Prófkjör Sjálfstæðisflokksins í SV kjördæmi lofar góðu
11.11.2012 | 12:26
Þátttaka í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í suðvesturkjördæmi var góð, 5077 manns greiddu atkvæði. Til samanburðar tóku aðeins 2.199 manns þátt í prófkjöri Samfylkingarinnar í sama kjördæmi í gær
Ég hvatt til þess í fyrradag að Sjálfstæðismenn í greiddu formanni flokksins atkvæði, það myndi styrkja flokkinn. Hann fékk yfirburðakosningu í fyrsta sætið en af heildinni fékk hann aðeins tæp 54% atkvæða. Það eru vonbrigði.
Ég hefði viljað sjá Óla Björn Kárason, varaþingmann, ná betri árangri, en hann lenti í sjötta sæti. Það verður líklega baráttusætið.
Vilhjálmur Bjarnson er ótvíræður sigurvegari í prófkjörinu. Hann nýtur þess að hafa verið áberandi í sjónvarpi og sem formaður Félags fjárfesta. Hann hefur tekið afar lítinn þátt í flokksstarfi Sjálfstæðisflokksins. Enginn krafa er þó gerð til slíks. Stofuvanir menn í Valhöll eiga ekkert veð í þingsæti og það vita stuðningsmenn flokksins - sem betur fer. Vilhjálmur er traustur maður, réttsýnn og heiðarlegur eftir því sem ég fæ best séð.
Ragnheiður Ríkharðsdóttir og Jón Gunnarsson, alþingismenn, fengu fína kosningu og það er vel. Elín Hirst náði góðri kosningu í fimmta sætið. Hana þekki ég ekkert nema af afspurn en hún kemur vel fyrir enda vanur fjölmiðlamaður.
Ég nefndi alla þessa fimm menn í pistli á föstudagskvöldið og hvatti til þess að þeir fengju góð kosningu. Það gekk eftir. Hefði þó líka getað nefnt Friðjón R. Friðjónsson, ráðgjafa, sem ritaði í mörg ár afskaplega málefnalega og rökfasta pistla á Moggablogginu.
Þegar upp er staðið held ég að niðurstaða prófkjörsins sé nokkuð góð og þar sé valinn maður í hverju rúmi.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.