Býð mig fram í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins

Ég hef ákveðið að taka eitt lítið skref og sjá til hvernig mér vegnar. Ástæðan er einfaldlega sú að mér þykir nóg komið. Hingað til hef ég ekki hikað við að taka til hendinni og það geri ég ekki heldur nú. Þess vegna hef ég ákveðið að bjóða mig fram í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík vegna Alþingiskosninganna á næsta ári. Prófkjörið fram fer laugardaginn 24. nóvember næstkomandi. 

Rautt

Mér hreinlega ofbýður hvernig núverandi ríkisstjórn hefur unnið í kjölfar hrunsins. Þessi svokallaða „norræna velferðarstjórn“ kann greinilega lítt til verka. Hún veður áfram með gamaldags aðgerðir í efnahagsmálum, hefur ekki samráð við nokkurn mann, kollvarpar stjórnkerfinu, ætlar sér að henda stjórnarskránni, ofskattar sjávarútveginn og í þokkabót ætlar hún að koma landinu inn í Evrópusambandið á móti vilja þjóðarinnar. Og er þó fátt eitt upp talið.

Er nokkur hissa á því að maður geti ekki lengur setið hjá. Ég vil taka þátt, forða okkur frá þessum ósköpum. Þess vegna leita ég til Sjálfstæðismanna í Reykjavík og óska eftir stuðning þeirra í prófkjörinu. 

Ef ég ætti að tiltaka nokkur mál sem ættu að skipta hvern mann máli þá vil ég nefna nokkur hér á eftir. 

Skuldir heimilanna og atvinnuleysið

Fjall

Framundan eru fjölmörg verkefni sem almenningur treystir að Sjálfstæðisflokkurinn taki á, verkefni sem vinstri stjórnin ekki getað leyst.  Hún hefur til dæmis klúðrað tveimur mikilvægustu verkefnum þjóðarinnar og segir í þokkabót ósatt um bæði. Hrunið olli mikilli aukningu á skuldum heimilanna og í kjölfar þess jókst atvinnuleysi meira en þjóðin hefur þekkt í tugi ára. Hvort tveggja kostar þjóðfélagið gríðarlegt fé en verst er að staðan hefur valdið eignamissi, óhamingju, óþolandi einangrun fólks, sundrað fjölskyldum og dregið úr getu þjóðfélagsins til uppbyggingar. Sjálfstæðisflokkurinn á því að setja skuldamálin og atvinnuleysið efst á forgangslista sinn. Við höfum ekki efni á öðru.

Verðtryggingin 

Rautt

Á síðasta landsfundi Sjálfstæðisflokksins var mörkuð sú stefna að leggja af verðtryggingu lána sem hefur verið mikill skaðvaldur í þjóðfélaginu. Óréttlæti verðtryggingarinnar er fólgið í því að launatekjur eru ekki tryggðar en skuldir almennings eru það og vaxa jafnt og þétt þó launin standi í stað. Stefna Sjálfstæðisflokksins er loforð og þau ber að efna. 

Atvinnulífið 

Rautt

Efnahagslíf þjóðarinnar mun aldrei ná sér nema atvinnulífið styrkist. Mestu skiptir að auðvelda litlum og meðalstórum fyrirtækjum reksturinn.

Mörg hundruð eða þúsund manna verksmiðjur eru ekki framtíðin fyrir litla þjóð. Hún byggist framar öðru á matvælaframleiðslu, sterkum sjávarútvegi og fiskvinnslu, öflugum landbúnaði, þjónustu við innlenda og erlenda ferðamenn, umhverfisvænum iðnfyrirtækjum og orkuvinnslu í sátt við landið. Engin sátt er um ruddalega álagningu veiðileyfagjalds og hana ber einfaldlega að afnema.

Náttúruvernd og umhverfismál 

Fjall

Gönguferðir um landið njót sívaxandi vinsælda enda skemmtilegt og ódýr tómstundagaman. Ef til vill má fullyrða að fólk sem stundar útiveru og ferðalög þekki landið mun betur en fyrri kynslóðir. Það er ánægjuleg þróun. Fyrir vikið er allur almenningur orðin mun meðvitaðri um þá staðreynd að náttúran og umhverfið er mjög viðkvæm og það hefur mikinn skilning á þessum málaflokkum. Þannig er það líka með mig. Ég mun leggja mikla áherslu á þessa málaflokka rétt eins og ég hef gert hingað til.

6. sætið 

Stóll

Flestir vita að stefna flokks markast meira eða minna af áherslum þeirra sem sitja á þingi fyrir hann. Þar af leiðandi er mikilvægt að þingmenn Sjálfstæðisflokksins endurspegli eins og hægt er þann fjölmenna og breiða hóp sem stendur að framboði hans.

Í því ljósi leita ég til Sjálfstæðismanna í Reykjavík og óska eftir stuðning í sjötta sætið í prófkjörinu.

 

 

Um sjálfan mig 

070705-2

Eflaust leikur mörgum sem lesa þessar línur forvitni á að vita eitthvað um mig. Sjálfsagt er að verða við því. 

Fyrir það fyrsta er ég einstæður faðir ... raunar eru börnin mín þrjú öll uppkomin. Þau heita Heiðrún Sjöfn. Hún er 31 árs, býr og starfar með manni sínum í Noregi. Hann heitir Sigmar Ólfjörð Kárason.

Eldri sonur minn er Grétar Sigfinnur, 30 ára, og rekur auglýsingastofuna Babýlon á Laugavegi 7. Flestir þekkja hann sem KR-ing, en hann leikur með meistaraflokki KR í knattspyrnu. Sambýliskona hans er Sonja Hlín Arnarsdóttir, markaðsstjóri hjá Borgun. Þau eiga þrjár dætur, Írisi fimm ára, Rakel sex ára og Unni tæpra tveggja ára.

Yngri sonur minn heitir Bjarki Rúnar, 22 ára, og er við nám í hljóðfræði, „Sound Enginering“ í SAE-Institute í Amsterdam. Hollensk sambýliskona hans er Anna Van Der Berg. 

 

Grasrótin 

Frá sextán ára aldri hef ég verið skráður félagi í Sjálfstæðisflokknum. Ef til vill má segja að ég tilheyri svokallaðri grasrót flokksins. Þúsundir einstaklinga hafa sem sjálfboðaliðar starfað fyrir flokkinn og þeir vinna allt það sem á þarf að halda svo flokkurinn geti verið til, byggt upp stefnmál, kynnt þau, boðið fram til Alþingis og sveitarstjórna svo eitthvað sé nefnt. Í þessum hópi hef ég lengst af verið.

Ég hef setið í stjórn Heimdallar, verið varamaður í stjórn SUS, verið framkvæmdastjóri SUS og að auki setið í fjölmörgum stjórnum og málefnanefndum, sótt flesta landsfundi, starfað og stýrt kosningabaráttu í Reykjavík og víðar. 

 

Menntun

  • Námskeið, t.d. hjá Endurmenntun Háskóla Íslands; t.d. Excel fyrir viðskiptafræðinga, gerð viðskiptaáætlana, námskeið í ritlist og þýskunámskeið í Freiburg í Þýskalandi ofl.
  • Kúrsar í viðskiptafræði í Háskóla Íslands 1990 til 1992 
  • Markaðsfræðingur frá Norges Markedshögskole 1984 til 1987 
  • Kúrsar í lögfræði í Háskóla Íslands 1977 til 1979
  • Stúdent frá Menntaskólanum í Reykjavík árið 1977

 

Starfsreynsla

  • 2012 -  Rekstrarráðgjöf, eigin rekstur
  • 2008 - 2011 Markaðs- og atvinnuráðgjafi hjá Sveitarfélaginu Skagaströnd
  • 2009 - 2011 Stjórnarformaður Ness listamiðstöðvar ehf. á Skagaströnd
  • 2007 - 2008 Ráðgjafi í almannatengslum og markaðsmálum hjá Íslenskum almannatengslum ehf.
  • 2003 – 2007  Rekstrarráðgjöf, eigin rekstur
  • 2001 -  2003  Atvinnuráðgjafi hjá Atvinnuþróunarfélagi Norðurlands vestra
  • 1999 – 2001  Framkvæmdastjóri Jöklaferða á Höfn í Hornafirði
  • 1989 – 1999  Sjálfstætt starfandi við bókhald, uppgjör, skattamál og markaðsmál
  • 1980 – 1984  Stofnandi, útgefandi og ritstjóri tímaritsins Áfangar

 

Skýrslur og rannsóknir

  • Iceland 3D, viðskiptaáætlun í ferðaþjónustu, útg. í mars 2012.
  • Hótel á Skagaströnd, viðskiptaáætlun. Stofnun, bygging og rekstur hótels á Skagaströnd. Gerð fyrir Sveitarfélagið Skagaströnd, útg. haustið 2008. 
  • Aldursgreining í sveitarfélögum 1995 - 2005. Greining á þróun íbúafjölda í sveitarfélögum á Íslandi. Útg í maí 2002.
  • Aldursgreining í sveitarfélögum 1992 - 2002. Svipuð greining og skýrsla og hér að ofan en annað tímabil. Útg. í október 2004 fyrir Byggðastofnun.
  • Endurreisn Blönduóss. Viðskiptaáætlun um uppbyggingu á Blönduósi sem styrkt getur búsetu og atvinnulíf í bænum sem og Austur-Húnavatnssýslu. Handrit 2003.
  • Unga fólkið fór. Skýrsla um aldursgreiningu á Norðurlandi vestra gerð fyrir Byggðastofnun og Atvinnuþróunarfélag Norðurlands vestra, útgefin í júlí 2003. 
  • Jöklasýning á Höfn, viðskiptaáætlun. Útg. í júlí 2003, gerð fyrir Sveitarfélagið Hornafjörð. Fjallar um stofnun fyrirtækis er sjá mun um rekstur jöklasafns á Höfn.
  • Markaðsleg staða ferðamála í Austur-Húnavatnssýslu. Könnun meðal einstaklinga og fyrirtækja í ferðaþjónustu í Austur-Húnavatnssýslu, vorið 2002.
  • Jöklaferðir, markaður og rekstur. Skýrsla um markaðslega stöðu Jöklaferða, tölulegar upplýsingar um rekstur og notkun tækja. Útg. 2001.
  • Viðhorfskönnun hjá Útivist II. Skýrsla um niðurstöður könnunar meðal farþega í öllum ferðum ferðafélagsins Útivistar í júlí 1995. 
  • Viðhorfskönnun hjá Útivist I. Skýrsla um niðurstöður könnunar sem gerð var í júlí 1990 og unnin á sama hátt og Viðhorfskönnun hjá Útivist II og frá segir í lið nr. 8 hér á undan. 
  • Annað: Athuganir á rekstri fjölmargra fyrirtækja og hugmynda um stofnun á rekstri, s.s. rekstraráætlanir, kannanir á skuldastöðu, markaðsáætlanir og fleira.  
 
Ritstörf
  • Gönguleiðin yfir Fimmvörðuháls, önnur útgáfa endurrituð, útg. í júlí 2012
  • Veiði á Skagaheiði, veiðilýsingar, smárit fyrir Sveitarfélagið Skagaströnd,  útg. í febrúar 2012
  • Spákonufell, leiðarlýsingar, smárit gert fyrir Sveitarfélagið Skagaströnd, útg. í júní 2009.
  • Spákonufellshöfði, leiðarlýsingar smárit gert fyrir Sveitarfélagið Skagaströnd, útg. í júní 2008.
  • Gönguleiðir á Suðvesturlandi, handrit, að hluta birt á vefsíðu
  • Gönguleiðir á Goðalandi og Þórsmörk, handrit, að hluta birt á vefsíðu
  • Önnur verðlaun í smásagnasamkeppni Hins íslenska glæpafélags 2004
  • Fimmvörðuháls, bók um gönguleiðina yfir Fimmvörðuháls, útgefandi ferðafélagið Útivist árið 2002
  • Gönguleiðir á höfuðborgarsvæðinu, bók, útg. Skipulagsstofa höfuðborgarsvæðisins 1986
  • Fjallaferðir, handbók íslenskra ferðalanga. Útgefandi Áfangar 1984
  • Pistlar; http://sigsig.blog.is, reglubundin málefnaleg bloggskrif síðan í desember 2006.
  • Önnur ritstörf; fjölmargar greinar í blöð, tímarit og vefsíður um ýmis efni
 
Sjónvarpsþættir
Framleiddi fyrir sjónvarpið tólf þætti um útiveru, mannlíf og ferðalög hér á landi undir nafninu Áfangastaðir. Markmiðið með þeim var almenn landkynning. Þessir þættir nefnast:
  • Básar á Goðalandi
  • Fagrir staðir                               
  • Gengnar götur                            
  • Gönguleiðin milli Landmannalauga og Þórsmerkur
  • Hattver                                       
  • Náttúrulegar laugar
  • Náttúruminjar í Skaftárhreppi     
  • Öndverðarnes.
  • Óteljandi íslenskt
  • Reykjanesfólkvangur
  • Tröll í íslensku landslagi             
  • Vinsælar gönguleiðir                   
Samherji og meðframleiðandi við gerð þáttanna var Guðbergur Davíðsson, kvikmyndagerðarmaðursem sá um myndatöku og eftirvinnslu, en ég sá um val á stöðum, handritsgerð og var þulur í þeim. Þættirnir voru sýndir í sjónvarpinu á árunum 1995 til 1996. 
 
Framleiddi að auki með Guðbergi sjónvarpsþættina „Aðalvík, byggðin sem tæknin eyddi“ og „Messuferð til Aðalvíkur“, gerði handrit þeirra og las texta. Þættirnir voru sýndir í sjónvarpinu 1996. Enn er ósýndur sjónvarpsþátturinn „Jeppar á fjöllum“ sem Sjónvarpið þó keypti 1996.
 
Félagsmál
  • 2007 – 2008 Stjórn Almannatengslafélags Íslands
  • 2001 – 2002  Stjórn Ferðamálafélags Austur-Húnavatnssýslu
  • 1999 – 2001  Ritstjórn Neytendablaðsins
  • 1987 – 1998  Trúnaðarstörf fyrir ferðafélagið Útivist
  • 1984 – 1986  Formaður í Neytendafélagi Reykjavíkur og nágrennis
  • 1984 – 1986  Ritstjóri Neytendablaðsins
  • 1982 – 1986  Sat í umhverfismálaráði Reykjavíkurborgar
  • 1983 – 1986  Stjórn Reykjanesfólkvangs fyrir Reykjavíkurborg

 


mbl.is Býður sig fram fyrir Sjálfstæðisflokkinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Vilhjálmur Stefánsson

Hvað hræðir góða menn frá Suðurkjödæmi???

Vilhjálmur Stefánsson, 10.10.2012 kl. 16:55

2 Smámynd: S i g u r ð u r   S i g u r ð a r s o n

Ekkert. Þekki það út og inn, þ.e. náttúruna, landslagið, allt frá Eyjum og upp á Hofsjökul, frá Reykjanesi til Hafnar - og allt þar á milli. En það er ekki eins og að fólk bíði með öndina í hálsinum eftir að ég taki þátt í prófkjöri, svona eins og þegar forsetinn tilkynnti um framboð sitt.

S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 10.10.2012 kl. 17:05

3 Smámynd: Ólafur Bernódusson

Til hamingju neð þetta skref. Ég mun þó af augljósum ástæðum ekki kjósa þig. Held þó að Sjálfstæðisflokkurinn væri SKÁRRI með fleiri menn eins og þig í forsvari. Gangi þér vel.

Ólafur Bernódusson, 10.10.2012 kl. 17:27

4 Smámynd: S i g u r ð u r   S i g u r ð a r s o n

Takk fyrir það félagi. Hvet þig eindregið til að flytja lögheimilið suður, þó ekki sé nema um stundarsakir, þá gætirðu kosið ;-)

S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 10.10.2012 kl. 17:31

5 Smámynd: Jón Thorberg Friðþjófsson

 Góðan dag

Þetta er allt gott og blessað, en ráðstöfunartekjur okkar hafa nú samt hækkað um tug prósenta, segir Hagstofan, og ekki lýgur hún. 

Það verður erfitt að toppa það.

En gaman væri að sjá þessa þætti þína, ættli Sjónvarpið eigi þá til á diski?

Kv. Jón

Jón Thorberg Friðþjófsson, 10.10.2012 kl. 17:36

6 Smámynd: Jóhann Kristinsson

Hvað gerðist hjá Hótel Skagaströnd?

Var kanski enginn grundvöllur fyrir hótelrekstri á Skagaströnd?

Tek undir þetta hjá Jóni, gaman væri að fá að sjá þessa sjónvarpsþætti.

Kveðja frá Las Vegas

Jóhann Kristinsson, 10.10.2012 kl. 17:53

7 identicon

Til hamingju með þessa ákvörðun og gangi þér allt í haginn.

Kristján B Kristinsson (IP-tala skráð) 10.10.2012 kl. 17:55

8 Smámynd: S i g u r ð u r   S i g u r ð a r s o n

Takk fyrir kveðjuna, Kristján.

Jóhann, þessi viðskiptaáætlun var gerð fyrir Sveitarfélagið Skagaströnd 2008. Svo kom hrunið ... Mjög góðir rekstarmöguleikar voru fyrir hótel á Skagaströnd.

Sjónvarpsþættina gæti félagi minn Guðbergur Davíðsson, kvikmyndagerðarmaður átt, og selt fyrir vægt verð. Netfangið hjá honum er garpur@simnet.is.

S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 10.10.2012 kl. 18:00

9 identicon

Sæll Sigurður; sem aðrir gestir, þínir !

Afleitlega; skipar þú þér í sveitir þar, Sigurður minn - sé mið tekið af ÖLLUM þeim skemmdar- og hryðjuverkum, sem þessi flokks fjandi, hefir fyrir staðið; með, og án liðveizlu hinna 3ja.

Miklu fremur; hefði mér litist á þig, koma fram undir eigin signeti - persónulegu; og öðrum óháður, aldeilis.

Með beztu kveðjum; öngvu að síður, úr Árnesþingi / 

Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 10.10.2012 kl. 18:00

10 Smámynd: hilmar  jónsson

Gangi þér allt í haginn.

hilmar jónsson, 10.10.2012 kl. 18:09

11 Smámynd: Sigríður Jósefsdóttir

Jæja, þar kom að því.  Ég verð þá víst að skrá mig aftur í Sjálfstæðisflokkinn.

Sigríður Jósefsdóttir, 10.10.2012 kl. 18:16

12 Smámynd: Vilhjálmur Stefánsson

Engu að síður vitað í fyrri orð,þá gleðst ég þegar góðir menn gefa kost á sér í Sjálfstæðisflokkinn og gangi þér vel Sigurður. En við Eyjamenn þurfum á sterkum manni að halda sem treystandi er til að gera vel fyrir mannlífið hér og á Suðurlandi.Við Sjálfstæðismenn hér í Suðurk viljum fá menn sem marka má engra þreitu í..

Vilhjálmur Stefánsson, 10.10.2012 kl. 20:15

13 identicon

Gangi þér vel félagi

Rafn Haraldur Sigurðsson (IP-tala skráð) 10.10.2012 kl. 20:45

14 Smámynd: Jóhann Kristinsson

Þakka fyrir svörin Siguður.

Hafði komið á Hótel Skagaströnd fyrir nokkrum árum síðan en svo var það lokað í sumar í þessum mesta ferðamannastraum sem um getur í sögu Íslands, þess vegna var ég svolítið forvitinn.

Gangi þér vel í kosningabaráttuni.

Kveðja frá Las Vegas

Jóhann Kristinsson, 10.10.2012 kl. 22:00

15 Smámynd: Haraldur Haraldsson

Líst bara vel á framboð þitt félagi,mun stiðja þig og mín fjölkyla flest/Kveðja

Haraldur Haraldsson, 11.10.2012 kl. 02:18

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband