Litmyndir úr hildarleik heimsstyrjaldarinnar
19.10.2012 | 11:18
Svo langt er nú orðið frá lokum síðari heimsstyrjaldarinnar að nútímamaðurinn getur varla ekki sett sig í spor kynslóðanna sem þá þjáðust.
Ég velti því fyrir mér hvort ein af ástæðunum sé ekki sú að við þær myndir sem við sjáum úr þessum hildarleik eru að langmestu leyti svart-hvítar og þær blikna einfaldlega í samanburðinum við litadýrð nútímans.
Berum saman efstu myndina, þá svart-hvítu (tekin í útrýmingarbúðunum í Auschwitz) við hinar myndirnar (sú svart-hvíta er ekki tekin af sama manni og hinar). Áhrifin finnast mér allt önnur.
Pressan.is sagði um daginn frá myndum sem birtust á vefsíðunni life.time.com. Þar segir meðal annars:'
Magnaðar litmyndir sem Hugo Jaeger, einkaljósmyndari Hitlers, tók af gyðingum í bænum Kutno í Póllandi komu nýlega í leitirnar. Litlu mátti muna að hann yrði handtekinn og þá hefði þessum myndum líklega verið fargað.
Hugo var einn af fáum ljósmyndurum á árum fyrir stríð sem tók myndir í lit.
Ljósmyndirnar eru teknar í bænum Kutno, sem er um 100 kílómetrum frá Varsjá, höfuðborg Póllands. Gyðingunum var haldið föngnum í gamalli sykurverksmiðju þar sem hundruð þeirra dóu úr vosbúð og kulda.
Ekki er alveg vitað hvað vakti fyrir Jaeger með þessari seríu en svo virðist sem hann hafi reynt eftir fremsta megni að leyfa fólkinu að halda reisn sinni. Á aðeins einni mynd er hægt að greina þýska hermenn.
Ég skoðaði þessar myndir á vefsíðunni life.time.com en þar birtust enn fleiri myndir en á pressan.is. Þær eru allar magnaðar.
Ekki er laust við að sá sem horfir á þessar myndir verði alvarlega hugsi. Fólk er alla tíð eins, það má glögglega sjá. Það vill fá að lifa í friði, sinna sínum nánustu, njóta lífsins, sjá börnin vaxa upp og þroskast. Þannig er mannkynið við fyrstu sýn. Um leið vekur það ótta og ekki síður sorg hversu margir eru tilbúnir til að eyðileggja líf náungans.
Út um allan heim grípa menn til vopna og ráðast á næstu nágranna sína af því að þeir eru af öðru þjóðerni, ættbálki eða kynstofni. Svo þarf ekki mikið til að fólk sé lagt í einelti fyrir engar sakir en stundum er útliti um kennt, kynhneigð eða öðru.
Hér á landi var fólk fyrr á öldum kastað á bálið vegna gruns um galdra. Við ráðumst jafnvel á náungann og misþyrmum honum rétt eins og nær daglega má sjá í fréttum
Í dag ritum við ofbeldisfull ummæli í athugasemdakerfi fjölmiðla, erum tilbúin til að trúa öllu ljótu um náungann, lokum fyrir skynsemina.
Mannkynið er hrikalega ofbeldisfullt og hatrið fær alltof oft að ráða gjörðum. Þá er stutt ekki í ofbeldið, jafnvel hjá okkur Íslendingum?
Er það ekki sorglegt?
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:14 | Facebook
Athugasemdir
Þetta er svo vel sagt Sigurður, að ég verð að fá að endurtaka það í athugasemdarkerfinu.
Þetta er einn besti pistill sem ég hef lesið um ævina og hafðu mikla þökk fyrir hann.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 19.10.2012 kl. 14:10
Ánægjulegt að lesa mennskan pistil. Tek undir orð Ómars hér að ofan.
Kveðja að norðan.
Arinbjörn Kúld, 19.10.2012 kl. 15:49
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.