Ekki-veiðar og bílatryggingar
4.11.2012 | 10:53
Sé gengið út frá því vísu að takmarka þurfi veiðar á rjúpnastofninum vegna þess að hann er ekki nógu stór standa engin rök til þess að fjölga veiðidögum. Veðrið hefur áreiðanlega verið rjúpunni talsverð ógn enda lífsbaráttan hörð og ekki aðeins vegna veiðanna.
Ég man eftir því að í veiðiferð á Vesturlandi þann 9. nóvember 2001 var snælduvitlaust veður og varla stætt þar sem maður var að snöfla eftir fuglinum. Þessi helgi var gjörsamlega ónýt og enga rjúpu að fá. Enginn krafðist aukaveiðidaga þá.
Þetta man ég svo glöggt vegna þess að það var svo hvasst að þar sem við ókum kom hviða sem bar með sér sand og lakkið á vinstri hliðinni á tveimur bílum okkar stórskemmdist.
Eftirleikurinn var dálítið fyndinn, svona eftirá séð. Við, bíleigendurnir, vorum ekki hjá sama tryggingarfélaginu. Ég fór til Tryggingamiðstöðvarinnar og óskaði eftir því að fá bætur vegna skemmdanna. Svarið var hins vegar þvert nei og hvernig sem ég andskotaðist í félaginu var því ekki breytt.
Eigandi hins bílsins var hjá VÍS. Fyrsta svarið sem hann fékk vegna bóta var nei, rétt eins og hjá mér. Hann gaf sig ekki og hótaði loks að hætta með allar tryggingarnar hjá Vís og fara með þær eitthvað annað. Það dugði og hann fékk bílinn sprautaðan upp á nýtt.
Ekki þýddi neitt fyrir mig að hóta Tryggingamiðstöðinni hinu sama. Þeir hlógu að mér og sögðu mér að fara hvert á land sem ég vildi. Þetta gátu þessir djöflar enda var ég bara með tryggingar bílsins hjá þeim.
Ég lærði þó eitt af þessu. Reglur tryggingafélaganna eru bara fyrir þá sem minna eiga undir sér.
Vilja uppbót á rjúpnadaga | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.