Fjálgur Guðni Ágústsson veit eiginlega ekkert
8.9.2012 | 13:31
Guðni Ágústsson ritar grein í Morgunblaðið í morgun og býsnast yfir því að fréttamaður hafi verið látinn hætta hjá Ríkisútvarpinu. Um leið finnst honum hræðilegt hversu fyrirtækið hefur verið mistækt í starfsemi sinni. Sagt Spaugstofunni upp og jafnvel Hemma Gunn.
Ríkisútvarpið, sem vill nú láta kalla sig RUV til að beina athygli almennings frá þeirri óumflýjanlegu staðreynd að ríkið á og rekur fyrirtækið. Á sama tíma þarf ríkið að setja milljarða króna árlega inn í reksturinn svo það geti staðið undir afþreyingardagskrá sinni. Jafnframt því er afnotagjaldið dregið af okkur almenningi með sérstökum sköttum sem nema tæplega tuttugu þúsund krónum á ári. Engu að síður bægslast fyrirtæið um á auglýsingamarkaði og berst þar við fyrirtæki sem hafa jafnvel einu tekjur sínar af auglýsingasölu.
Ríkisútvarpið er ekkert annað en venjulegt fyrirtæki sem lýtur öllum lögmálum rekstrarins. Nema auðvitað að því leyti að stjórnendurnir búa við þann lúxus að geta rekið það með halla á hverju ári. Ríkið borgar hann.
Þetta á Guðni Ágústsson, fyrrum þingmaður og ráðherra að vita. Honum á einnig að vera það ljóst að á aðra rekstraraðila í sjónvarps- og útvarpsrekstri hallar verulega. Þó gerir Ríkisútvarpið ekkert meira eða betra en aðrir gera nema vegna þess að það getur seilst í vasa skattborgara til að greiða hallareksturinn og dugar það varla til.
Nú bið ég minnv góða vin Pál Magnússon að opna dyr og gluggann hjá sér í risinu í Efstaleiti svo arnsúgur leiki um stofnunina og súrefni komist til svefnugra seggja, sem virðast ekki vita hverjir eru þeirra áhorfendur. Skerið en skerið ekki mjólkurkýrnar eða fólkið sem aflar RÚV vina og virðingar .
Ég skora á sem flesta að lesa þessa grein Guðna. Hann er einn af þeim brúkar fjálgu orðin sem missa þó alla merkingu þegar Ríkisútvarpið er um að ræða. Ekki dettur honum í hug að beina þeim athugasemdum til síns góða vinar Páls Magnússonar að reka nú stofnunina réttu megin við núllið.
Nei, hann á aðeins að halda öllum starfsmönnum sem augu og eyru neytenda hafa vanist. Hina nefnir hann ekki, fólkið sem Guðni sér aldrei, en reksturinn byggir svo mikið á. Guðni heldur nebbnilega að fréttamaðurinn á Suðurlandi hafi verið sá eini sem látinn var fara frá Ríkisútvarpinu í síðustu viku.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.