Ósanngjarn stóreignaskattur á eldri borgara
12.9.2012 | 11:23
Já, aldeilis fínt að stóreignaskatturinn skuli nýtast. Gott að þeir sem eitthvað eiga aflögu leggi nú aura til vannærðs ríkissjóðs. Svona segja víst margir en hröpum ekki að niðurstöðu.
Í ágætri umfjöllun í Morgunblaðinu í morgun kemur eftirfarandi fram um auðlegðarskatt á síðasta ári:
- 2.000 landsmenn, 65 ára og eldri greiddu auðlegðarskatt
- Þessir eldri borgarar greiddu tvo milljarða króna, heildarskattheimtan var sex milljarðar
- 340 þessara eldri borgara voru með árstekjur undir einn milljón króna
- Þeir greiddu engu að síður 430 milljónir króna í auðlegðarskatt
Hvernig getur fólk greitt auðlegðarskatt af launum sem eru undir einni milljón króna. Veit einhver hve framfærslukostnaður er á mann? Getur einhver lifað á 83.000 krónum á mánuði eða minna?
Hafi 340 manns ekki aðrar tekjur en innan við eina milljón króna á ári þá þarf það að selja íbúðina sína eða húsið sitt. Ef til vill leigja frá sér.
Þegar upp er staðið sýnist mér að þessi skattheimta sé ekkert annað en eignaupptaka, raunar opinber þjófnaður á lögmætum eignum fólks.
Lítum líka á þá staðreynd að fólk sem hefur í gegnum árin sparað og safnað peningum til að keypt eignir sínar. Alla tíð hefur þetta fólk greitt lögboðna skatta af tekjum sínum.
Og núna, þegar þetta fólk er komið á efri ár, kemur nýr skattur. Skatturinn sem fólkið greiddi áður af tekjum sínum var ekki nóg heldur er að auki greiddur skattur, sem í raun er skattur á tekjur sem orðnar eru að eignum.
Ég geri nú tillögu til hinnar heimsku ríkisstjórnar um nýjan skattstofn. Reiknaðar verði saman tekjur almennings, þær sem ekki voru nýttar til eignakaupa, og þær skattlagðar um 1,5%.
Já, aldeilis fínt að slíkur skattur geti nýst. Gott að þeir sem eitthvað eigi aflögu leggi nú aura til vannærðs ríkissjóðs.
... ha, hvað segirðu, ágæti lesandi? Á þetta fólk ekki pening til að greiða svona skatt?
Því trúi ég nú alveg. Staða þeirra er þá alveg eins og 340 eldri borgara sem krafðir eru um stóreignaskatt og hafa ekki tekjur til að geta greitt hann.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:38 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.