Höfnum tillögum stjórnlagaráðs á morgun

Jón Magnússon rifjar upp á bloggsíðu sinni orð Bjarna Benediktssonar, fyrrum forsætisráðherra, sem sagði um stjórnarskrármálið (feitletranir eru mínar):

Ég hef ætíð talið að það skipti ekki öllu máli, hvort stjórnarskrárbreytingar yrðu afgreiddar árinu fyrr eða síðar. Miklu meira máli skipti, að þjóðin áttaði sig til hlítar á, um hvað væri að ræða, og eftir ítarlegar umræður og athuganir yrðu sett þau ákvæði sem skaplegt samkomulag gæti fengist um, svo að hin nýja stjórnarskrá hins íslenska þjóðfélags um langa framtíð.

Mikið finnst mér hér vel að orði komist. Dálítið annað en viðhorf þeirra stjórnlagaráðsliða sem hæst gapa og krefjast með munnsöfnuði að tillögur þeirra verði þjóðin að samþykkja og Alþingi megi enga skoðun hafa á þeim.

Hógværð og málefnaleg afstaða Bjarna Benediktssonar, fyrrum forsætisráðherra, sem og annarra góðra manna ætti að vera fyrirmynd.

Það gengur ekki að krefjast stjórnarskrár sem klýfur þjóðina í afstöðu sinni. Það er ekki sú leið sem boðuð var eftir hrunið að við þyrftum að byggja upp nýtt samfélag á grunni samstarfs og gagnkvæmrar kurteisi.

Bjarni Benediktsson, fyrrum forsætisráðherra, sagði í grein sem nefnist Virðum reglur lýðræðis og stjórnskipunar og birtist í bókinni Land og lýðveldi. Þar fjallar hann meðal annars um vísindamenn sem gera tilraunir á músum (bls. 28, III bindi):

Stjórnmálamenn hafa ekki þennan möguleika. Þeir búa ekki í tilraunarstöð, heldur í samfélagi lifandi manna, þar sem hver þeirra athöfn getur ráðið úrslitum um heill og hamingju þegnanna. En því fremur ber að huga að reynslunni, byggja á henni og haga framkvæmdum með þeim hætti, sem best hefur tekist. 

Ég hvet lesendur mína eindregið til að mæta á kjörstað á morgun. Í mínum huga er heimasetan afar slæmur kostur og vatn á myllu þeirra sem vilja kollvarpa gömlu stjórnarskránni og jafnvel skaða fullveldi landsins.

Ég mun krossa við NEI við fyrstu spurninguna. Og til þess að ekkert fari á milli mála um afstöðu mína gegn tillögum stjórnarskrárnefndar mun ég krossa við NEI við aðrar spurningar.

Það er svo margt gagnrýnisvert í þessum tillögum stjórnlagaráðs að ég get ekki annað en hafnað þeim á þennan hátt þó ég sé vissulega tilbúinn til að ræða mörg atriði með jákvæðum huga, en ekki í þessu samhengi. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband