Verðbólguáhættan og forsendubresturinn

Aukin vissa um endurgreiðsluferil verðtryggðra lána umfram önnur lán leiðir beint af því að verðbólguáhættunni er eytt með verðtryggingu. [...] Verðtrygging skapar þannig vissu um verðmæti endurgreiðslnanna, jafnvel þó að langt sé þar til þær falla til og verðlag þróist með óvæntum hætti í millitíðinni.

Lúðvík Elíasson, hagfræðingur hjá Seðlabanka Íslands, ritar í Morgunblaðið í morgun málefnalega grein undir fyrirsögninni „Verðtrygging og skuldavandi“. Ofangreind tilvitnun er úr greininni.

Gera má nokkrar athugasemdir við grein Lúðvíks sem fyrst og fremst er rituð með hagsmuni skuldareigandans fyrir augum. Það er svo sem allt í lagi en ég sakna þess að hann fjallar lítið sem ekkert um hagsmuni skuldarans. Mig langar til að velta fyrir mér stöðu mála með hliðsjón af greininni. 

Með hruninu stökk breyttust verðtryggðar skuldir. Í sjálfu sér skiptir engu máli af hvaða hvötum fólk tók lán eða hvort það hafi átt að gæta að sér. Slíkt eru einungis vangaveltur sem blasa við eftir að ósköpin hafa orðið. Almennt er varhugavert er að ætla almenningi sömu hugsun og fjármálafólki. Í fæstum tilfellum veltir almenningur fyrir sér hvort gíróseðillinn fyrir greiðslu afborgunar af láni sé réttur - það treystir því einfaldlega.

Breytingar á vísitölum sem hafa áhrif á verðtrygginguna eru tiltölulega hægar í augum almennings, koma „aðeins“ fram mánaðarlega - smáhækka með hverjum mánuði. Aftur verður að taka það fram að fæstir telja það forsendu til að aðhafast eitthvað enda er minnið hverfult og nær ef til vill ekki aftur til þess tíma sem afborgun af láni var eðlileg. Ég hugsa til dæmis ekki eins og fjármálaspekúlant.

Forsendan fyrir lánveitingu og lántöku er yfirleitt miðuð við nútímann hverju sinni, sjaldnast að annar aðilinn muni stórgræða og hinn stórtapa. Eftir hrunið hélt lánveitandinn sínu en látakinn stórtapaði. Þar með brustu forsendur fyrir lánum og ekki var lengur jafnræði með aðilum. Hefði skuldarinn hugsað eins og fjámálaspekúlant hefði hann líklega ekki tekið lán nema að skilmálar hefður verið aðrir. 

Rétt er að verðbólguáhættunni er eytt með verðtryggingunni. Gallinn er hins vegar sá að verðtryggingin er einhliða, þar hallast allverulega á skuldarann.

Afleiðing af þessum vangaveltum hljóta því að vera tvær. Annars vegar að skuldari og skuldareigandi standi jafnfætis í viðskiptum sínum. Hér er átt við að laun séu verðtryggð á borð við lánin eða að hvorki laun né lán séu veðrtryggð.

Hins vegar er það krafan um ábyrgð í stjórn efnahagsmála, að verðbólgan sé ekki það eyðandi afl sem geti gert útaf við skuldara. Hingað til hafa stjórnvöld fengið að ráða ferðinni án þess að gerðar séu kröfur um að þau haldi sig innan eðlilegra viðmiðana. Ýmislegt bendir til þess að nú krefjist almenningur hins gagnstæða.

Þetta allt saman er ekki nóg. Sé leyst úr vandanum samkvæmt ofangreindu standa þeir enn í sömu sporum sem óumbeðið hafa stórtapað á lánum sínum vegna þess að varla er hægt að breyta gildandi lánasamningum nema þeir séu á einhvern hátt ólöglegir (sem þó virðist ekki duga í gengislánunum). Tugþþúsundir manna töpuðu á hruni fasteignamarkaðarins og íbúðalán þeirra eru oft hærri en sem nemur skuldunum.

Ekki heldur leysir þetta úr því kreppuástandi sem ofangreint hefur valdið í þjóðfélaginu enda ljóst að slæm skuldakjör og kreppa í eignastöðu fólks á ríkan þátt í samdrætti í atvinnulífinu, atvinnuleysi, gjaldþrotum fyrirtækja og annarri óáran sem veltutap í samfélaginu veldur.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband