Verndum Gálgahraun

Gálgahraun

Gálgahraun er eitt af stórkostlegustu stöðum við sjó á höfuðborgarsvæðinu, bæði sem náttúruundur og útivistarsvæði. Samt þekkja það svo fáir og ekki margir sem þangað leggja leið sína. Það breytir því ekki að gildi þess er mikið enda munun augu fólks smám saman opnast.

En hvar er Gálgahraun? Til að leysa úr því í eitt skipti fyrir öll fylgir hér mynd af hluta höfuðborgarsvæðisins. 

Þarna rann hraun fyrir um sjö þúsund árum, alla leið frá Búrfelli, um Búrfellsgjá sem hvort tveggja teljast til náttúruundra og eru ofan við Garðabæ. Þaðan rann hraunið um tíu kílómetra og í sjó fram.

Nafnið er þannig til komið að í norðvesturhluta hraunist heita Gálgaklettar og Gálgaflöt. Nafnið ber með sér kulda og dauða og vissulega er það svo. Þarna var voru sakamenn teknir af lífi og gengu þá líklega Sakamannastíg sem liggur að klettunum. Myndina hér fyrir neðan tók ég af Gálgaklettum.

850930-58

Sakamannastígur lá af Fógetastíg sem enn má sjá og lá yfir hraunið til Bessastaða. Víða á suðuvesturhorninu má sjá staði þar sem umferð kynslóðanna í hundruðir ára hefur mótað veg í land og hart hraun. Þannig er það með Fógetastíg sem líka er kallaður Álftanesstígur. Einnig má nefna Sporhelludal skammt frá Hengli, þjóðleið efst á Hellisheiði og Selvogsgötu sem liggur t.d. frá Helgafelli og yfir Grindaskörð.

Fleira merkilegt tengist Gálgahrauni. Ástæðan fyrir því að ég rita hér um Gálgahraun er ekki aðeins sú að mér þyki mikið varið í það heldur ekki síður vegna þess að í Morgunblaðinu í dag ritar Eiður Guðnason, fyrrum þingmaður, ráðherra og sendiherra, grein um hraunið. Hann vekur athygli á því að bæjarstjórnin í Garðabæ ætli að stórskemma þetta bæjardjásn. Leggja á veg eftir því endilöngu. 

Áftanesvegur

Eiður segir í niðurlagi greinar sinnar:

Þess vegna er mælst til þess að kjörnir trúnaðarmenn fólksins í bæjarstjórn Garðabæjar láti nú skynsemina ráða. Sýni í verki að þeir beri virðingu fyrir náttúrunni og varðveiti þá gersemi sem Gálgahraunið/Garðahraunið er svo komandi kynslóðir fái einnig notið þessarar perlu. Það er skylda ykkar við framtíðina.

Ég tek heilshugar undir þessi orð Eiðs og raunar skil ég ekki í fólki hvernig það getur virt Gálgahraun og söguna svo lítils að það vilji stórskemma þessar gersemar sem Eiður nefnir svo.

Loks er hérna mynd sem er af fyrirhuguðaðri vegalagningu yfir Gálgahraun. Takið eftir því hversu myndin er góð að hún sýnir glögglega hvernig hraunið hefur runnið í sjó fram. Það er sv skýrt afmakað til vestur og austurs. Nú á að leggja vegi og krossgötur nær því ofan í hinn forna Fógetaveg. Og ég spyr til hvers við höfum öðlast þvílíka tækni og burði til þess eins að eyðileggja það sem okkur er kært?

Hugmyndina eiga án efa einhverjir tæknikratar sem þekka ekki umhverfið og bera enga virðingu fyrir því. Ég fæ ekki séð hvers vegna þessar krossgötur hefðu ekki mátt vera miklu sunnar, jafnvel á gamla Álftanesveginum. Fullyrða má að þessi framkvæmd er tómt rugl, fjáraustur sem engan tilgang hefur. Þess í stsað er Gálgahraun stórskemmt. Og bíðið bara. Næst verður skipulögð byggð í þessum þremur þríhyrningum sem krossgöturnar mynda.

Þetta heitir einfaldlega gengisfelling á gæðum lands og sögu. Verndum Gálgahraun.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Anma Davíðs Oddssonar hefði líklega kallað það fólk, sem fer hamförum í mannvirkjagerð á Reykjanesskaga "óreiðufólk". Skeytingarleysi, sem fæðir af sér þekkingarleysi, hefur leitt af sér óreiðu sem engu eirir.

Sunnan við Búrfellsgjá er Kaldá, sem á sér engan líka hér á landi og þótt víðar væri leitað. Áin er eina vatnsfallið á skaganum vestan Elliðaáa og Ölfusár en er þó aðeins efsti hluti gríðarmikils ferskvatnsfljóts, sem rennur undir hraunin út í Straumsvík, sem fékk nafn vegna ferskvatnsstraumsins sem er svo mikill, að í gamla daga þurftu sjómenn ekki að róa í land til að fá sér ferskt vatn með því að dýfa sjóhöttum sínum í sjóinn.

Í stað þess að bora þannig eftir ferksvatni að Kaldá sé ekki skert, hefur ódýrasti kosturinn verið valinn með þeim árangri að búið er að þurrka ána að mestu upp, svo að aðeins rennur smá spræna þar nokkra daga einstaka sumur.

Ómar Ragnarsson, 24.9.2012 kl. 19:57

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband