Furðulegir snúningar forsetaframbjóðenda
6.11.2012 | 10:28
Þegar lítill munur þótti á fólki hér áður fyrr var oft sagt að sami rassinn væri undir því öllu. Með góðum rökum má segja að lítill munur sé á stóru flokkunum Bandaríkjunum. Þess vegna er það svolítið undarlegt að fylgjast með kosningabaráttunni héðan af Íslandi þar sem báðir flokkar myndu áreiðanlega halda því fram að ríkti kommúnismi.
Mitt Romney var ríkisstjóri í Massachusetts á árunum 2003 til 2007. Þar átti hann við ramman reip að draga því demókratar réðu ríkum á ríkisþinginu og barátta Romneys við meirihlutans nær vonlaus. Hann notaði til dæmis margoft neitunarvald sitt gegn lögum sem ríkisþingið samþykkti margsinnis en það var alltaf brotið til baka aftur.
Þó furðulegt megi telja lagði hann fram frumvarp á ríkisþinginu um heilbrigðismál, Health Care, sem raunar var nefnt Romney Care, og fékk það samþykkt. Þvert á þessa stefnu sína hefur hann lagst hart gegn Helath Care stefnu Obama. Hann hefur auk þess farið nokkrar hringi í fóstureyðingarmálum og virðist nú vera harður andstæðingur þeirra.
Barak Obama hefur tvímælalaust valdið vonbrigðum sem forseti þó fullyrða megi að hann muni hafa betur í forsetakosningunum í dag. Hann hefur þótt úrræðalítill og óákveðinn. Hefur lítil tök á samflokksmönnum sínum á þingi og gerir lítið í því, mörgum til mikillar gremju. Og rétt eins og Romney hefur hann farið í nokkra hringi með stefnumál sín. Hann ætlaði að draga Bandaríkin út úr öllum stríðsátökum en það gekk ekki eftir heldur hefur hann þvert á móti aukið við þau með þvi að heimila árási með ómönnuðu herflugvélum sem hann skirrist ekkert við að nota. Fangabúðirnar á Kúbu standa enn þrátt fyrir að lokun þeirra hafi verið kosningaloforð hans.
Ég held engu að síður að Obama vinni kosningarnar. Hann hefur mildilegra yfirbragð en Romney sem lítur út fyrir að vera haukur í flestum málum.
Fyrir okkur Íslendinga er munurinn á milli þessara frambjóðenda sáralítill. Okkur þykir til dæmis undarlegt að í Bandaríkjunum skuli ekki vera heilsugæsla á borð við það sem er hér á landi og víðast í Evrópu. Dómskerfið er stórundarlegt. Menntamálin eru í lamasessi. Fátækt er yfirþyrmandi sem og atvinnuleysi.
Mér þykir alltaf dálítið aumingjalegt þegar vinstri sinnaðir íslenskir stjórnmálamenn vilja samsama sig við Obama sem er sagður vinstri maður í sínu heimalandi. Í sannleika sagt eru báðir forsetaframbjóðendurnir sem og flokkar þeirra langt, langt til hægri við Sjálfstæðisflokkinn, svo langt að ég er þess fullviss að stefnuskrá þeirra myndi aldrei verða samþykkt á landsfundi.
Hvernig stendur á því að í 300 milljón manna ríki skulu aðeins tveir flokkar standa uppúr? Við erum með offramboð af stjórnmálaflokkum en erum þó aðeins rétt rúmlega 300 þúsund manna þjóð.
Myndin er eftir Helga Sigurðsson og tekin með ófrjálsri hendi úr Mogganum í dag. Biðst afsökunar á því.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:32 | Facebook
Athugasemdir
Þeir sem með mannúð og manngæsku, frið, lýðræði og mannréttidi á vörum studdu af alefli kúgarana, böðlana, þjóðarmorðingjana og lygarana í kalda stríðinu styðja nú allir Obama. Þess vegna styð ég Romney.
Vilhjálmur Eyþórsson, 6.11.2012 kl. 12:27
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.