Er Ríkisendurskoðun fórnarinnar virði?

Hlustaðu, segir vinur minn stundum, þegar honum finnst ég ekki hyggja nóg að rökum hans. Auðvitað er mönnum best að hlusta fyrst og tala svo. En er það alltaf svo? Getur ekki verið að það sem maður er nauðbeygður að hlusta á sé einfaldlega ekki sagan öll, eitthvað hafi skolast til eða jafnvel, svo gripið sé til fullyrðingarinnar, rangt. Líklegast er best að hlusta með gagnrýni.

Ég hef fylgst með umræðunni um kaup á bókhaldskerfi fyrir ríkið og ávirðingum á hendur ríkisendurskoðunar fyrir að draga að ljúka við skýrslu um málið. 

Einhvern veginn finnst mér bæði málin vera dálítið undarleg. Ég get ekki tekið undir það sem margir segja að Kastljós Ríkisútvarpsins hafi sýnt af sér neina tiltakanlega góð spretti í rannsóknarblaðamennsku. Umfjöllun þess og fréttastofunnar hafa falist í upplestri á skýrsludrögum og birtingu texta á skjá. Þó hefur verið kallað á ýmsa aðila til að sitja fyrir svörum og er það vel. Hins vegar hafa þeir sem átt hafa að svarað verið frekar slakir og sýnilega ekkert erindi átt í Kastljósið eða viðtöl fréttastofu. Þetta á við bæði forsvarsmenn Fjársýslunnar og Ríkisendurskoðunar.

Verst hefur mér þótt að lítið er hlustað á gagnrök bæði fyrir drættinum á skilum Ríkisendurskoðunar og kostnaðarþættinum Fjársýslunnar. Þó þau virðist frekar rýr er þar ýmsilegt að finna sem þeir sem vit eiga að hafa á ættu að taka til umfjöllunar. Nefna má til dæmis að kaupverð bókhaldskerfis og rekstur þess er sitt hvað og gjörsamlega út í hött að blanda saman.

Svo er það hitt, hvernig svona mál komast í hámæli. Auðvitað gengur ekki fyrir Ríkisendurskoðun að hangsa með mál í átta ár og líklega ekki nema eðlilegt að það spyrjist út á endanum. Þá spyr maður sig hvers vegna sé ráðist með slíku offorsi á Ríkisendurskoðun. Og hvers vegna var það fyrsta sem sumir ræddu hvernig mætti verja þann sem upplýsingunum lak?

Á borði þingmanna liggur þingsályktunartillaga um rannsókn á einkavæðingu bankanna. Þó er ljóst að Ríkisendurskoðun rannsakaði einkavæðinguna alla meðal annars vegna kröfu stjórnarandstöðuþingmannsins Steingríms J. Sigfússonar. Ekkert aðfinnsluvert fannst við þá rannsókn og þótti mörgum andstæðingum þáverandi ríkisstjórnar það verulega miður.

Ég velti því nú fyrir mér hvort nú sé verið að draga upp ávirðingar á Ríkisendurskoðun til þess framar öllu að kasta rýrð á hana og verkefni hennar. Þá munu óvandaðir þingmenn og stjórnmálaskýrendur geta fullyrt að rannsókn Ríkisendurskoðunar á enkavæðingu bankanna hafi nú verið með ýmsum göllum enda sé þessi stofnun ekki þekkt fyrir góð vinnubrögð ... Þeir sem ekki hlusta og fylgja rökum, svokallaðir fyrirsagnahausar, stökkva þá upp og grípa þráðinn og spinna enn frekar um þörfina á rannsóknarnefnd.

Þetta er raunar byrjað. Einn forystumanna Vinstri grænna hefur haldið því fram að taka eigi rannsókn Ríkisendurskoðunar um bókhaldskerfi af stofnuninni og stofna sérstaka rannsóknarnefnd um málið. Þingmaður sama flokks, sá er hnuplaði skýrsludrögunum eða fékk þau lánuð, kinkaði svo mikið kolli undir þessari tillögu að heyrðist langar leiðir.

Fylgjumst nú vel með hvernig málið þróast í vikunni. Spunann verður einnig að skoða í því ljósi að nú er að skella á kosningavetur. Ríkisstjórnin má ekki hugsa til þess að athafnir hennar og athafnaleysi verði aðalumræðuefnið til vors. Þess vegna er Ríkisendurskoðun fórnarinnar virði, Fjársýslan skiptir engu í þessu sambandi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband