Langahlíð hefur mikið breyst á 27 árum
19.9.2012 | 16:25
Reykjavík hefur mikið breyst á síðustu þrjátíu árum eða svo. Mestu mundar um hlýnunin og í kjölfarið þann gríðarlega trjávöxt sem í borginni.
Ég hef stundum tekið myndir innan borgarinnar þó svo að mestan áhuga hafi ég á að taka myndir í náttúrunni, það er utan þéttbýlis. Árið 1985 var ég dálítið duglegur að taka myndir í borginni og ástæðan var einfaldlega sú að ég átti þá tvö ung börn og gerði mér stundum að leik að aka með þau hingað og þangað og leyfa þeim að leika sér.
En það var ekki alltaf svo, stundum var himininn svo fagur að ég stóðst ekki mátið og fór út. Þannig var það þann 5. desmber 1985. Sólin var að setjast og varpaði rauðum geilsum sínum yfir höfuðborgarsvæðið. Ég ók upp í Öskjuhlíð og þar var mikið lið í óða önn að brjóta niður gömlu tankana. Þeir höfðu verið leiksvæði okkar krakkanna sem ólust upp í Hlíðunum og var af þeim mikil eftirsjá.
Þá tók ég þessa mynd sem er hérna efst. Þarna blasir við Langahlíð, gatan sem krossar Miklubrautina. Mér fannst hún alltaf stórkostlega falleg, miklu breiðari en göturnar í nágrenninu.
Í æsku minni bjó ég með pabba og mömmu í Barmahlíð, það er efri Barmahlíð, eins og svo oft var sagt vegna þess að Langahlíð skipti henni svo rækilega. Rétt eins og Mávahlíð og Drápuhlíð.
Jæja, ég gerði mér ferð upp í Öskjuhlíð í fallega veðrinu í dag og tók þessa mynd af Lönguhlíð til að eiga fyrir samanburðinn. Klippti hana svolítið til þannig að hún væri sem líkust þeirri fyrir ofan.
Það var nú barasta ekkert auðvelt. Allt hefur breyst svo mikið og gróðurinn tafði för og hindraði góða myndatöku.
En svona hefur nú hún Langahlíð breyst. Enn er gatan svosum eins en umhverfið er allt annað. Torgið á mótum Eskihlíðar, Lönguhlíðar og Hamrahlíðar sést ekki vegnan gróskumikils trjágróðurs og þarna hefur líka verið byggt veglegt fjölbýlishús sem skyggir dálítið á.
Sjáið hversu trjágróðurinn er mikill. Begga vegna Lönguhlíðar skyggir hann á húsin svo mörg hver sjást ekki. Jafnvel með austanverðri Lönguhlíð er trjágróður sem vart var til árið 1985.
Takið líka eftir Miklatúni sem svo hét en hefur fengið aftur það nafn sem ég þekkti úr æsku minni, Klambratún. Ég man eftir því er það var skipulagt og tré gróðursett. Þarna var líka leiksvæði krakka í Hlíðunum.
Þar söfnuðum við í brennu í desember. Eitt árið komu borgarkallarnir og tóku hana yfir og báru mikið drasl í hana og hún kölluð borgarbrenna.
Á Klambratún var sett stytta af Einari Benediktssyni skáldi. Skelfing fannst mér hún einmanna og umhverfið eyðilegt með örfáar hríslur í kring. Þessar hríslur eru nú ábyggilega fimm metrar á hæð.
Langahlíð er miklu flottari gata í dag en hún hefur nokkru sinni verið. Og reykvísku tréin hafa bætt loftslagið í borginni, gert það hlýrra og þar er nú ábyggilega lygnara en fyrir 27 árum.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Þegar ég var táningur bjó ég í efri Barmahlíð. Það var fyrir ævalöngu! Þá voru göturnar þarna ekki malbikaðar og ég man vel þegar verið var að steypa Miklubraut og Klambrar voru enn á Klambratúni.
Sigurður Þór Guðjónsson, 19.9.2012 kl. 19:26
Man eftir þeim tíma, bjó þar sem krakki frá 1959 til 1968. Krakkarnir hrópuðu skafarinn, skafarinn þegar hann sást og sléttaði götuna. Mávahlíðin var stundum sleðagata á veturna. Þá var sól á sumrin og snjór að vetrarlagi. Barmahlíðingar börðust við Mávahlíðinga og Bogahlíðinga. Svo var læðst í garða og mikil afföll urðu af rófum, gulrótum og næpum. Fórum með mjólk á flösku upp í Öskjuhlíð. Þegar við urðum eldri klifruðum við upp á tankanna.
S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 19.9.2012 kl. 20:36
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.