Stjórnvöld sem verja okkur fyrir vinum okkar ...

Íslenskt samfélag er ótrúlega fjölbreytt og oftast skemmtilegt. Ég kann nógu mikið fyrir mér til að geta skipt um ljósaperu. Þegar málin flækjast á ég þess kost að hringja í vin minn og biðja hann um að laga eitthvað í rafmagninu, annar vinur gæti aðstoða við að laga tréverk og jafnvel á ég þess kost á að fá aðstoð við tölvuna. Og á móti kemur að margir vinir og kunningjar biðja mig um að telja fram fyrir sig, aðstoða við að svara skattinum eða jafnvel að skrifa minningargrein.

Eflaust væri ríkisskattstjóri eða fjármálaráðherra vís með að kalla þetta hinn svarta markað og jafnvel íhuga að kæra mig fyrir ólöglega atvinnustarfsemi.

Vissulega er orðið hart í ári eftir nær fjögurra ára óráðstíma norrænnar velferðarstjórnar. En væntanlega verður aldrei svo hart í ári að við samþykkjum að stóri bróðir skipti sér af félagslífi og vináttu fólks. Stjórnvöldum kemur það ekkert við fyrir hvern ég tel fram fyrir né heldur hvort að einhver vinur minn lagfæri eldhússkúffuna sem búin er að vera biluð í mörg ár.

En tökum eftir hvernig málin hafa þróast smám saman á síðustu áru. Í fyrra var ætlunin að banna fólki að baka kökur og annað í fjáröflunarskyni fyrir málstað sem það vildi styðja.

Til að passa okkur, hinn almenna borgara, vernda og gæta, er núna ætlunin að krefjast þess að íþróttafélög og ferðafélög þurfi að punga út með ferðaskrifstofuleyfi.

Ástæðan er sú að íþróttafélög senda ungmenni lengri og skemmri vegalengdir í rútu eða flugvél og stundum þarf að gista einhvers staðar yfir nótt eða tvær.

Eðli máls vegna getur hópur í fimmta flokki í KR að fara til Akureyrar til að skila fótbolta eða handbolta. Akureyringar, Hólmarar eða Ísfirðingar þurfa að fara suður og leika á móti Fram eða Val í einhverri íþrótt. Við veljum okkur ekki andstæðinga í hópíþróttum, tökum bara því sem kemur upp úr hattinum eða hvernig sem leikir æxlast.

Í nærri eitt hundrað ár hefur fólk myndað hópa og félög og farið í ferðir um Íslands. Ferðafélag Íslands var stofnað 1927 og víða um land eru starfandi þróttmiklar deildir sem byggja og reka fjallaskála og bjóða upp á frábærar ferðir. Útivist var stofnað 1975, byggir og rekur fjallaskála og býður eins og FÍ upp á fjölbreyttar ferðir um náttúru landsins.

Er ekki allt í lagi með stjórnvöld? Megum við ekki baka kökur og smyrja flatbrauð og selja til styrktar góðu málefni. Megum við ekki ferðast í friði um landið með góðum félögum undir fararstjórn jafningja? Þarf próf upp á allt? Þarf leyfi fyrir hverri hreyfingu? Eru vinir og kunningjar fyrirfram svindlarar þó þeir aðstoði hvern annan. Á að þurfa ferðaskrifstofu til að skipuleggja rútuferð eða flugferð með íþróttafólki og gistingu?

Nei það er ekki svo. Það er eiginlega kominn tími til að stjórnvöld endurskoði tilganginn með störfum sínum. Hann er að minnsta kosti ekki sá að eyðileggja heilbrigð og uppbyggileg samskipti og félagslíf.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hjálmtýr V Heiðdal

Æ Siggi - þetta íhaldsrugl þitt er út í hött. Það var gerð athugasemd vegna bakstursins á grundvelli heilbrigðislöggjafar. Það er enginn að banna þér að gera vinum greiða - ef það er greiði en ekki starf sem greiðsla kemur fyrir. Þetta er ekkert flókið og þótt þú rífir hár þitt og skegg (myndlíking) þá eru öll vestræn þjóðfélög svona. Jóhanna og Steingrímur hafa ekkert með þetta að gera. Slakaðu nú á og farðu til fjalla. Þá hreinsast kollurinn og þú kemur betri til byggða.

Hjálmtýr V Heiðdal, 17.10.2012 kl. 15:46

2 Smámynd: S i g u r ð u r   S i g u r ð a r s o n

Elsku Týri, þú fylgist ekki með. Stjórnvöld bökkuðu með kleinubaksturinn eftir mikil mótmæli. Og nú ætla Jóhanna og Steingrímur að reyna að gera útaf við Ferðafélag Íslands og Útivist með því að breyta lögum um skipan ferðamála, 73/2005. Auðvitað má bara flokka málefnalegar athugasemdir sem íhaldsrugl, en íhaldsemi er ekki rugl, hún er dyggð og það á reyndur maður sem þú að vita og skilja.

S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 17.10.2012 kl. 16:03

3 Smámynd: Ólafur Björn Ólafsson

Sæll Sigurður,

Það hefur nú oftar en ekki verið svo að ég hafi talið mig til vinstri í pólitíkinni en nú er það orðið svo að ég er alvarlega að íhuga að gerast sjálfstæðismaður.

Ástæðuna má meðal annars sjá á þessari síðu þinni en að öðru leiti þá mun núverandi ríkisstjórn vera að fara fram með þvíliku offorsi gagnvart náunganum að ég er búinn að fá nóg.

Það er allt of mikil forsjárhyggja sem ræður ferðum hjá þessari ríkisstjórn sem ég hef aldrei stutt þó til vinstri ég sé.

Með kveðju

Kaldi

Ólafur Björn Ólafsson, 17.10.2012 kl. 17:53

4 Smámynd: S i g u r ð u r   S i g u r ð a r s o n

Við erum greinilega báðir fullveldissinar, Óli kaldi, á móti ESB. Dreg þá ályktun af blogginu þínu.Uundarlegt að ríkisstjórn sem hælir sér af félagshyggju gangi fram af offorsi gagnvart náunganum.

S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 17.10.2012 kl. 17:57

5 Smámynd: Ólafur Björn Ólafsson

Það er satt að ég er fullveldissinni og það eindreginn.

Svo er ég reyndar líka hlyntur endurskoðun á stjórnarskránni en hún þarf ekki að koma fram eins og meint drög að frumvarpi sem núr er borið undir þjóðina, það er að segja meinlausu hlutarnir af drögunum en ekki þeir veigamestu.

Kveðja

Kaldi

Ólafur Björn Ólafsson, 18.10.2012 kl. 09:20

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband