Mjög er nú þrýst á hæverskar Samfylkingarkonur

Hér áður fyrr tíðkaðist ekki að fólk færi í framboð af eigin hvötun, alltaf var skorað á það rétt. Auðvitað vissi maður að þetta var ekki raunin, heldur var og er líklega fínna að einhver skori á mann eða rétt eins og leiðarahöfundur Morgunblaðsins segir í morgun:
 
Það er í tísku í topplögum stjórnmálanna að framagjarnir menn, karlar og konur, kenni öðrum um metorðagirnd sína. Í Sjálfstæðisflokknum hljóðaði þetta forðum tíð gjarnan eins og svona: Til mín hefur leitað fjöldi fólks, karlar sem konur, ungir sem eldri, úr hinum dreifðu byggðum sem í þéttbýli og lagt hart að mér að ég gefi kost á mér...til þessa eða hins. Ásóknin kom frambjóðandanum ætíð mikið á óvart, og hann var tregur til, en taldi ómaklegt að ganga gegn svo þungum áskorunum.
 
Þeir sem eiga sér langdvöl í Sjálfstæðisflokknum muna eftir þessu og það rifjaðist skemmtilega upp fyrir mér þegar ég hlustaði á sjónvarpsfréttir Ríkisútvarpsins í gær. Af einhverju ótrúlegu innsæi uppgötvuðu fréttamenn að skortur væri fyrirsjáanlegur á konum í varaformannsembætti Samfylkingarinnar á næstunni og á allar var skorað og skorað og skorað.
 
Þetta var svo jákvæð og falleg frétt að manni vöknaði um augum og skildi óðum að þessi frétt ætti erindi til allra landsmanna í útvarpi allra landsmanna. Hins vegar velti ég því ekkert fyrir mér hvernig á þessu ótrúlega innsæi stæði né heldur leiddi ég hugann að því að einhver hefði þarna hannað atburðarás til kynningar og ímyndarbótar. Nei, nei, nei, aldeilis ekki. Fegurðin og þörfin var öllu ofar.
 
Og leiðarhöfundur Morgunblaðsins bætir við:
 
Í fréttum í gær kom fram að nú er þrýst á Katrínu Júlíusdóttur að bjóða sig fram sem varaformann í Samfylkingu. Sigríður Ingadóttir staðfesti að hún væri undir miklum þrýstingi um framboð til embættisins. Þá sagðist Oddný Harðardóttir beitt miklum þrýstingi og Ólína Þorvarðardóttir viðurkenndi að hún byggi einnig við mikinn þrýsting. Þetta er auðvitað þrúgandi fyrir fólk sem ekki hefur áhuga á persónulegum frama.
 
Sagt er að núverandi varaformaður, Dagur B. Eggertsson, sé útilokaður, af því að hann sé ekki kona og eru getgátur um að hann sé undir auknum blóðþrýstingi fyrir vikið. 
 
Þegar þarna var komið sögu, raunar var leiðaranum lokið, þá gat ég ekki stillt mig og lét það eftir mér að hlægja hressilega. Svo las ég Pistilinn eftir Kolbrúnu Bergþórsdóttur og enn batnaði skapið þennan morgun. 

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband