Þegar við handsömuðum bankaræningjann Lugmeyer

SS logreglan 1977

Eitt það merkilegasta og fróðlegasta sem ég hef tekið mér fyrir hendur var að vera í lögreglunni tvö sumur, var sumarlögga, eins og það var kallað. Þar kynntist ég fjölmörgum eftirminnilegum mönnum. Marga þeirra þekki ég enn þann dag í dag.

Meðfylgjandi mynd var tekin af vaktinni hans Þorsteins heitins Sturlaugssonar, varðstjóra, en hann er lengst til hægri. Mikill ágætismaður sem hann var.

Þessi hópur vann sér það til ágætis ásamt nokkrum öðrum að grípa þýskan bankaræningja sem lifið hér í stuttan tíma við gott atlæti sem hann hafði vissulega efni að veita sér.

Þannig var að við fengum útkall seint á laugardagskvöldi í ágúst vegna manns sem hafði ótrúlega mikla peninga á sér og fannst þeim sem lét af því vita málið hið dularfyllsta. Við ókum sem leið lá í Álfheima og komum við í Glæsibæ og svipuðumst eftir Volkswagen bíl sem maðurinn átti að vera í. Þá kom tilkynning um að bíllinn væri á leið til okkar þar sem við ókum austur Gnoðavog. Við stoppuðum bílinn kammt frá austustu blokkinni sem þar er milli Gnoðarvogs og Suðurlandsbrautar.

Í lögreglunni 1977

Þórður Hilmarsson (fjórði frá vinstri á myndinni) og Ómar Smári Ármannsson (þriðji frá vinstri á myndinni) voru reynslumiklir og gengu að bílnum. Okkur hinum höfðu þeir Doddi og Ómar sagt að vera á varðbergi ef eitthvað kynni að gerast. Ég gekk út úr bílnum að aftan og var á leið vinstra megin við hann í áttina að fólksvagninum. 

Þá gerast hlutirnir hratt. Einhver hleypur í myrkrinu í fangið á mér svo ég næstum dett og hleypur síðan í burtu. Grípið hann, grípið hann er kallað. Og ég snarsnýst og hleyp á eftir manninum sem nær hafði kollvarpað mér. Hann hleypur yfir gangstéttina og út á grænt grasið og stefnir á Suðurlandsbraut. Ég var þó miklu sprettharðari en hann, náði honum fljótlega og geri þá eins og sést oft í betri löggubíómyndum, skutla mér áfram og gríp um lappirnar á kauða svo hann skellur allharkalega niður. Þá var leikurinn búinn og gafst hann fljótlega upp enda fjöldi lögreglumanna komnir á staðinn.

Náunginn, Lugmeyer, minnir mig að hann hafi heitið, var svo settur í fangaklefa, yfirheyrður og síðar framseldur til Þýskalands þar sem hann tók út refsingu fyrir brot sín. Auðvitað var þetta dálítið skemmtilegt atvik en svo gleymdist það þar til blaðamaður og ljósmyndari komu frá einhverju þýsku tímariti og óskuðu eftir að fá að taka viðtöl og mynda okkur sem höfðum unnið þetta mikla afrek að handsama bankaræningja.

Meðfylgjandi myndir fékk ég svo sendar frá þessu þýska tímariti. Auðvitað gerðist margt skemmtilegt í löggunni en þetta var nú einna frægast og var maður rosalega montinn í nokkra daga. 


mbl.is Lögreglan opnar ljósmyndasíðu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Thorberg Friðþjófsson

Sigurður.

Hann Steini var Alfreðsson.

Kv. Jón Th.

Jón Thorberg Friðþjófsson, 6.9.2012 kl. 19:57

2 Smámynd: S i g u r ð u r   S i g u r ð a r s o n

Þakka þér fyrir, Jón. Þorsteinn Þórir Alfreðsson hét hann fullu nafni. Var einhvern veginn fastur með Sturlaugs nafnið, en sonur hans heitir Sturlaugur, gamall vinur minn.

S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 6.9.2012 kl. 20:27

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband