Guðmundur Páll Ólafsson

Ég las í morgun í Morgunblaðinu fjölda minningargreina um Guðmund Pál Ólafsson sem þekktastur var fyrir fjölda glæsilegra bóka um náttúru Íslands og baráttu sína fyrir umhverfi og náttúru. Persónulega þekkti ég ekki Guðmund en var aðdáandi hans og las bækurnar og fylgdist með baráttu hans. Aldrei þorði ég að banka upp á hjá honum og segja honum frá mínu stærsta lífsins máli og pólitískum viðhorfum mínum tengdum þeim. 

Þegar talið barst að landsins gagni og nauðsynjum endaði hann oft á því að hnýta í íhaldið, sem í hans augum var upphaf og endir alls ills. Þá hvarf fallega brosið. 

Ég leyfi mér að vitna í eina minningargreinina þar sem ofangreind orð er að finna. Guðmundur Páll var vægast sagt óhress með íhaldið, Sjálfstæðisflokkinn. Það þykir mér auðvitað leitt en sýnir í raun hversu litla áherslu þessi flokkur minn hefur lagt á umhverfismál og náttúruvernd. Þetta hefur þó breyst mikið á undanförnum árum. Ég er þess fullviss, veit það af viðræðum á síðustu tveimur landsfundum flokksins og samskiptum við fjölda samflokksmanna. Hvernig má annað vera? Tuguþúsundir landsmanna hafa öðlast áhuga á útivist, gönguferðum og ferðalögum. Nýjar kynslóðir meta landið á allt annan hátt en foreldara og forfeður. Þar er ekki lengur aðeins vænt þar sem vel er grænt. Væn eru líka fjöll, hamrar, eyðisandar.

Sjálfstæðisflokkurinn þarf að taka upp nýja stefnu sem byggir ekki aðeins á nýtingu lands til raforkuframleiðslu heldur not þeirra sem áhuga hafa á ferðalögum og vilja njóta landsins, nýta það fyrir ferðaþjónustu.

Hver í ósköpunum gæti viljað virkja Hólmsárlón? Lítum á Langasjó sem margir vilja eyðileggja. Hvað með Torfajökulssvæðið? Menn vilja sökkva landi við Þjórsá og jafnvel setja Langadal á kaf. Verðmæti litlu og stóru náttúruminja þessa lands eru síst af öllu hægt að mæla í krónum eða gígavatnsstundum. Það vita Íslendingar, stór hluti þeirra sem styður Sjálfstæðisflokkinn, af því að þetta fólk hefur ferðast um landið og þekkir það. Af hverju að breyta landinu stöðugt? Er ekki eftirsóknarvert að geta farið um landið með barnabörnunum og sýnt þeim það óbreytt? Hérna fór afi forðum daga, hér tjaldaði hann ...

Þjóðin hefur misst góðan mann. Guðmundur Páll Ólafsson vann þrekvirki, hann breytti viðhorfum fjölda fólks en átti engu að síður svo óskaplega mikið ógert. Eða eins og Þröstur Ólafsson, bróðir hans segir í minningargrein sinni: 

Ég hélt alltaf að ég hefði nægan tíma“, hvíslaði hann í eyra mér, þegar ljóst var í hvað stefndi.

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband