Skatttekjur fóru ekki í að greiða tap bankanna
15.1.2013 | 10:27
Hvergi annars staðar í heiminum en á Íslandi voru skuldir óreiðumanna aðskildar frá skattatekjum ríkisins og bankarnir látnir taka ábyrgð á gjörðum sínum.
Gústaf Adolf Skúlason ritar athyglisverða grein í Morgunblaðið í morgun og ofangreint er úr henni. Og hann bætir við:
Það má þakka fyrrverandi leiðtogum Sjálfstæðisflokksins fyrir, að ekki var farin sú leið að þjóðnýta tap fjármálafyrirtækjanna, sem eftirá hefur sýnt sig að bjargaði Íslandi frá gjaldþroti.
Þetta er alveg rétt hjá Adolfi en það hefur hingað til ekki samrýmst viðteknum skoðunum ríkjandi stjórnvalda að hampa því sem hin svokallaða hrunstjórn gerði vel. Munið eftir hversu ráðist var heiftarlega á Davíð Oddsson, þáverandi seðlabankastjóra, sem sagði í frægu Kastljósviðtali, að Íslendingar ættu ekki að borga skuldir óreiðumanna. Og hvað sagði svo Davíð orðrétti:
Menn eru ennþá að halda að þetta séu vandræði, en við erum að taka þessa dálítið harkalegu ákvörðun: að segja, við ætlum ekki borga þessar erlendar skuldir bankanna. Við skiptum bönkunum upp í innlenda og erlenda starfsemi. Við tökum eigið fé þeirra og látum það fylgja að megninu til erlendu starfseminni.
Og hefur þetta ekki gengið eftir? Jú, rétt eins og Gústaf Adolf segir, það var ekki ætlunin að þjóðnýta tap bankanna. Blessunarlega var þessi ákvörðun tekin og hún kom í veg fyrir gjaldþrot ríkisins.
Ég held að það sé ágætt að við munum þessa staðreynd. Það var ekki ætlunin að tap bankanna yrði greitt með skattpeningum ríkisins og hversu mikið sem menn eru á móti Davíð Oddsyni þá hafði hann nákvæmlega rétt fyrir sér. Og hvernig væri staðan núna hjá ríkissjóði ef við skuldir þess hefðu bæst við aðrar skuldir sem flestum þykir nú nóg um?
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.