Prófkjörin og lýðræðið

Það er ekkert nútímalegt við stjórnmálaflokk þar sem karlar ráða öllu. Slíkur stjórnmálaflokkur á ekki framtíð fyrir sér. Við þurfum ekki kynjakvóta heldur skynsama hugsun þar sem einstaklingurinn er metinn að verðleikum, hvort sem hann er karl eða kona.

Hver skyldi nú hafa skrifað þessi orð? Jú, það er hún Kolbrún Bergþórsdóttir, blaðamaður á Morgunblaðinu, sem ritar Pistil á blaðsíðu 24. Mikið óskaplega er ég sammála henni.

Hún ræðir um prófkjör og gengi karla og kvenna í þeim. Ber saman prófkjör Samfylkingarinnar og Sjáflstæðisflokksins, en í þeim fyrrnefnda eru einhvers konar kynjakvótar sem leiða til þess fyrirkomulags að sé karl kosinn í fyrsta sæti verður kona að vera í næsta sæti, jafnvel þó hún hafi miklu minna fylgi en sá karl sem í það var kjörinn. Með þessu er verið að troða lýðræðinu í form sem það passar engan veginn í.

Á laugardaginn er prófkjör Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík. Þar eru afskaplega gott og frambærilegt fólk í boði. Helst vildi ég kjósa alla en þess er enginn kostur. Ég hef hins vegar haft það fyrir reglu að velja mér fólk og kjósa það í sætið sem það býður sig fram í. Ég vel fólk eftir málefnum, þekkingu þess og reynslu. 

Prófkjör eru ekki fegurðarsamkeppni þó margir taki meira mark á útliti en því sem frambjóðendur segja. Í stað þess að vera markvisst og pólitíkst leiðast frambjóðendur oft út í ofnotkun á orðavaðli, lýsingum sem hefja þá upp til skýjanna. Auðvelt er að láta glepjast af svona auglýsingum og kynningum.

Myndi lesandinn umsvifalaust kaupa glænýtt krem sem í hástemmdum auglýsingum er sagt eyða öllum hrukkum og gera húðina eins og barnsrass á tveimur dögum? Myndi hann kaupa sér jeppa sem sagður er ganga fyrir vatni og um leið framleiða bensín? Nei, varla.

Þetta er ástæðan fyrir því að ég er tortrygginn á auglýsingar. 

Einhvern veginn man ég núna eftir ómerkilegu uppfyllingarefni sem mörg dagblöð nýttu sér hér á árum áður. Gengið var að þjóðþekktu fólki og það spurt um eitthvað sem var söluvænt fyrir blöðin. Einhverju sinni er Friðrik Sophusson, gamall vinur minn, var fjármálaráðherra, var hann spurður að því, ásamt fleiri, stjórnmálamönnum, að hvers konar konum hann heillaðist helst ...

Hið eftirminnilega svar hans var einhvern veginn á þessa leið: Eiginlega finnst mér meira um vert hvað fólk hefur að segja en hvernig það lítur út. 

Þetta fannst mér afar vel að orði komist enda Friðrik skynsamur maður.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband