Fræga fólkið vill henda gömlu stjórnarskránni
8.10.2012 | 15:12
Fjöldi leikara og annarra sem teljast til fræga fólksins hefur tekið þátt í því að gera auglýsingu um þjóðaratkvæðagreiðslu um stjórnarskrármálið. Auglýsingin er tæknilega vel unninn og hugsanlega má segja að hún sé áhrifamikil vegna þeirra sem leggja nafn sitt við hana. Þótt hún sé eftiröpun bandarískrar auglýsingar skiptir það engu máli. Íslenska útgáfan er góð.
Það breytir þó því ekki að auglýsing er ekki efnislega traust.
Þetta er auðvelt. Fá Ladda, Pál Óskar, Arnar Jónsson, Kjartan Ragnarsson, dr. Gunna og fullt af öðru flottu og frægu fólki til að vera kaldhæðnislegt gegn stjórnarskrártillögum stjórnlagaráðs, snúa svo blaðinu við. Allt er þetta fólk heimilisvinir og við glottum út í annað þegar það segir: Ekki kjósa og svo koma allir frasarnir um tjáningafrelsi, gagsæi í stjórnsýslunni, auðlindir í þjóðareign og svo framvegis.
Þetta minnir mig á herstöðvaandstæðinga. Þeir gátu sungið landinu til dýrðar vegna þess að málið var sett þannig upp að þeir sem voru með Nató og herstöðinni voru gegn landinu, voru með hernaði en gegn friði, með dauða en gegn lífi. Enginn syngur gegn landinu sínu eða móti friði.
Svona einfalt er ekki lífið. Það dugar ekki fyrir hugsandi fólk að þykjast. Hugsandi fólk sættir sig ekki við að Laddi segi því að stjórnarskrárdrögin séu góð, ekki frekar en þegar Jóhanna Sigurðardóttir eða Þorvaldur Gylfason segja það. Og kosningin sem slík er ekki skynsamlegt jafnvel þó Páll Óskar og Steingrímur J. Sigfússon segja það. Þetta er í sjálfu sér ekki þjóðaratkvæðagreiðsla eins og Icesave. Til þess eru kostirnir of skrýtnir. Þetta er skoðanakönnun og sjálfsagt að taka þátt í henni og segja NEI af því að kjósandinn má taka afstöðu. Ef það er eitthvað sem hann er óánægður með í tillögum stjórnlagaráðs þá dugar það til að segja NEI.
Hins vegar er ekki úr vegi að snúa auglýsingunni við. Hvað er svona slæmt við þá stjórnarskrá sem við búum nú við? Af hverju þurfum við að henda henni?
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Við þurfum ekki að henda henni. Við þurfum ekkert nýja stjórnarskrá þó það megi bæta hina gömlu. Það eru Brussel-yfirtökusinnar sem vildu nýja stjórnarskrá frá grunni og rústa okkar gömlu: Stjórnarskrá breytt fyrir ESB-aðild
Ætla að merkja NEI við no. 1 eða mæta ekki.
Elle_, 8.10.2012 kl. 17:27
Takk fyrir athugasemdina, Elle. Mættu á kjörstað og segðu NEI, maður á ekki að gera neitt annað.
S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 8.10.2012 kl. 17:28
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.