Ætlast er til að fólk noti strætó eða hjól - ekki bíl

Í Morgunblaðinu í morgun er frétt um nýbyggingu sem verið er að hanna við Brautarholt sjö og ætluð er námsmönnum.

Athygli nágranna beinist að því að engin bílastæði eru ætluð fyrir íbúa nýja hússins. Í fréttinni segir:

Ætlast er til að stúdentar noti fyrst og fremst almenningssamgöngur og hjól sem ferðamáta,  samkvæmt tillögunni. „Þetta er tækifæri til að snúa við þeirri þróun þar sem gert er ráð fyrir að fólk eigi bíla,“ segir Margrét Leifsdóttir, arkitekt og verkefnastjóri deiliskipulagsins.

Þvílíkt bull sem þetta er. Þarna á sem sagt fólk að búa sem ekki á bíl og mun aldrei eignast meðan á dvöl þeirra stendur þarna. Skiptir engu þótt það eignist barn og þurfi leikskólapláss í öðrum bæjarhluta eins og svo oft gerist. Ekki er ætlast til að fólk utan af landi búi þarna en nokkuð algengt er að það eigi bíl.

Sem sagt, nota á tækifærið til að þvinga fullorðið fólk til að eiga ekki bíl og nota strætó eða reiðhjól. Þetta er ágætt viðhorf þangað til að inn í þetta hús flytur fólk sem síðar kann að vilja eiga bíl af ástæðum sem engum koma við nema þeim sjálfum. Hvar er þá bílastæðið? Jú, þá verða enn færri um fá bílastæði á þessum slóðum.

Staðreyndin er ósköp ljós. Hér er verið að hanna húsnæði og reynt að spara byggingarkostnað, hámarka nýtinguna með því að hafa engin bílastæði. Um leið er verið að gera tilraun sem dæmd er til að mistakast og þess í stað verður skortur á bílastæðum þarna rétt eins og í gömlu hverjum Reykjavíkur sem voru byggð á þeim tíma er bíll var næstum því munaðarvara.

Annars hélt ég að það væri skilyrði að hverri íbúð sem byggð væri í Reykjavík fylgdi að minnsta kosti eitt bílastæði. Ætla borgaryfirvöld að samþykkja svona vitleysu?

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Þegar lesin er hin nýja byggingareglugerð, 112-2012, kemur margt skrítið í ljós. Fyrir það fyrsta er hún nærri helmingi lengri en sú er áður gilti, 441-1998 enda margt nýtt og sumt ágætt í henni.

En annað er undarlegra. T.d. er tekið á því hver loftræsting á að vera í hinum ýmsu rýmum húsa og þar kemur fram að loftskipti skulu vera 15l/sek í salernum starfsfólk og íbúa, en 20l/sek fyrir gesti. Það er spurning hvort þurfi þá að hafa tveggjahraða viftu á salernium í því húsnæði sem einungis er með eitt slíkt herbergi.

Það sem þó kemur mest á óvart og tengist beint þessu bloggi þínu Sigurður, er að í hinni nýju byggingareglugerð eru engin ákvæði um fjölda bílastæða. Í stað þess er vísað til deiliskipulags sveitarfélaga. Þó skal alltaf gera ráð fyrir bílastæðum fyrir fatlaða, enda í samræmi við þær áherslur sem þessi nýja byggingareglugerð hefur á aðgengi og þarfa þess hóps, sem er gott mál.

Í byggingareglugerð 441-1998, þeirri sem gilti á undan þessari nýju, kemur fram að lágmarksfjöldi bílastæða við íbúðahúsnæði skuli að lágmarki vera 1 stæði fyrir hverja íbúð undir 80 m2, en 2 stæði fyrir hverja íbúð sem er stærri en 80 m2. Um annað húsnæði er mismunandi fjöld bílastæða, t.d. skal vera 1 stæði fyrir hverja 36 m2 af verslunarhúsnæði. Bílastæði fyrir fatlaða skal vera 1% af fjölda stæða en þó aldrei færri en eitt. Þá skal hafa aukastæði ef fjöldi íbúða í húsi fer yfir ákveðin mörk.

Þá er ákvæði um undanþágu, í eldri reglugerðinni, frá fjölda bílastæða, verði þeim ekki með nokkru móti komið við hjá viðkomandi húsi. Annars vegar er heimilt að skilgreina lóð í nágreninu sem bílastæði fyrir viðkomandi hús og falla þá niður öll önnur not af þeirri lóð og hins vegar er heimilt að sleppa bílastæðum enda greiði þá húseigandinn bílastæðagjöld til sveitarfélagsins, sem mun þá væntanlega vera skilt að skaffa stæði ætluð viðkomandi húsnæði.

Þessi breyting á byggingareglugerðinni, að færa ákvörðun þess efnis hvort eða hversu mörg bílastæði skuli vera við húsnæði, til sveitarfélaga getur ekki verið til góðs. Þá er í raun verið að færa lagasetningu frá Alþingi til hvers sveitarfélags fyrir sig, jafnvel einstakra fulltrúa þeirra. Misvitrir pólitíkusar geta þá verið að hræra með þetta mál eftir geðþótta, einfaldlega skilgreint þetta frjálst í deiliskipulagi og ákveðið síðan eftir geðþótta hverju sinni hvernig staðið skuli að þessu.

Gunnar Heiðarsson, 10.1.2013 kl. 11:42

2 Smámynd: S i g u r ð u r   S i g u r ð a r s o n

Bestu þakkir fyrir ítarlegar athugasemdir. Kemur mér mikið á óvart sem þú fjallar um. Er fyllilega sammála niðurlaginu. Þarna er kominn grundvöllur þess sem ég er að gagnrýna í pistlinum. Þetta snertir þó fleiri en íbúa hússins, þetta kemur nágrönnum við.

S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 10.1.2013 kl. 11:52

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband