenn gert til að bæta stöðu Lilju? Fellt niður verðtryggingu? Hækkað laun þingmanna? Viljið þið ekki bara bjóða henni sæti á lista og gera hana að ráðherra svo hún hækki í launum??
Hér er ágætis pæling út frá þessari frétt um Lilju:
http://blogg.smugan.is/einarkarl/2013/02/05/stokkbreytingar/
Skeggi Skaftason, 5.2.2013 kl. 22:10
Vandamálið er ekki Lilja, Skeggi. Hún er ein í afar stórum hóp, eins og þú mætavel veist. Við báðir þekkjum fjölda fólks sem er með þokkalegar, jafnvel góðar tekjur, en á engu að síður í erfiðleikum með að greiða af skuldum vegna íbúða sinna.
Ég reyni að horfa á vandann utan frá. Sá sjónarhóll segir mér að skuldavandi heimilanna sé hluti af vandamáli hrunsins. Þarna eru þúsundir manna sem ekki eru með í samfélaginu, verða að halda að sér höndum, geta t.d. ekki sinnt viðhaldi, endurbótum og öllu því sem íbúðareigendur eiga að geta veitt sér þegar aðstæður eru eðlilegar. Þjóðfélaginu munar um það er veltan minnkar vegna þess að þetta fólk heldur að sér höndunum.
Svo eru það við hin, sem erum atvinnulaus. Hvað heldurðu að samdrátturinn í samfélagsveltunni sé mikill vegna þessa fólks og hvaða afleiðingar hefur hann?
Svo koma einhverjir besserwisserar og þykjast geta lagað skuldavanda heimilanna og það þýðir hækkun á markaðsverði fasteigna.
Hvaða áhrif hefur það á getu kaupgetu þeirra sem ekki eiga íbúð? Er virkilega mögulegt að sá sem leigir íbúð á 120-160 þúsund krónur á mánuði geti lagt fyrir og átt fyrir útborgun í 20 milljón króna íbúð á nokkrum árum?
Ég get ekki talað fyrir hönd annarra Sjálfstæðismanna en ég veit það eitt að málið er flókið, lausn fyrir einn aðila býr til vanda fyrir annan. Hins vegar er ég þess fullviss að þú, ég, Einar Karl Friðriksson og fjöldi annarra hljótum að vera sammála því að ástandið er herfilega slæmt og það snýst ekki um Lilju eina. Má vera að ég sé einn um þessa skoðun, en það versta sem við getum gert er að gera ekki neitt vegna húsnæðisvandans og atvinnuleysins.
S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 5.2.2013 kl. 22:36
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.