Rukkaði fjármálafyrirtæki selda og afskrifaða kröfu?
7.1.2013 | 01:42
Fann þessa frétt á svipan.is. Finnst ástæða til að birta hana hér svo til orðrétta. Ég hef ekki heyrt af neinum svona dæmum en í þeim hluta athugasemda með fréttinni sem teljast málefnalegar, eru nokkrir sem þekkja dæmi um svipað.
Svipunni barst eftirfarandi áreiðanleg frásögn:
Lántaki gekk hart eftir því að fá að sjá skuldabréfið sem bankinn var alltaf að rukka hann um afborganir af. Lántakinn hafði ástæðu til að ætla að bankinn hefði þá þegar selt skuldabréfið frá sér og ætti það ekki lengur.
Bankinn sýndi lántakanum allskonar pappíra stimplaða og undirritaða sem staðfest afrit af skuldabréfinu. Lántakinn var ekki sáttur og vildi fá að sjá skuldabréfið sjálft, eins og hann á lagalegan rétt á. [...]
Í framhaldinu kom í ljós að bankinn gat ekki sýnt lántaka frumrit skuldabréfsins. Skuldabréfið hafði verið selt hollenskum aðila. Lántakinn fór hreinlega til Hollands til að kanna málið. Í hollenska bankanum sem hafði keypt skuldabréfið, væntanlega fyrir lítið, var Íslendingnum vel og heiðarlega tekið. Þar fékk hann það svar að löngu væri búið að afskrifa skuldabféfið og nýta til skattaafsláttar í Hollandi.
Til að gera langa sögu stutta þá samdi íslenski bankinn við viðkomandi og greiddi honum háar upphæðir gegn því að þetta kæmi aldrei fram opinberlega.
Svipan hefur fengið heimildir fyrir því að fleiri en einn lántakandi hafi komist að hinu sama, hjá sitt hvorum lánveitandanum.
Skýringin mun vera sú, samkvæmt heimildarmanni Svipunnar úr bankakerfinu, að íslenskir lánveitendur seldu þónokkuð af lánum, sérstaklega bunka af minni lánasöfnum til erlendra aðila á hrakverði.
Viðmælendur Svipunnar mæla með því að lántaki nýti lagaheimild sína og fái að sjá hið raunverulega frumrit skuldabréfsins. Hafi bankinn það ekki undir höndum er hann að innheimta skuld sem hann á ekki. Samritin eru þrjú: Það sem lántakinn á, það sem bankinn á og það sem geymt er hjá sýslumanni. Áríðandi er að láta ekki plata sig með því að bankinn sýni afrit, eða staðfest afrit eða afrit af bréfinu sem geymt er hjá sýslumanni. Ef bankinn getur ekki sýnt sitt eigið raunverulega frumrit, þá er hann búinn að selja það og hefur enga heimild til að innheimta greiðslur af því.
Mæli með að lesa þessu næst pistil á bloggsíðu Marinós G. Njálssonar sem fer nokkuð náið ofan í saumana á þessari frétt, og er í þokkabót nokkuð mikið niðri fyrir.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.