Votta skal náttúrlega baðstaði, drykkjarvatn og andrúmsloft

Athygli hefur verið vakin á því að nú vilji ESB setja reglugerðir um náttúrulega baðstaði. Segir frá því líka í Morgunblaðinu í morgun. neðangreint er þó ekki fengið úr fréttinni heldur frá heimildarmanni pistilshöfundar í Brössels.

Ekki er ólíklegt að hið alsjáandi, alltumvefjandi og óskaplegavæntumþyjandi Evrópusamband krefjist þess að Íslendingar taki upp vottun á náttúrulegu drykkjarvatni. Þetta þýðir einfaldlega það að göngufólk á ferð um landið má ekki fá sér að drekka úr:

  • fljótum
  • ám
  • lækjum 
  • sprænum
  • seytlum
  • uppsprettum

Né heldur mega ferðamenn taka snjó sér í munn né heldur bræða á „þartilgerðum“ hiturum til þess að afla sér neysluvatns. Sama er um náttúrulegan ís sem finnst í jöklum landsins.

Gert er ráð fyrir að votta þurfi 1.234.345 vatnsföll af ýmsum stærðum og gerðum. Meðan á undirbúningi vottunarinnar stendur verður alveg örugglega látið „nægja“ að setja skilti við hvert ofangreindra vatnsfalla þar sem varað er við því að drekka vatnið án þess að eftirlitsmaður ESB hafi horft á það og persónulega bragðað á því - og lifað það af. Ekki hefur verið útfært hvernig eigi að votta snjó sem fallið getur og notaður til drykkjar.

Síðan er í undirbúningi vottun náttúrlegra gönguleiða því ótækt er talið að fólk gangi utan malbiks eða steinsteypu án þess að eftirlitsmaður hafi prófað það fyrst - og komist heill frá því.

Áætlað er að vottunarkerfi ESB munu veita 11.23 manns vinnu. Vegna bágs atvinnuástands í Grikklandi, Ítalíu og Spáni mun aðeins fólk frá þessum löndum fá starf við vottunina. Kostnaðinn mun ríkissjóður Íslands hins vega alfarið bera - skiptir engu þó hann lifið það ekki af.

Svo má að lokum geta þess að Evrópusambandinu þykir ástæða til að hugleiða hvort ekki þyki ástæða til að krefjast vottunar á íslensku andrúmslofti ... og telst hér eðlilegt að lesandinn grípi andann á lofti (það verður hins vegar bannað innan skamms nema með leyfi).


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband