Aðlögun stjórnarskrár að ESB
17.10.2012 | 11:35
Í tillögum stjórnlagaráðs um nýja stjórnarrskrá segir í 111. grein:
Heimilt er að gera þjóðréttarsamninga sem fela í sér framsal ríkisvalds til alþjóðlegra stofnana sem Ísland á aðild að í þágu friðar og efnahagssamvinnu.
Ekki kemur fram í greininni hvort heimildin sé veitt ríkisstjórn eða Alþingi.
Með þessu ákvæði er opnuð leið til að koma Ísland inn í Evrópusambandið. Fram kemur að bera skal síðar málið undir þjóðaratkvæði. Með þessu getur ósvífið ríkisvald og einfaldur (!) meirihluti á Alþingi komið sér í áróðurslega hagstæða stöðu og það án ... málþófs, svo gripið sé til þess orðs sem vinstrimenn nota jafnan yfir lýðræðislegar umræður andstæðinga þeirra.
Lítum síðan á annað atriði í tillögum stjórnlagaráðs. Í þeim eru engar takmarkanir gerðar á eignarhaldi erlendra aðila hér á landi, til dæmis í sjávarútvegi.
Í ljósi þess sem hér hefur verið nefnt á undan er klárt að verið er að búa í haginn fyrir inngöngu Íslands í Evrópusambandið en þar má ekki á nokkur hátt takmarka möguleika íbúa eða fyrirtækis eins ríkis á fjárfestingum eða kaupum á fyrirtækjum í öðru - jafnvel þó um sé að ræða hinn viðkvæma sjávarútveg okkar.
Í 72. grein íslensku stjórnarskrárinnar er þó afar mikilvæg vörn gegn þessu en þar segir.:
Með lögum má takmarka rétt erlendra aðila til að eiga fasteignaréttindi eða hlut í atvinnufyrirtækjum hér á landi.
Útilokað er að setja samsvarandi ákvæði í lög og síst af öllu verði Ísland aðili að Evrópusambandinu.
Það er því rétt sem Jón Bjarnason, alþingismaður, segir, að verið er með þessu að beygja ísland undir kröfur ESB.
Raunar er það nákvæmlega þetta sem felst í aðlögunarviðræðunum við Evrópusambandið. Í þeim er ekki verið að undirbúa samning sem síðan má samþykkja eða synja. Verið er að aðlaga reglur, lög og stjórnarskrá að kröfum ESB.
Viljum við samþykkja tillögur stjórnlagaráðs undir þessum formerkjum?
Gætu keypt íslensk sjávarútvegsfyrirtæki | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.