Flugvöllurinn verði áfram í Reykjavík
8.11.2012 | 10:43
Furðulegt er að fylgjast með rökfærslu í umræðupólitíkinni undanfarin misseri. Nú eru hagsmunir ljótt orð sem og allar tengingar við það t.d. hagsmunagæsla. Þetta datt mér í hug þegar ég las dæmalaust óvandaða grein í Mogganum í morgun eftir Gunnar H. Gunnarsson, verkfræðing, og Örn Sigurðsson, arkitekt. Greinin á að einhvers konar andsvar gegn skrifum sjö bæjarstjóra sem vilja að flugvöllurinn í Reykjavík fái að standa áfram.
Þeir tvímenningar nefna greinina Bæjarstjórarnir sjö í bullandi kjördæmapoti. Þeir höfðu samt ekki árangur sem erfiði vegna þess að samstundis fékk ég samúð með málstað bæjarstjóranna. Ég tek raunar ofan fyrir sjömenningunum að halda þessu máli vakandi enda er það gríðarlegt hagsmunamál fyrir þjóðina að ekki verði hreyft við flugvellinum.
Það eru líka hagsmunir Reykjavíkur og þar með borgarbúa að flugvöllurinn verði áfram á þeim stað sem hann er núna. Rökin eru margvísleg. Nefna má að flugvöllurinn skapar atvinnu og ekki síður tekjur til borgarinnar. Flugvöllurinn gagnast landsbyggðinni afskaplega vel en myndi ekki gera það yrði hann fluttur. Raunar benda líkur til að innanlandsflugið muni að stórum hluta leggjast af verði flugvöllurinn fluttur.
Ég er afar ósáttur við röksemdafærslu þeirra Gunnars og Arnars. Þeir fara með staðlausa stafi, veltast um í einhverju rugli um fjórflokk, landsbyggðin stjórni Alþingi og svo framvegis.
Þá er ekki úr vegi að ég gefi út kosningaloforð, þar sem ég er í framboð í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík vegna Alþingiskosninganna næsta vor.
Nái ég þeim árangri í prófkjörinu að ég fái sæti á framboðslistanum í Reykjavík mun ég leggjast gegn öllum áformum um að flytja flugvöllinn. Punktur.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Ég er sammála þér með flugvöllinn og landsbyggðarfólk á fullan rétt á að segja skoðun sína í þeim málum, enda er flugvöllurinn þeirra eins og okkar í Reykjavík.
Það væri gott ef fleiri frambjóðendur lýstu yfir sínum stefnumálum í komandi kosningum.
Gangi þér allt í haginn.
Kv. Jón Th.
Jón Thorberg Friðþjófsson, 8.11.2012 kl. 11:56
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.