Pólitísk rykframleiðsla Stefáns Ólafssonar um Icesave

Einn þeirra sem hvað heitast var í hamsi og harðast barðist að Icesave samningarnir væru samþykktir var Stefán Ólafsson, prófessor við Háskóla Íslands. Hann sagði í grein í Fréttablaðinu 17. ágúst 2009:

Samt segja sumir nú að íslenska þjóðin beri ekki ábyrgð á þessari skuld. Hvað þýðir það? Jú, með því er fullyrt að íslenskur banki hafi mátt raka að sér erlendu sparifé, undir fölsku flaggi. Innstæðutryggingakerfið íslenska hafi verið „í plati" gagnvart útlendingum en í fullu gildi fyrir Íslendinga, sem hafa nú þegar fengið innstæður sínar bættar. Forsendan er sú, að Landsbankinn hafi mátt ræna almenning í Bretlandi og Hollandi að vild, ef allt færi á versta veg.

Davíð Oddsson fullyrti þannig nýlega að Íslendingum bæri ekki að greiða þetta. Málið er honum skyldara en öðrum. 

Pólitísk rykframleiðsla 

Svona rökræða margir snillingar sem leggja eingöngu stund á pólitíska rykframleiðslu. Gefa sér forsendur eins og: „að íslenskur banki hafi mátt raka að sér erlendu sparifé, undir fölsku flaggi“ og leggja síðan út af þessum orðum rétt eins og einhver annar hefði sagt þau. Segja svo í lokin: Sjáið nú hversu vondir þessir menn eru en ég góður ...

Stefán er lítill spámaður eins og eftirfarandi orð hans sem þyrlast í rykmekkinum eru glöggt merki um:

Svo segja menn að ábyrgð okkar hefði átt að útkljá fyrir dómstólum. Þar hefði málflutningur okkar þurft að vera sá, að innstæðutryggingakerfið á Íslandi hafi aðeins verið fyrir íslenska viðskiptavini Landsbankans en ekki þá erlendu. Halda menn að nokkur dómstóll hefði dæmt Íslandi í vil í slíku máli? Varla. Líklegra er að slík framganga hefði opinberað okkur sem ræningjaþjóð.

Óskaplega hlýtur það að vera sárt fyrir Stefán að hafa orðið vitni að endalokum Icesave málsins fyrir EFTA dómstólnum. Lögfræðileg þekking mannsins reyndist haldlítil þó hann hafi reynt að halda öðru fram. Og svo bætist alltaf við pólitíska rykframleiðslan, þetta með að tap fyrir dómstólum „hefði opinberað okkur sem ræningjaþjóð.“

Ber þjóð ábyrgð á gjörðum einstaklinga eða fyrirtækja? 

Hvernig geta menn eiginlega sagt þetta. Fyrir nokkrum árum voru hrikaleg málaferli í Belgíu vegna þess að glæpamenn rændu ungum stúlkum, misþyrmdu og nauðguðu. Hollenskir herflokkar gerðu hrikaleg mistök við borgina Srebrenica þar sem Serbar myrtu um átta þúsund Bosníumenn. Engum, ekki nokkrum manni dettur það í hug að yfirfæra glæpi, mistök eða annað sem gerist hjá einni þjóð yfir á alla íbúa hennar. Að halda slíku fram er ekki bara heimska heldur ruddaskapur. Sómi Stefáns felst hins vegar í því að halda því fram að Íslendingar séu ræningjaþjóð, nema ákveðnum skilyrðum sé fullnægt. Ég hef skömm á svona málflutningi.

Rökstuðningur Steingríms og Indriða

Og svo hélt Stefán Ólafsson áfram að þyrla ryki:

Lífskjör Íslendinga verða um margt betri en lífskjör Breta þrátt fyrir þessar auknu byrðar.

Mér sýnist af öllum gögnum málsins og vel rökstuddum greinum Steingríms J. Sigfússonar og Indriða H. Þorlákssonar o.fl., að niðurstaðan sé skýr. Hártoganir um langsótta lagaklæki eða kvein um að við ráðum ekki við þetta koma okkur hvorki lönd né strönd. Það er því ekki viðeigandi að betla né hlaupa frá málinu. Í öllu falli er slíkt ekki tímabært. Við þurfum nú að sýna heiminum að við erum heiðarleg þjóð sem vill standa við skuldbindingar sínar.

Þeir sem vilja fella samninginn bjóða heldur ekki upp á neina vitræna lausn. Fullyrða einungis að hægt sé að fá betri samning, án þess að neitt bendi til þess. Þó var fyrri ríkisstjórn kominn áleiðis með verri samning sl. haust. Markmið stjórnarandstöðunnar er aðeins að skapa ríkisstjórninni erfiðleika og fella hana.

Þjóðin hafnaði „vel rökstuddum greinum Steingríms J. Sigfússonar og Indriða H. Þorlákssonar“. Það var svo einfalt og auðvelt að hafna Steingrími og Indriða.

Stefán gerði lítið úr þeim orðum Davíðs Oddssonar að þjóðin ætti ekki að greiða skuldir óreiðumanna. Hann þyrlaði upp einn einum rykbakkanum og reyndi að tengja Davíð og Sjálfstæðisflokkinn við það ógæfufólk sem er ábyrgt yfir bankahruninu.

Hin vitræna lausn 

Þeir sem vilja fella samninginn bjóða heldur ekki upp á neina vitræna lausn.“ Stefán taldi þvert á móti að allt vitið væri í því fólgið að samþykkja Svavarssamninginn, studdum „greinum Steingríms J. Sigfússonar og Indriða H. Þorlákssonar“. En þjóðin lét ekki bjóða sér rök Steingríms, Indriða eða Stefáns. Hún neitaði að greiða skuldir óreiðumanna og dómstóll alþjóðasamfélagsins var á sama máli.

Og í lokin segir Stefán í grein sinni um „Siðfræði Icesave málsins“:

Þeir sem bera hina eiginlegu sök á því hvernig komið er fyrir þjóðinni eiga hins vegar enn eftir að biðja afsökunar, svo ekki sé meira sagt.

Í dag birtir Stefán Ólafsson nýja grein um Icesave málið á pressan.is. Hann hefur gjörsamlega snúið við blaðinu, rétt eins og flestir hinir sem vildu annað hvort að þjóðin fengi ekki að kjósa um Icesave samningana eða að hún samþykkti þá.

Stefán segir fátt um endalok Icesave málsins

Í greininni reynir Stefán að snúa umræðunni við. Hann reynir ekki að réttlæta fyrr orð heldur reynir að breyta umræðunni og kenna Davíð Oddsyni um allt. Og hvað skyldi maðurinn nú segja um endalok Icesave málsins?

Við skulum fagna því lengi og innilega að vel hefur unnist úr þessu máli á lokasprettinum.

Ekkert annað. Hann er eins og Jóhanna Sigurðardóttir og Steingrímur J. Sigfússon. Öll láta að því liggja að sigurinn í málinu hafi verið vegna atbeina þeirra. Stefán biðst ekki einu sinni afsökunar á fyrri blaðagreinum sínum eins og þó margir hafa gert. Hann lætur bara sem ekkert sé, grípur til sömu ráða og skötuhjúin sem hér voru nefnd, að kenna Sjálfstæðisflokknum um allt saman.

Skyldi Stefán Ólafsson vera innst inni samála þeim orðum sem látin voru falla fyrir rúmum fjórum árum að íslensk þjóð skuli ekki greiða skuldir óreiðumanna? 

Þessari spurningu hefur hann aldrei svarað og mun líklega seint gera. Fyrr mun líklega botnfrjósa í neðra. Honum ferst þá eins og talsmanni ESB sem segir ekkert hafa breyst við EFTA dóminn.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Ég mundi ganga með hauspoka það sem eftir er, ef ég væri í hans sporum. Það sem undrar mig mest hjá þessum lærða manni er hversu ofboðslega grunnur skilningur hans er á málinu og hvernig það er saman sett. Enginn skilningur í raun.

Bretar spilltu málinu fyrir sér með að greiða skuldina í örvæntingarfullri tilraun tila ða breyta einkaskuld í ríkisskuld. Ætluðust svo til að ríkið keypti þessa stökkbreyttu skuld af þeim með ofurvöxtum. Kölluðu það lán, sem að sjálfsögðu var óumbeðið. Þeir komu einfaldlega í veg fyrir að þetta færi í eðlilegt innheimtuferli sem krafa í búið. Ég held meira að segja að það sé álitamál hvort landsbankinn á yfirleytt að borga þetta.

Allavega eru ekki allir þræðir rannsakaðir þar að mínu mati.

Jón Steinar Ragnarsson, 31.1.2013 kl. 14:17

2 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Já þeir eru margir sem þurfa að bera hauspoka í dag og margir þeirra sem titla sig sem prófessora í háskóla, spurning hvernig menntuninni er háttað í þeirri stofnun. 

Enda heyrðist mér að það hefði verið blásið til Samfóveislu með Eirík Bergmann sem aðalræðumann um afleiðingar dómsins, en var svo sleginn af, þegar ljóst varð að við hefðum unnið.  Það má líka rannsaka þetta betur og helst fá upp í hendurnar sigurræðuna hans Eiríks, og hvað hún innibar. 

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 31.1.2013 kl. 14:40

3 Smámynd: S i g u r ð u r   S i g u r ð a r s o n

Mér finnst eiginlega makalaust hvernig maðurinn skrifaði í þessari grein. Berum það saman við það sem hann skrifar í dag. Hefur trúverðugleiki mannsins ekki beðið hnekki? Mér dettur ekki í hug að draga þekkingu hans í efa en samsetning greinarinnar, pólitíska stefnan og rykið, allt þetta hlýtur að gera hann afar ótrúverðugan. Og svo kemur ekki einu sinni frá þessu akademíska manni hógvær yfirlýsing á borð við þá að hann hafi ekki haft rétt fyrir sér. Hvers virði er öll menntunin þegar hann getur ekki einu sinni gert það?

S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 31.1.2013 kl. 14:46

4 Smámynd: Ómar Geirsson

Svona er að vinna fyrir valdið Sigurður, en takk fyrir mjög góðan pistil sem fær allavega mitt læk.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 31.1.2013 kl. 15:22

5 Smámynd: Elle_

Eins heimsk og ruddaleg og skrifin hans voru, voru þau ansi týpísk fyrir mann úr Jóhönnuflokknum, verð bara að segja það. 

Órökstuddar fullyrðingar út í loftið um lögleysu og sekt, eða skömm þjóðar, sem kom hvergi nærri ICEsave.  Fjöldi þeirra er enn að, þau lærðu ekki neitt af dóminum eða af rökstuðningi lærðra lögmanna.

Elle_, 31.1.2013 kl. 19:59

6 Smámynd: Guðmundur St Ragnarsson

Rík er þrælslundin. Það hversu hatrammlega nokkrir tilgreindir "prófessorar ríkissstjórnarinnar" börðust opinberlega með undirlægjuaðferðinni ætti að vera umhugsunarefni. Takk fyrir fína samantekt Sigurður. Einhverjir (t.d. tilgreinir prófessorar) ættu að biðja bæði þjóð og forseta afsökunar (opinberlega) en sem fyrr kunna menn ekki að skammast sín.

Guðmundur St Ragnarsson, 31.1.2013 kl. 20:17

7 Smámynd: Kristin stjórnmálasamtök

Já, gott hjá þér, Sigurður, og meðan þessir Icesave-greiðsluskyldu-predikarar biðjast ekki sjálfir afsökunar á viðleitni sinni til að rugla þjóðina með áróðri sínum í þágu stjórnarstefnunnar ("samningaleiðarinnar"), þá er af nógu að taka af skrifum þvílíkra blindingja, óspámannlega vaxinna, sem spreðuðu sínu eigin rugli í dagblöð og aðra fjölmiðla, en eiga það skilið, að ÞEIRRA EIGIN ORÐ fái í ljósi dómsorðs sannleikans að opinberast á ný og enn skýrar sem það óþjóðholla, ófaglega blaður sem það var.

Pólitísk meðvirkni er þar gjarnan helzta ástæðan, en dugir þeim ekki sem réttlæting. Spillandi sannfæringarkraftur Steingríms J. var hins vegar ein aðal-meðástæðan, sem og hræðslan við erlent yfirvald. Hræðslutaktík manna eins og Stgr., Gylfa Magnússonar, Þórólfs Matthíassonar o.fl. spilaði líka hér stóra rullu. Nú er komið að þeim að skammast sín og biðjast afsökunar opinberlega.

Eina sjálfsásökunin sem ég hef heyrt/séð hingað til vegna Icesave er frá Jónasi Kristjánssyni, fv. DV-ritstjóra, sem nú er reyndar tekinn til við að predika með því sama ESB, sem reyndi að kúga okkur í Icesave-málinu rétt eins og í makríldeilunni!

Kristin stjórnmálasamtök, 1.2.2013 kl. 00:10

8 Smámynd: Jón Valur Jensson

Úpps, var hér óvart ennþá loggaður inn á samtök sem ég er í, en innleggið var frá mér, ekki þeim! :)

Jón Valur Jensson, 1.2.2013 kl. 00:11

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband