Af hverju kjósum við ekki á netinu?
22.10.2012 | 20:30
Það var ekki fyrr en í sunnudagskvöld að niðurstöður ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu frá því á laugardaginn voru ljósar. Þetta er eins og í vanþróuðum ríkjum en ekki einu af fámennustu og tæknivæddustu ríkjum í heimi.
Þetta er auðvitað til háborinnar skammar. Hvers vegna í ósköpunum höfum við ekki tæknivætt kosningar, gert þær rafvæddar? Í Reykjavík var ekki hægt að klára talningu vegna þess að húsakynni voru svo þröng! Í landsbyggðarkjördæmunum tefst talning vegna þess hversu víðfeðm þau eru.
Auðvitað eigum við að geta kosið með aðstoð tölvu. Hæglega er hægt að gera ráðstafanir til að við getum greidd atkvæði í gegnum öryggisvætt kerfi eins og skattur.is eða bankanna. Á báðum stöðum er þess gætt að óviðkomandi komist ekki þangað nema þeir sem geta gert grein fyrir sér með aðgangsorðum, lykilorðum og jafnvel auðkennislykli. Dugi þetta ekki hlýtur að vera tiltölulega auðvelt að útbúa kosningavef sem er algjörlega öruggur, í það minnsta jafnöruggur og netbanki.
Með þessu ætti að vera hægt að nálgast kjörseðil, kjósa, jafnvel geyma kjörseðil og loks senda. Kjördagur í hefðbundinni merkingu þess orðs myndi breytast frá því að vera sá dagur sem kosið er yfir í að vera síðasti dagurinn til að skila atkvæði í rafrænni kosningu.
Niðurstaða kosningar verður síðan til klukkutíma til tveimur tímum síðar, þ.e. þegar lokið er við að stemma af kosninguna.
Þeir sem vilja kjósa á hefðbundinn hátt verða þó að eiga möguleika á að gera það. Hingað til hafa verið hægt að greiða atkvæði utan kjörstaða og má hugsa sér að þannig verði aðstaðan til atkvæðagreiðslu án rafrænnar aðstoðar.
Með þessu móti næst margt. Þjóðaratkvæðagreiðslur verða auðveldari, allar kosningar ódýrari og einfaldari og niðurstöður koma fljótt.
Undarlegt að skrifa svona pistil. Það er svo margt sem við getum gert á netinu. Við fyllum út skattframtalið, göngum frá bankamálunum, sendum bréf, tölum við annað fólk á Skype eða tölvusíma, leitum okkur upplýsinga, vinnum og sendum umsóknir og svo framvegis.
Af hverju kjósum við ekki á netinu? Þá þurfum við engin sérstök húsakynni, ekki þarf að aka langar vegalendir með atkvæði, utankjörstaðaatkvæðagreiðsla hættir og það verður sjálfsagt mál að efna til þjóðaratkvæðagreiðslna að fullnægðum ákveðnum skilyrðum.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Ég er alveg sammála þér, þetta er eitthvað sem við Íslendingar ættum að vera löngu búin að taka upp.
Halldór Björgvin Jóhannsson, 23.10.2012 kl. 11:22
Alveg sammála, hef oft hugsað það sama. Rámar þó í að hafa lesið skýringu á þessu. Hún var sú að þá væri ekki hægt að tryggja að einhver í kringum mann, væri að þrýsta á um hvað ætti að kjósa. Heimilum landssins skortir klefa og að vera tryggt næði.
En sé það rétt og viðurkennd skýring, sem gæti meira en vel verið, að þá hef ég hugsað það sem lausn að það séu tölvur í hverjum kjörklefa. Það ætti að vera hægt að græja það, með allt okkar duglega fólk með hugbúnað ;)) Þar gæti fólk loggað sig inná, eins og þú t,d. nefnir á skatt.is og farið þannig inná kosningasíðu.
Hef stundum hugsað hvort menn vilji ekki tæknivæða kosningar, því þá er ekki séns eða minni séns, á að freistast í einhverju svindli með útkomu kosninga ? Eða hvort veltan í kringum kosningar, sé svo mikil, að einhverjir smákóngar komi í veg fyrir að missa það gull eða fá mun minna en þeir hafa fengið ?
Hjördís Vilhjálmsdóttir, 23.10.2012 kl. 16:52
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.