Piers Morgan tekur til varna
30.12.2012 | 14:46
Árlega eru skotið með byssu á að meðaltali 100.000 Bandaríkjamenn. Þar af falla 31.000 manns, 11.000 eru myrtir og 18.000 taka eigið líf. Meira en ein milljón manna hafa fallið fyrir byssum í Bandaríkjunum frá því árið 1968 er Martin Luther King og Bobby Kennedy voru ráðnir af dögum.Hlutfall byssumorða í Bandaríkjunum er 19,5 sinnum hærra en næstu tuttugu og tveggja þéttbýlustu og tekjuhárra ríkja í heiminum. Og Bandaríkjamenn eiga um 80% þeirra skotvopna sem finnast í Ameríku.
Piers Morgan, þáttastjórnandi hjá CNN, tekur til varna vegna ámælis fyrir að hafa sagt við gest í þætti sínum þú ert ótrúlega heimskur maður. Sá er Larry Pratt, stjórnandi Guns Owners of America.
Grein Pier Morgans er afar vel skrifuð og rökföst. Í henni speglast það hyldýpi sem er á milli viðhorfa flestra Evrópubúa og nær helmings Bandaríkjamanna gagnvart skotvopnum og byssueign.
Morgan nefnir þann tvískinnung að hann geti ekki keypt tilteknar vörur í Bandaríkjunum vegna þess að þær eru taldar vera skaðlegar neytendum en hann geti engu að síður rölt inn í Walmart og keypt AR-15 árásarriffill og magasín sem taka allt að 100 skothylki í einu.
Við þetta má ýmsu bæta eins og viðhorf fjölmiðla í Bandaríkjunum til nektar sem er jafnvel svo ýkt að í fræðsluþætti um krabbamein í brjósti má ekki einu sinni birta mynd af konubrjósti. Á móti finnst Bandaríkjamönnum það ekkert tiltökumál að framleiða bíómyndir og sjónvarpsþætti þar sem fólk er myrt á viðbjóðslegan hátt svo blóð rennur í boðaföllum og líkamshlutar veltast um, helst þarf að sýna hryllinginn á hægum hraða (slow motion) svo áhrifin verði sem mest.
Morgan bendir á að rökin um fleiri byssur leið til færri glæpa sé tóm vitleysa. Eftir fjöldamorðin í Dunblane í Skotlandi voru sett afar ströng lög í Bretlandi um byssueign og þar eru nú aðeins framin 35 byssumorð á ári. Í Japan gilda ein ströngustu lög um byssueign í veröldinni og þar voru aðeins tvö byssumorð framin á árinu 2006.
Engin ástæða er til að endursegja hérna efni greinarinnar en ég skora á lesendur að lesa hana. Hún er málefnaleg, hörð en skynsamlega skrifuð að mínu mati.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Það er undarleg staðhæfing að ein milljón hafi fallið fyrir byssum í Bandaríkjunum síðan 1968 í ljósi þess að árlega eru framin eitthvað á milli 12 og 15 þúsund morð þar í landi (sem er mjög mikið) og ekki öll með byssum. Barnamorðinginn notaði borgaralega, hálfsjálfvirka útgáfu af M 16 herriffli, en ólíkt herútgáfunni er aðeins hægt að skjóta einu skoti í einu.
Byssuæðið í Bandaríkjunum er vissulega yfirgengilegt, en þó má benda á að byssueign er enn meiri í Sviss. Þar gegna allir karlmenn herþjónustu hluta úr ári allt til fertugs og, ólíkt því sem gerist annars staðar taka þeir hríðskotarifflana með sér heim.
Vilhjálmur Eyþórsson, 30.12.2012 kl. 21:59
Í Sviss eru allir karlmenn 20 til 30 ára gamlir skyldir til að hafa skotvopn. 18 ára gamlir geta svissneskir ríkisborgarar sótt um og fengið leifi að eiga og meðhöndla skotvopn.
Ekki hef ég heyrt um nein skotvopnavandræði í Sviss?
Kanski er það ekki skotvopnin sjálf sem eru vandamálið, heldur eigendur skotvopnana?
Piers Morgan er stjórnandi viðtalsþáttar og á auðvitað ekki að vera dónalegur og kalla gesti þáttarins ótrúlega heimskar manneskjur, jafnvel þó að gesturinn hafi aðra skoðun á málefninu sem er til umræðu. Svoleiðis dónaskapur hjálpar engum málstað.
Hef ekki skoðað undirskriftasöfnuna þar sem skorað er á Barack Hussein Obama að senda Piers Morgan til síns heima í nokkra daga. Síðast þegar ég fór á vefsíðu Hvíta Húsins fyrir Jól, þá voru komnar yfir 44 þúsund undieskriftir.
Kveðja frá Las Vegas
Jóhann Kristinsson, 30.12.2012 kl. 22:46
Af einhverjum ástæðum sé ég ekki svakalegan mun á milli þess að myrða manneskju með byssu eða á einhvern annan hátt en morðtíðni í Bandaríkjunum er ekkert hærri en gengur og gerist í heiminum, sjá: http://en.wikipedia.org/wiki/List_of_countries_by_intentional_homicide_rate
Að mínu mati væri gáfulegra að rannsaka hvað veldur lágri tíðni morða. Lág tíðni morða er samt eitthvað sem margir frægir húmanistar eru ekki hrifnar af enda vilja minnka fólksfjölda heimsins um marga miljarða. Ég vil samt taka fram að ég er mjög sammála Piers Morgan að það virkar hálf geðveikislegt að banna hluti sem kannski eru eitthvað skaðlegir heilsu fólks en síðan leyfa fólki fyrirhafnarlaust að kaupa sjálfvirk vopn.
Mofi, 31.12.2012 kl. 11:27
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.