Svartur, kúbverskur markaður

971117-29Stundum er eins og öll sund séu lokuð og maður telur sig vera í einhverri hættu. Ég rakst á gamlar Kúbumyndir í safni mínu og mundi þá hversu hræddur ég hafði verið eitt sinn þarna á eyjunni.

Þannig var að ég og Inga Jóna Halldórsdóttir, vinkona mín ákváðum að fara með flugfélaginu Atlanta til Kúbu í nóvember 1997. Þetta var nokkuð skemmtileg ferð og furðulegt að upplifa lífið í hinu volaða landi Castrós. Ef til vill finnst einhverjum gaman að lesa um lítið en merkilegt atvik sem henti okkur í þessari ferð. Ég legg þó mikla áherslu á að það sem hér fer á eftir er sannleikanum samkvæmt og ekkert fært í stílinn og frekar dregið úr hættulegustu köflunum til að ofbjóða nú aungvum.

Dag einn tókum við ásamt tveimur vinkonum okkar bíl á leigu og ókum um vesturhluta eyjunnar, sem í raun er engin smá eyja heldur aðeins stærra en Ísland. Stórkostlegt land og fallegt fólk, geðugt og hjálpsamt.

Meðal annars ókum við á okkar silfurgljáandi Ford inn í borgin Pinar Del Rio. Við hefðum vart getað verið meira áberandi enda fór það svo að er við voru í umferðaröngþveiti við borgarmörkinn að tveir hjólreiðamenn nánast hertóku okkur. Þeir kváðust ætla að vera leiðsögumenn okkar, hlustuðu ekki á nein mótmæli, og vegna umferðarinnar komumst við varla lönd né strönd og þeir áttu alls kostar við okkur á hjólunum sínum.

971117-28

Þeir hjóluðu á undan, höfðu gætur á okkur milli þess að þeir spörkuðu í aðra sem einnig vildu segja okkur til vegar. Túristar eru auðlind þarna eins og annars staðar. Við báðum þá að finna veitingahús fyrir okkur. Þeir voru ekki í vandræðum með það en veitingahúsið var nú ekkert venjulegt heldur áreiðanlega bara pallurinn ofan á bílskúrinn heima hjá frænda eða frænku annars hvors þeirra. Gamall skipsstigi var reistur upp við húsið og tipluðum við upp í halarófu. Maturinn var annars alveg þokkalegur þó svo að viðvarandi skortur hafi þá verið á almennilegu hráefni til matargerðar á Kúbu nema á hótelum og viðurkenndum veitingastöðum. Okkur var talin trú um að hænan sem við átum hafi heitið kjúklingur meðan hann var lífs. Bjórinn var engu að síður skárri. 

Eftir matinn veltum við því upp við leiðsögumennina hvort hægt væri að sjá vindlaverksmiðju. Við höfðum heyrt svo mikið af slíkum látið. Þá byrjaði pískur og handapat hjá leiðsögumönnunum og nærstöddum heimamönnum. Við skildum þá ekki mjög vel en áttuðum okkur á því að þarna var eitthvað verið að tala um vindla. Þeir spurðu hvort við vildum líka kaupa sígars. Einhver líkindi gáfum við út á það.

971117-24

Þá tók við eitt undarlegasta ferðalag sem ég hef lent í. Leiðsögmennirnir hjóluðu allt hvað tók, hingað og þangað, í hringi og þvers og kruss, ugglaust til að rugla okkur í ríminu. Loks komum við í lágreist raðhúsahverfi. 

Okkur var sagt að fara út úr bílunum og samþykkti ég og vinkona mín það en tvær vinkonur okkar urðu eftir, líklega í öryggisskini.

Okkur varð boðið inn í hús nokkurt og þá var farið hratt yfir, raunar varð úr eitt lítið maraþonhlaup innandyra. Gengið var í gegnum fyrsta húsið og yfir í hið næst, inn um bakdyr, yfir hjónarúm, inn í faldar dyr, í aðra íbúð, nær því yfir matarborðið í annarri, um herbergi heimasætunnar, inn í eldhús, út úr því og yfir í þarnæsta hús, framhjá sjónvarpi á stofugólfi og loks var staðnæmst við hjónarúm. Tvennum dyrum var skellt aftur og önnur hurðin læst.

971117-15

Við köstuðum mæðinni. Veltum fyrir okkur hvað ætti að gera þarna í skuggalegum herberginu. Mér datt ýmislegt í hug en sá að þetta var engin vindlaverksmiðja. Læddist að mér óþægileg tilfinning enda hafði ég séð svona atriði ótal sinnum í bíómyndum. Ég litaðist um, hvað gæti orðið mér til bjargar með einn aumingjans íslenskri konukind gegn þremur fílefldum kúbverskum náungum sem áreiðanlega voru stórglæpamenn og ætluðu að hirða af okkur allan gjaldeyri og til viðbótar hjörtu og nýru. 

Eftir að hafa fullvissað sig um að við hefðum ekki verið elt, þá lagðist einn kúbverjinn mér til mikillar undrunar á hnéin og þreifaði undir rúmið. Þaðan dró hann fram nokkrir kassa og lagði á bleika sængina og opnaði. Blöstu þá við nokkur vindlabox í kössunum. Af látalátum heimamanna að dæma voru þetta áreiðanlega hinir allra fínustu kúbversku vindlar sem hugsast gat. Mér fannst nú lítið til um annað en verðið. Mörg hundruð dollarar hver askja. Montecristo, Cohiba, Upman Magnum, Partagas Piramides og hvað þeir nú allir heita. Þeir heimamenn litu allir í lotningu til mín og bjuggust við að ég gerði hið sama, felldi tár um leið og ég dreifði seðlum.

971117-102

Ég skoðaði nokkrar öskur og hristi höfuðið. Inga, vinkona mín, sem var meðan á þessu stóð miklu rólegri en ég, sagðist á kjarngóðri íslensku ekki nenna þessu rugli, hún ætti sko ekki eftir að kaupa einhverja vindla á svörtum markaði, raunar alls ekki heldur á neinum opinberum heldur, og rauk út. Við það kom gríðarlegt los á öryggismálin en enginn hafði þó vit á því að halda eftir af henni. Og þarna stóð ég einn eftir eins og illa gerður hlutur en stórglæpamennirnir héldu að ég væri aðalgæinn og ætlaði að kaupa og þess vegna hafi ég sent kellinguna út á meðan. Þeir voru hattlausir en hefðu án efa tekin ofan mér til heiðurs.

Höfuðhreyfing mín olli nokkurra dollara verðlækkun á öllu heila klabbinu. Þeir reyndu að tala mig til á spænsku en dugði lítið, hana skildi ég ekki og þeir voru slakir í ensku. Leiðsögumennirnir höfðu ekki fengið að koma með. Ég hristi bara áfram höfuðið og verðið lækkaði aftur um nokkra dollara til viðbótar. Þeir reyndu að tala mig til. Ég þagði og litaðist um eftir útgönguleið. Kaldlyndi mitt virtist lækka verðið.

Fifty dollars, sagði ég og benti að handahófi á eina öskjuna sem var meira en helmingslækkun. No, no, no, sögðu þeir hneykslaðir. Þung loftið, spennufallið, svitinn og hitinn gerði mig leiðann og gekk því að opnum dyrunum sem Inga hafði ruðst út um. Við þessi tvö skref hrapaði verðið allsnögglega niður í fimmtíu dollara en bara ekki á þeirri öskju sem ég hafði benti á. Ég hristi höfuðið enn og aftur, var eiginlega kominn með hausverk af þessum sífellda hristingi. Gekk rösklega út og þeir á eftir mér. Komst þá að því að leiðin að bílnum var allt í einu miklu styttri en þegar við komum.

Aldrei í samanlagðri sögu svartrar vindlasölustarfsemi á Kúbu höfðu heimamenn lent í öðrum eins prúttara og mér. Einhliða samningaviðræður þeirra héldu áfram allt að bílnum og þvert gegn viðurkenndum öryggisstaðli var reynt að prútta við mig í myrkrinu á bílastæðinu. Mig vantaði hins vegar ekki vindla, reykti ekki og hef raunar aldrei reykt.

Loks kom einn með vindlakassann sem ég hafi bent á og boðið fimmtíu dollara í. Núna gat ég sem sagt fengið hann á því verði. Ég opnaði dyrnar á bílnum og fólkið á bílastæðinu tók andköf. Ég setti í brýnnar og sagðist ekki vilja prútta meira. Hafni menn tilboði mínu einu sinni stendur það þeim ekki til boða aftur. Svo flýtti ég mér að loka, við ókum við á brott í loftköstum og skyldum eftir agndofa Kúbverja.

Ég þóttist hafa sloppið vel og hafði orð á því við stelpurnar. Þær hlógu og skræktu og sögðu að þetta hefði verið mátulegt á mig fyrst ég hefði viljað skoða einhverja árans vindlaverksmiðju. Svo héldu þær því fram að ég hefði bara viljað sjá einhverja kellingu vefja vindil á læri sér ... en það ku vera virðuleg þjóðaríþrótt á Kúbu.

Ég reyndi að útlista fyrir þeim hættuna sem við hefðum verið í og aðeins fyrir hiklausan framgang minn gerðist ekkert ægilegt. Þær hlógu bara. Undarlegt hvað konur geta verið meðvitundarlausar um umhverfi sitt.

Myndir  

  1. Efsta myndin er af framboði svartamarkaðsbraskaranna sem þeir settu fram á hjónarúmið. Tók þessa mynd með dulinni ljósmyndavél sem var í efsta hnappinum á stuttermaskyrtunni minni ...
  2. Næsta mynd er af innganginum í húsið þar sem hin langa ferð að hjónarúminu hófst. Eins og sjá má eru aðstæður frekar sakleysislegar.
  3. Inga Jóna, Elín og Anna Gyða fyrir framan bílinn okkar eftir kvöldverð á óopinberum veitingastað í Pinar del Rio. Annar leiðsögumannanna í gulri peysu og drengurinn í hvítu peysunni gætti bílsins meðan og fékk dollar fyrir. Alltof mikið, fullyrtu leiðsögumennirnir.
  4. Leiðsögumennirnir okkar i „aksjón“, annar í gulum bol og hinn í dökkbláum. Sá í brúnu skyrtunni er njósnari á vegum leyniþjónustu Kastrós sem hefur það verkefni að fylgjast með silfurlituðum Ford bílnum.
  5. Loks er hér ein mynd af ferðafélögum mínum. Ég sýndi þeim risastóra sykurekru og hvatti þær til að bragða á sykurreyrnum. Sér til mikillar undrunar fundu þær engan sykur en jöpluðu samt lengi á reyrnum. Ég sagði ekki orð.

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson

Viva el Ziggi Cigarro! Frábær frásögn úr byltingarparadísinni.

Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson, 9.9.2012 kl. 05:46

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband