Partíið er rétt að byrja segja bókahéðnar

Kápa Fimmvhals

Hverjir skyldu nú vera best dómbærir á bækur og bókakaup? Jú, líklega eru það neytendur, þeir sem kaupa bækurnar. Hins vegar hafa fjölmiðlar í gegnum árin búið til bókajól og spana þá ósjálfrátt upp bæði bókaútgefendur og bóksala svo ekki sé talað um okkur neytendur sem kaupum bækur eins og okkur sé borgað fyrir það en ekki öfugt. Líklega ekki til að lesa heldur gefa, en það skiptir engu.

Mogginn minn bregst ekki þessu erindi í morgun og talar um „partí“ bóksala og bókaútgefenda eins og Bryndís Loftsdóttir, vörustjóri hjá Eymundsson kemst svo smekklega að orði.

Egill Örn Jóhannsson, framkvæmdastjóri Forlagisins segir stoltur að offramboð sé af góðum bókum á markaðnum, enda hefur hann lesið þær allar, ekki bara þær sem hann gefur út. Þetta er álit sérfræðings og við hin stökkvum til.

Auðvitað er rætt við Bryndísi, enda hefur hvorki hún né Eymundsson eða aðrir viðmælendur eina einustu hagsmuni að gæta vegna bóksölu. Enda ræður Kristján B. Jónasson, formaður Félags íslenskra bókaútgefenda sér vart fyrir fögnuði. 

Ekki einn einasti neytandi er spurður. Ekkert er reynt að komast að því hvers vegna við eigum að kaupa bækur fyrir jólin en ekki á öðrum tíma árs. Enginn er spurður um þau leiðindi að langflestar bækur eru gefnar út fyrir jólin. Þó hrekkur út úr formanni bókaútgefenda að sala á kiljum dreifst um allt árið: „... en fórnarlömb þeirrar þróunar hafi aftur verið innbundnar þýddar bækur, sem eitt sinn voru vinsælasta gjafavaran á bókamarkaðnum en sjást nú varla lengur á toppi sölulistanna.“ Sem sagt endurunnar restar.

Þetta er auðvitað allt mjög skiljanlegt enda eru jólin vertíði kaupmanna og seljenda alls konar vöru og glingurs. Og við neytendur dönsum með, hlaupum í kringum gullkálfinn fyrir jólin án þess þó að vita hvers vegna ... bara af því það er svo gaman hjá kaupahéðnum. Var einhver að tala um Jésúbarnið ...? Nei, nei, bara kókjólasveina.

Myndin er af bók sem kom út um mitt ár. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband