Hugsunarleysi Landsbjargar og leti fréttamanna

Hvað er með því fyrsta sem lesandi fréttar um óhöpp eða slys á sjó eða á landi vill vita? Jú, hann vill vita hvar vettvangurinn er. Það er grundvallarmál fyrir utan áhyggjur fólks af vinum og ættingjum.

Ekki dugar fyrir fjölmiðil að birta sem staðreynd að árekstur hafi orðið í „nágrenni Lækjargötu“ þegar hann var í raun og vera á Suðurgötu. Þennan leik iðka þó margir fréttamenn, ef til vill til að fela þekkingarleysi í landafræði eða leti. Veit ekki hvort er verra.

Eflaust má rökstyðja það að fiskibátur sem strandar við Straumnes hafi strandað í nágrenni Aðalvíkur, eins og einn fjölmiðillinn orðaði það. Á vefsíðu Marine Traffic má sjá hvar hver og eitt einasta skip er staðsett og í ljósi þess annað hvort hægt að birta skjámynd af vefnum eða merkja inn á kort og birta.

Þetta beinir augum að Landsbjörgu en vefsíða hennar er uppspretta allra frétta þegar björgunarsveitir eru kallaðar til. Því miður verður að segjast eins og er að ritstjórn hennar er ekki nógu góð. Þetta hef ég sannreynt margoft. Mjög brýnt er að landafræðinni sé gerð góð skil, þó ekki sé til annars en að fyrirbyggja allan misskilning. Fjölmiðlar taka oft fréttir af landsbjorg.is hráar upp. Þess vegna verða fréttirnar að vera skotheldar, ekki vansagðar eins og svo oft vill verða.

Ofangreint afsakar alls ekki meðhöndlun frétta á fjölmiðlum landsins. Þeir eiga að leggja sjálfstætt mat á það sem þeir hirða af vefsíðu Landsbjargar og reyna að auka við fréttina, t.d. með korti eða ljósmynd. Kópí/peist er ekki góð fréttamennska og raunar til mikillar skammar þegar fréttamenn grípa til slíks.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband