Skagaströnd, höfuðstaður Norðurlands
8.11.2012 | 09:44
Akureyri er ekki höfuðstaður Norðurlands. Hefur aldrei verið það þó svo að margir burtfluttir Akureyringar dásami æskustöðvarnar og vilji halda þessu fram. Hreppakrytur koma einnig að þessu og vilja margir bæjarfulltrúar halda þessu fram í þeirri von að nafngiftin skapi þeim einhverja sérstöðu, nái að fá einhvern forgang gagnvart öðrum. Það er nú langt í frá að það geti gerst.
Fyrir þá sem ekki vita þá er Norðurland frá Hrútafirði í vestri til Langaness í austri. Landshlutinn er gríðarlega ólíkur innbyrðis og ekki furða þótt honum sé að öllu jöfnu skipt í Norðurland vestra og eystra. Raunar ætti þriðja skiptingin að fylgja með sem er Eyjafjörður. Veðurfarslega eru þessu hlutar Norðurlands afar ólíkir. Menningarlega eru þeir ólíkir sem auðvitað er mjög jákvætt. Fólkið er mismunandi og markast ef til vill af nánasta umhverfi sínu.
Ég bjó í nokkur ár á Norðurlandi vestra og aldrei varð ég þess var að nokkur maður liti þar til Akureyrar sem höfuðstaðs. Þangað er fátt að sækja fyrir íbúana, hvorki í stjórnsýslu né annars. Jú, auðvitað má ég ekki gleyma því að veikist einhver alvarlega þá verður hann að fara til Akureyrar eða Reykjavíkur því svo illa hefur verið dregið úr heilbrigðisþjónustu annars staðar.
Akureyri er fallegur bær og þar býr gott og duglegt fólk. Ekki flögrar að mér að halda það að allir Akureyringar telji bæinn sinn höfuðstað nema auðvitað nærsveitanna. Og ekki heldur flögrar það að mér að segja eins og Austfirðingurinn sagði: Það er svo óskaplega gaman að koma til Akureyrar en enn betra er að fara þaðan. Þetta er auðvitað illa sagt nema það sé slitið úr samhengi við gamanið sem það hlýtur að tilheyra.
Hins vegar er ég á því að ef einhver staður á Norðurlandi eigi skilið að vera höfuðstaður Norðurlands þá er það Skagaströnd. Hvergi annars staðar er jafnmikið menningarlífs, ríkt skólastarf, viðkunnanlegri stjórnsýsla, meira íbúalýðræði, fleiri listamenn og fallegra mannlíf - ja, nema ef vera skyldi á Blönduósi, já eða Sauðárkróki, og ekki má gleyma Hvammstanga eða Hofsós, já og Þórshöfn, Kópasker, Raufarhöfn Húsavík, Grenivík eða Grímsey ...
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.