Hún fær tækifæri uppi við altarið

Þessa frábæru örsögu með innofinni pólitískri tilvísun er að finna á vefnum Vinstri vaktin gegn ESB:
 
Fósturdóttirin vildi ekki giftast manninum. Steingrímur hikaði og vissi ekki hvað gera skyldi. En húsmóðirin æpti: Hún skal! Hún skal! Ég er búinn að tala við prestinn. Ég er meira að segja búin að kaupa brúðar­kjólinn. Við fósturdótturina sagði hún: Þú jafnar þig á þessu þegar þú hittir hann. Hann er óðfús að kvænast þér.

- Ég er margbúin að hitta manninn og hef oft talað við hann, svaraði Þjóðunn. Ég veit allt um hann og vil ekki giftast honum.

- Hvaða vitleysa er þetta, hrópaði Jóhanna og horfði hneyksluð á Þjóðunni.

En fósturdóttirin sat við sinn keip og sagðist ekki ætla að ganga í hjónaband með þessum manni.

Steingrímur horfði samúðarfullur á fósturdótturina og sagðist verða að viðurkenna að sér hefði aldrei litist vel á þennan ráðahag. Það hnussaði í Jóhönnu. Hún sagðist ekki skilja hvað hann ætti við. Stelpan gæti ekki leyft sér að vera með neitt bölvað múður því að hún hefði aldrei reynt í alvöru að kynnast þessum ágætismanni.

Steingrímur spurði þá varlega hvort ekki væri kannski rétt að doka við með að bjóða í brúðkaupið og biðja jafnframt prestinn að bíða með að koma því að varla yrði gift í bráð.

Nei, það vildi Jóhanna ekki hlusta á:

- Það er nú ekki eins og verið sé neitt að þvinga hana. Hún fær að ráða þessu sjálf, þegar þar að kemur og allt er tilbúið. Þá mun presturinn spyrja hana eins og vant er hvort hún vilji ganga í hjónaband með þessum manni. Og hún fær þá tækifæri til að segja já eða nei!

Steingrímur klóraði sér í skallanum. En fósturdóttirin rauk á dyr og skellti hurðum.  

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnlaugur I.

Þessi hárbeitta háðs saga er mjög góð og lýsir alveg þessum ótrúlegu blekkingum ESB trúboðsins á Íslandi, þ.e. að alls ekki megi neitt spyrja þjóðina eða kjósa um aðildarumsóknina langdregnu fyrr en búið sé að fullu og öllu aðlaga þjóðina að ESB valdinu.

Þá fyrst og alls ekki fyrr megi þjóðin sjálf fá að segja beint og milliliðalaust álit sitt, "já" eða "nei" á þessum afarkostum !

Gunnlaugur I., 16.10.2012 kl. 22:33

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband