Nýi-Fúkki er alveg eins og Gamli-Fúkki
8.10.2012 | 17:59
Á Fimmvörðuhálsi, við enda vegarins stendur Gamli-Fúkki. Hann er ónýtur eins og allir vita sem inn í hann hafa komið. Í hans stað er kominn nýr skáli sem Ferðafélag Íslands á.
Ég fór um síðustu helgi upp á Háls og á leiðinni til baka leyfði ég mér að skoða Nýja-Fúkka. Hann er alveg eins og sá gamli. Báðir eru A-laga. Í hvorugum er salerni og ekkert vatn. Gera má ráð fyrir að Ferðafélagið muni flytja vatn að skálanum enda ætti það að vera auðvelt. Hugsanleg er verður byggt útisalerni eða kamar. Hvort tveggja er misráðið enda krafan sú að fólk geti gengið erinda sinna innanhúss.
Sá nýji er nokkrum metrum austan og neðan við þann gamla. Það er ekki góður staður. Mig minnir að þarna sé alltaf fullt af snjó að vetrarlagi og langt fram eftir vori og sumri. Gamla-Fúkka var viljandi eða óviljandi valinn staður þar sem snjór safnast lítt. Hæðarmunurinn sést vel á meðfylgjandi mynd.
Mér er það hulin ráðgáta hvers vegna Nýji-Fúkki þurfti að vera alveg eins og sá gamli. Lagið á honum er ómögulegt. Gefur litla kosti á gluggum, birtan inni verður lítil.
Þegar ég gekk inn í skálann datt mér í hug að einhver sem ekkert þekkir til gönguferða hafi fengið frjálsar hendur við hönnun hans og smíði.
Stærsti gallinn er hversu andyrið er lítið og þröngt. Það er óskiljanlegt. Göngufólk kemur með bakpoka inn, blautar yfirhafnir, stundum þreytt og hrakið. Þarna er útilokað er fyrir meira en fjóra að athafna sig í einu. Aðrir verða líklega að bíða úti sem er slæmt. Síðan eru fólk nauðbeygt að taka farangurinn inn fyrir anddyrið, hvernig sem ástand hans er. Það getur verið slæmt í bleytu eða snjó. Í slíkum tilfellum er betra að geta geymt hann frammi í rúmgóðu anddyri.
Hvergi er gert ráð fyrir að hægt sé að þurrka fatnað. Það er nú einu sinni eitt það mikilvægasta fyrir göngumann. Þó er lítil gashitari á norðurgafli og gaseldavél á hinum endanum. Það dugar þó varla til.
Ég held að húsið fyllist fljótt af raka þegar fólk kemur inn með blautan farangur og fatnað. Ekki veit ég hvernig húsið ræstir sig. Gamli-Fúkki gerði það illa og þess vegna fúnaði hann að innan og krafðist loks uppnefnisins.
Þó ég skilji ekkert í því hvers vegna Ferðafélag Íslands er að nema landa á Fimmvörðuhálsi finnst mér ekki ósennilegt að það sé til framtíðar.
Sagt er að félagið ætli að eigna sér alla gönguleiðina frá Landmannalaugum að Skógum. Í krafti fjármagnsins er ætlunin að ryðja úr vegi litla Útivist, félaginu má segja að hafi byggt upp ferðir á Fimmvörðuháls á síðustu 22 árum. Það gerði félagið með ótrúlega mörgum ferðum, þeirra á meðal Jónsmessunæturgöngunni, sem margir hafa reynt að herma eftir en engum tekist.
Engu að síður er ástæða til að óska Ferðafélagi Íslands til hamingju með vistlegan skála á Fimmvörðuháls og vonandi verður hann göngufólki til góðs.
Það kemur síðan í ljós hvort skálinn muni einhvern tímann ná því að vera kallaður eitthvað annað en Nýji-Fúkki.
Myndirnar með þessum pistli skýra sig sjálfar. Ekki get ég sagt að ég sakni Gamla-Fúkka, en hann var þó þarna og ef til vill betri en enginn.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:28 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.